135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

íbúaþróun utan höfuðborgarsvæðisins.

214. mál
[14:31]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Þarna talaði rödd skynseminnar í Frjálslynda flokknum. Hv. þm. Jón Magnússon talaði hér þvert á það sem hann hefur áður sagt og ættu menn nú að lesa heimasíðu hans þar sem hann kvartaði undan því þegar mótvægisaðgerðirnar voru kynntar að þar væri verið að bera eldsneyti á bál þenslunnar. Akkúrat — og hann kinkar kolli.

Með öðrum orðum, hv. þm. Jón H. Magnússon er í reynd tveir persónuleikar, sá sem skrifar á heimasíðuna sína og sá sem stendur hér í þinginu. [Hlátur í þingsal.] Ég gat ekki varist að nota þessa samlíkingu. (JM: Margur heldur mig sig.)

Hv. þm. Grétar Mar Jónsson er allt of góður og vel gerður þingmaður til þess að koma hér með hrópyrði, ekki síst vegna þess að með ummælum sínum vegur hann að hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson dró saman kjarnann í svörum mínum og sagðist vera sammála þeim. Hann sagði að vísu að svörin hefðu ekki verið nægilega skýr og skammaðist svolítið út í sína gömlu stofnun. En hann sagði hins vegar líka að hann væri sammála mótvægisaðgerðunum og því sem þar kæmi fram. Allt það væri af hinu góða.

Rödd skynseminnar í Frjálslynda flokknum er því sem betur fer miklu bjartari en rödd úrtölunnar. Úrtölumennirnir tveir, (Gripið fram í.) alveg eins og sumir þingmenn Framsóknarflokksins sem hér hafa talað, þeir tala niður landsbyggðina. Allir nema hv. þm. Jón Björn Hákonarson, sem kom hérna og er ekki enn búinn að læra á gangvirkið í Framsóknarflokknum og talaði með öðrum hætti en liðið sem þar situr fyrir á bekkjum. (Gripið fram í.)

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson spurði mig einnar spurningar um Norðurland vestra. Hvað hyggst ég fyrir? Ég sagði að til þess að snúa við þróuninni og bæta stöðuna þar yrði að grípa til einhverra svipaðra aðgerða og menn gerðu á Vestfjörðum. Það kann vel að vera að það gangi ekki nógu langt en það er það sem ríkið (Forseti hringir.) getur gert.