135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

2. umr. fjárlaga.

[11:08]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Reynsla mín af þingstörfum er ekki löng en hún er ekki góð. Löggjafarstarfið er að mínu mati óvandað, því miður. Ég skora á hæstv. forseta að fresta umræðu í dag um fjárlagafrumvarpið sé honum annt um vandað löggjafarstarf eins og hann hefur haft á orði.

Til marks um það vil ég nefna afgreiðslu frumvarps um breytingu á Stjórnarráðinu úr allsherjarnefnd. Þar kemur fram frumvarp ofan frá án nokkurrar faglegrar greiningar, engrar þarfagreiningar eða framtíðarsýnar, heldur einvörðungu, að því er virðist, vegna þess að forustumenn ríkisstjórnarflokkanna skiptu með sér ráðherrastólum á Þingvöllum. Ekkert samráð var haft við stjórnendur stofnana sem hlut eiga að máli og ekkert samráð var haft við starfsmenn þessara stofnana sem allir hafa lýst yfir verulegri óánægju með afgreiðslu málsins. Á það hefur verið bent að svokallað markmið um skilvirkni muni snúast upp í andhverfu sína á mörgum sviðum af fólki hjá þessum stofnunum sem ég tek fullt mark á.

Það er engin kostnaðargreining unnin af viti í frumvarpinu og fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins segir að þetta muni ekki hafa kostnaðarauka í för með sér nema óvænt útgjöld komi til. Í nefndinni hefur þegar komið í ljós að það muni a.m.k. varðandi húsnæðiskostnaðinn fara langleiðina í 300 millj. kr. Ég ætla að kostnaður við breytingar á Stjórnarráðinu losi, þegar upp er staðið, 2 milljarða.

Minni hluta nefndarinnar var síðan stillt upp við vegg í gær. Þar er meirihlutaáliti skilað, frumvarpið tekið úr nefnd og fjölmargar breytingar gerðar, sem okkur voru kynntar þann sama dag og frumvarpið var tekið úr nefnd. Mér sem fulltrúa vinstri grænna í nefndinni var ekki gefinn kostur á að skila áliti áður en málið var tekið úr nefnd. Ég get ekki rökstutt mál mitt og sjónarmið mín, m.a. varðandi kostnað við þessa tilflutninga. Samt á að ræða þetta hér á eftir, samt á að ræða hvað það kostar að breyta Stjórnarráðinu. Þetta er, herra forseti, óvandað löggjafarstarf. Ég ítreka þá áskorun mína til hæstv. forseta að hann endurskoði ákvörðun sína og flytji umræðu um fjárlagafrumvarpið fram yfir helgi.