135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[18:49]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Býsna margt merkilegt kom fram í ræðu hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar. Mig langar að spyrja hann um tvennt. Í tilefni af þeim orðum sem hann lét falla um stöðuna á landsbyggðinni undir lok ræðu sinnar vil ég spyrja hvort hann styðji þá hugmynd iðnaðarráðherra, sem fram kom í þingsölum í gær, að skipuð verði nefnd til að taka saman tillögur til úrbóta í atvinnumálum á hinu gamla Norðurlandi vestra, nefnd sem mundi starfa eftir svipaðri uppskrift og Vestfjarðanefndin gerði, sem hæstv. forsætisráðherra skipaði í aðdraganda síðustu alþingiskosninga.

Síðari spurningin er um skiptingu á því fjármagni sem ætlað er til framhaldsskóla almennt, 215 millj. kr., annars vegar skiptingu á milli Vestfjarða og Suðurnesja og hins vegar hvaða skóli eigi að fá fjárveitinguna á Vestfjörðum. Á tillögunni má skilja að það hljóti að vera Menntaskólinn á Ísafirði.