135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

samningur um framleiðslu dagskrárefnis fyrir RÚV.

[15:47]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Í fámennu þjóðfélagi hættir fólki oft til þess að skoða ekki skóginn fyrir trjánum og láta einstaklinga þvælast fyrir því að taka málefnalega á hlutum. Ég get tekið undir með síðasta þingmanni sem hér talaði, Björgólfur Guðmundsson hefur sýnt mikinn höfðingsskap í mörgu. Það er þó eitt, síðan er annað sú aðgerð sem við erum hér að fjalla um.

Hér er um að ræða opinbera stofnun sem fær þriggja milljarða forgjöf á ári umfram aðra fjölmiðla í formi nefskatts samkvæmt 11. gr. laga um Ríkisútvarpið, um tekjustofna. Þegar um slíkt er að ræða og sá samningur sem hér er til umfjöllunar kemur upp veltir maður fyrir sér, eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir vék að í upphafi, hvort samningurinn sé löglegur. Samræmist hann 11. gr. laganna um tekjustofna Ríkisútvarpsins? Hvað er um að ræða þegar hæstv. menntamálaráðherra segir að samningurinn hafi ekkert með tekjustofna að gera? Með hvaða hætti er þetta fært í bókhaldi Ríkisútvarpsins ef það er ekki fært sem tekjur? Ég get ómögulega séð annað en að hér sé um tekjur að ræða og þá getur það ekki fallið undir að það sé löglegt skv. 11. gr. um tekjustofna Ríkisútvarpsins, eða gæti hugsanlega fallið undir undantekningarákvæði 3. mgr., um aðrar tekjur sem Alþingi yrði þá að koma að. Það er kannski mergurinn málsins.

Hv. þm. Ellert B. Schram nefndi knattspyrnulið. Hann mundi ekki sætta sig við það sem eftirlitsmaður með knattspyrnu vítt og breitt um Evrópu að annað liðið fengi alltaf 10 marka forgjöf áður en leikurinn byrjaði eins og á við um það fyrirtæki sem hér er um að ræða. Hins vegar eru merkileg ummæli sem hæstv. menntamálaráðherra lét sér um munn fara, það stæði ekki til að einkavæða Ríkisútvarpið, það ætti að standa svona um aldur og ævi, sem ríkisfyrirtæki.

Ég get alveg unnt (Forseti hringir.) Björgólfi Guðmundssyni þess að eyða peningunum sínum í þetta og önnur góð málefni (Forseti hringir.) en það er atriði að markaðsstarfsemi sé virt og að ekki sé farið á svig við eðlilegar (Forseti hringir.) samkeppnisreglur.

(Forseti (ÞBack): Forseti óskar eftir að þingmenn virði ræðutíma, tvær mínútur.)