135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

2. umr. fjárlaga.

[11:15]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hæstv. forseti segir að tillögur stjórnarmeirihlutans hafi legið fyrir um nokkurra daga skeið. Ég geri ráð fyrir að fulltrúi VG í fjárlaganefnd eigi eftir að tjá sig um það efni. Hann hefur að sjálfsögðu gert grein fyrir stöðu mála í sínum þingflokki en staðreyndin er sú að þingflokkunum, stjórnarandstöðunni og Alþingi, voru ekki birtar breytingartillögur ríkisstjórnarinnar fyrr en seint í gærkvöldi. Þetta er staðreynd málsins. Við vissum ekki hvað vakti fyrir ríkisstjórninni fyrr en seint í gær.

Getur verið, hæstv. forseti, að til sé önnur skýring á þessari töf og að hún tengist því máli sem við hófum daginn með að ræða, nýju frumvarpi um þingskapalög? Vegna þess að okkur hefur verið bent á að það frumvarp bindist afgreiðslu fjárlaga órjúfanlegum böndum vegna þess að í tillögum stjórnarmeirihlutans og hluta stjórnarandstöðunnar er gert ráð fyrir auknu fjárframlagi til þingsins í og með til að styrkja stjórnarandstöðuna, m.a. til utanfara, til ferða til útlanda, og að þær tillögur yrðu ekki samþykktar nema fyrir lægi á Alþingi frumvarp sem takmarkaði málfrelsi stjórnarandstöðunnar. Getur verið, hæstv. forseti, að þetta sé hið raunverulega samhengi hlutanna og að þarna sé komin skýringin á því að við tölum um verslun og viðskipti og að við segjum að málfrelsið sé ekki til sölu hjá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði? Við erum tilbúin að breyta þinghaldinu. Við erum tilbúin að stytta ræðutíma. (Gripið fram í: Nei.) Við erum tilbúin til þess, hv. formaður þingflokks Framsóknarflokksins, og ég harma það. Ég harma það að Framsóknarflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn skuli leka niður eins og vax á kerti stjórnarmeirihlutans. Það er ömurlegt hlutskipti. Og að hlusta á fulltrúa Samfylkingarinnar sem segja nú eitt en sögðu annað þegar þeir voru í stjórnarandstöðu. Ég held að það sé kominn tími til að þjóðin átti sig á því hver er hin raunverulega (Forseti hringir.) stjórnarandstaða á Íslandi, stjórnarandstaða sem verður aldrei til sölu.