135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

fullorðinsfræðsla.

223. mál
[18:41]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf):

Frú forseti. Það er full ástæða til að þakka fyrir umræðuna, þessa fyrirspurn og svarið við henni. Við erum aldrei nógsamlega minnt á hversu mikilvæg fullorðinsfræðsla er og því hve veigamiklu hlutverki hún er farin að gegna, meira en áður. Ég man eftir því að þegar ég var rúmlega tvítugur eða aðeins meira þá fór fólk að taka stúdentspróf í öldungadeild í Hamrahlíð. Það var algjört nýmæli að fólk færi í kvöldskóla og tæki stúdentspróf á fullorðinsárum en þetta skipti gríðarlega miklu máli.

Svo hefur þetta víkkað og stækkað, bæði í tengslum við verkalýðsfélög og ýmsa vinnustaði og margt fleira. Við eigum náttúrlega að gera allt sem við getum til að hafa menntakerfi okkar það opið að allir hafi aðgang að því, ungir sem gamlir, og á sem ódýrastan hátt. En það hefur borið við að framhaldsnám eða nám sem fullorðið fólk sækir (Forseti hringir.) sé töluvert dýrt.