135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

raforkuframleiðsla.

219. mál
[15:07]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Mér finnast allar spurningar hv. þingmanns vera mjög áhugaverðar. Ég vil trúa henni fyrir því að það kostar blóð, svita og tár að rífa svörin við þeim út úr stofnunum. Athyglisverðasta spurningin af þessum þremur sem hún spurði, finnst mér vera hin fjórða sem er ósögð en lá eiginlega í niðurlagi hennar ágætu ræðu áðan.

Hv. þingmaður var að velta fyrir sér þeim átökum sem ætíð eru milli verndunar og nýtingar landsvæða og mér fannst eftirfarandi möguleiki vera rauður þráður í spurningum hennar í dag: Er hugsanlegt að ódýrasti kosturinn til að verða Íslendingum úti um töluvert mikla orku, til viðbótar við það sem þeir hafa núna, sé að styrkja flutningskerfið? Er það hugsanlegt jafnvel þótt það kosti alla þessa milljarða sem ég nefndi áðan með tilliti til þess að afrennsli af jöklum verður töluvert meira í framtíðinni vegna þeirrar dapurlegu þróunar sem verið hefur í loftslagsmálum heimsins? Það er spurning sem er meira en einnar messu virði að velta fyrir sér.

Það kann vel að vera að það sé heppilegasta leiðin til að framleiða orku sem við þurfum á að halda. Ég varð þess áskynja þegar ég kom í iðnaðarráðuneytið í vor að flest það sem menn höfðu sagt um hina miklu orku sem hér væri fljótandi út um allt, var tóm vitleysa. Til mín komu útlend fyrirtæki sem vilja festa rætur á Íslandi og gráta vegna þess að þau geta varla orðið sér úti um 40 eða 50 megavött. Þannig er staðan í dag þannig að mér finnst það vera allrar athygli vert.

Það sem hv. þingmaður sagði síðan um jarðlínur er mjög mikilvægt. Hv. þm. Helgi Hjörvar, formaður umhverfisnefndar, hefur einmitt nefnt á opinberum vettvangi að þegar menn hugsa til framtíðar verða menn líka, í ljósi umhverfisverndar, að skoða málið mjög vel. Kröfurnar eru að breytast (Forseti hringir.) og við verðum að borga meira fyrir (Forseti hringir.) að vera til.