135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

2. umr. fjárlaga.

[11:05]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Alþingi Íslendinga hefur um langt skeið verið mjög veik stofnun. Alþingi Íslendinga hefur því miður sætt sig við það að heyra allt of lengi nánast undir ríkisstjórn landsins. Alþingi Íslendinga er æðsta stofnun þessa samfélags og á að hafa skipulegan vinnutíma, gefa sér langan tíma í að undirbúa mál og ræða þau af skynsemi og festu. Ég ætla því ekki að verja það vald sem mér finnst um langa tíð — þó að ég hafi setið í ríkisstjórn — að ríkisstjórn hafi haft hér í þinginu. Hún hefur of mikið vald, hún á ekki að ráða Alþingi Íslendinga. (Gripið fram í.) Ég hef t.d. minnst á að það skuli vera tveir forustumenn í stjórnmálaflokki sem einir og sjálfir geti matað lög ofan í sitt fólk þó að það sé grenjandi fúlt hér frammi á göngum. Ég minni á breytinguna á Stjórnarráðinu.

Fjárlögin eru stærsta mál Alþingis Íslendinga, mikilvægasta málið, og ég get ekki varið það, hæstv. forseti, að þingmenn fái ekki allan þann tíma sem þeir þurfa og fái að vinna eftir þeim reglum sem hér gilda. Fjárlögin á ekki að taka með afbrigðum, ég ver það ekki. Ég vil sjá skynsamlegra þing. Alþingi Íslendinga kostar eins og minnsta ráðuneytið og hefur sætt sig við það um langan tíma. Það þarf að breyta þinghaldinu, efla þingið, þess vegna skipta því upp í þrjá sterka vinnuhópa sem vinna faglega í nefndum. Hæstv. ráðherrar þurfa að missa völd sín yfir þinginu og þingið sjálft að taka við. Hæstv. forseti á að verða sá sem hér ræður og ríkir.

Ég ætla ekkert að kvarta undan hæstv. forseta á þessum degi en ég vil sjá öflugra þing, skemmtilegra þing. Breska þingið er til fyrirmyndar. Þar rífast menn af kappi og segja meiningu sína stutta stund, ekki í löngum ræðum. Þriggja, fimm og tíu klukkustunda ræður eru vitlausar ræður. Ég segi við vini mína vinstri græna: Að tala er silfur, þögnin getur verið gull. (Gripið fram í.) En málfrelsið er okkar og við eigum að nota málfrelsið skynsamlega. (Forseti hringir.) Við náum betur til þjóðarinnar ef þingið styrkist og ræðurnar verða styttri og skýrari.