135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[14:47]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir hans gríðarlega yfirgripsmiklu og víðfeðmu ræðu. Það vill þó oft fara þannig þegar menn taka langt til að þá koma þeir stundum aftan að sjálfum sér og þannig hefur farið í alla vega einu tilviki hjá hv. þingmanni Jóni Bjarnasyni þegar hann ræðir um mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar. Hann telur algjörlega ófært að þær renni inn í almennan rekstur og séu þar ósýnilegar. Þegar mann ber síðan niður í ræðu hv. þingmanns einni og hálfri klukkustundu síðar skammast hann yfir því að ófært sé að vera að sérgreina sértækar aðgerðir ríkisstjórnarinnar til stuðnings einstaka byggðum því að öll séum við hluti af sömu fjölskyldu. Þetta er eitt.

Stóra málið í mínum huga var að í ræðu hans kom fram að þetta væri fyrsta fjárlagafrumvarp nýrrar ríkisstjórnar og þar gæfist tækifæri til að marka nýja stefnu og nýjar áherslur. Hv. þingmaður lýsti yfir miklum vonbrigðum með frumvarpið vegna þess að hann sæi í raun engar nýjar áherslur. Þetta er alrangt. Það eru vissulega nýjar áherslur í frumvarpinu að sjá frá fyrra frumvarpi. Bætt er verulega í aðgerðir sem lúta að byggðamálum, menntamálum, velferðarmálum, samgöngumálum, heilbrigðismálum og svo mætti lengi telja. Öll getum við þó verið sammála um að alltaf standa eftir einhver verkefni sem eru þess virði að takast á við og svo er í þessu tilfelli. Við tökum þá saman á því við gerð fjárlaga ársins 2009.