135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[16:03]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarni Harðarson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort það er rétt að þetta hafi verið dæmigerð stjórnarandstöðuræða. Þegar ég skoðaði ræður — ég fór ekkert langt aftur í tímann — síðustu ára gat ég ekki betur séð en fyrri stjórnarandstaða hefði meira og minna haft fyrir reglu að mælast til meiri útgjalda en stjórnin. Það er léttur leikur að tala um að eyða meira og gefa meira. Við framsóknarmenn höfum viljað vera ábyrgir í andstöðu okkar en það þýðir ekki að við teljum að höggva þurfi niður fjárveitingar sem búið er að lofa. Við teljum einfaldlega að of miklu sé lofað. Þegar því hefur einu sinni verið lofað af fjármálaráðherra er illt til baka að fara.

Það er ekki rétt hjá hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni að ég hafi sagt að hér yrði líklega allt í klessu. Ég minnti aftur á móti á, herra forseti, að fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrv. forsætisráðherra Davíð Oddsson, núverandi seðlabankastjóri, sagði í sínum álitsgerðum að hér yrði bráðum allt í klessu og svo gerðu og margir aðrir hagfræðingar. Svo gerði líka Jón Sigurðsson í álitsgerð sinni sem hann gaf út fyrir Samfylkinguna sem leiðarvísi og þeir hafa að minna en engu. Ég benti á þessi álit og þá váboða sem þar væru og benti á að ríkisstjórnin þyrfti að hugsa sig um og skoða hvort einhverjar spár styddu fjárlagafrumvarpið því að mér sýnist spá fjármálaráðuneytisins ekki gera það heldur.

Ég held að það sé í raun engin spá, engin hagfræði, sem styður að leggja megi fram fjárlagafrumvarp eins og það sem nú er lagt fram. Það er einfaldlega, fyrirgefið orðbragðið, herra forseti, algerlega glórulaust.