135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

breytingar á þingsköpum.

[11:33]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Menn þurfa ekkert að vorkenna starfsfólki nefndasviðs og sem betur fer eiga þúsundir Íslendinga sín börn og verða að sinna þeim. Það er afsökun sem þarf ekkert að bera hér fram.

En ég er hér, hæstv. forseti, sammála vinstri grænum að því leyti, af því að ég ber virðingu fyrir Alþingi, að hér er ekki skynsamlega staðið að af hálfu ríkisstjórnarflokkanna. Í rauninni er undarlegt að Samfylkingin sem er nýkomin úr stjórnarandstöðu skuli ekki skilja þær tilfinningar. Mikilvægasta umræða Alþingis er kannski ekki 1. umr. um fjárlögin, hún ætti að vera 2. umr. um fjárlögin sem hefur þróast á síðustu árum út í að vera í rauninni lokaumræðan um fjárlög Alþingis.

Þess vegna finnst mér mjög hart að stór og mikill meiri hluti skuli vilja níðast á stjórnarandstöðunni og gefa ekki allan þann tíma sem þingsköpin leyfa. Það þarf ekkert að leika sér að þessum eldi. Það er ekki til að auka virðingu Alþingis. Við höfum nægan tíma. Þinginu lýkur orðið miklu fyrr en var áður. Það er ekki á milli jóla og nýárs eins og þegar ég byrjaði hér. Það er ekki á Þorláksmessu eins og var á mínum fyrstu árum. Þinghald er búið 10.–15. desember. Við verðum að gefa okkur allan þann tíma sem við þurfum í vandaða fjárlagaumræðu.

Ég vil segja það hér að hæstv. forseti ætti að taka af skarið um það að gefa lengri tíma til undirbúnings vönduðum ræðum og sýna stjórnarandstöðunni þá virðingu. Það er ekkert víst að stjórnarsinnar ætli að tala í umræðunni. Það er kannski búið að segja þeim að þetta sé allt gott og blessað. Ég hef hins vegar trú á að menn vilji fylgja samvisku sinni og sannfæringu.

Mér sárnar, hæstv. forseti, að vinstri grænir skuli bera það á okkur, þingheim, að vinnubrögðin séu ekki vönduð. Í allt haust höfum við haldið marga fundi í þingflokki um þingskapalög og farið yfir þau vönduðu vinnubrögð sem þar eiga að vera. Allir voru sammála um að stytta bæri ræðutíma. Að kalla það kaup og sölu er dónaskapur hér á háu Alþingi.

Ég geri mér grein fyrir því að vinstri grænir stöðvuðu það mál 1999. Þeir skilja aðeins eitt, málþóf og langar ræður. Það hefur fylgt þessum flokki hvar sem hann hefur starfað í víðri veröld. (Forseti hringir.) Hann var í austrinu einu sinni, heitir nú orðið grænn eins og við framsóknarmenn (Gripið fram í.) en er það ekki, (Forseti hringir.) hann er rauður. (Gripið fram í: … ekki talað.)