135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[20:00]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (frh.):

Herra forseti. Ég var þar kominn í ræðu minni að ég hafði rætt nokkuð efnahagsástand og hagstjórn og stöðuna í þeim efnum. Ég hefði reyndar gjarnan kosið og óskaði eftir því að forsætisráðherra og fjármálaráðherra væru viðstaddir. Mér er nú tjáð að hæstv. forsætisráðherra sé með fjarvist og jafnvel staddur erlendis, sem ég auðvitað hlýt að harma að skuli vera við 2. umr. fjárlaga. En ég er þakklátur fyrir að hæstv. fjármálaráðherra hefur verið á svæðinu og brugðið fyrir af og til.

Ég hef rætt nokkuð um verðbólgu og erlendar skuldir og þá staðreynd að tvö alþjóðleg matsfyrirtæki hafi lækkað lánshæfismat Íslands með stuttu millibili. Aðrar aðstæður þekkja menn vel frá umræðum undanfarinna mánaða og missira, háa vexti og gengi krónunnar sem er hátt af þeim ástæðum að Seðlabankinn hefur með vaxtaákvörðunum myndað mikinn vaxtamun milli Íslands og nálægri landa. En það er afleiðing af viðleitni hans til að kæla niður hagkerfið og halda aftur af verðbólgu.

Frumorsakir vandans eru þó augljóslega ekki hinir háu vextir. Þeir eru afleiðing af ástandi sem skapaðist í hagkerfinu eða var öllu heldur búið til. Þess vegna var það dálítið skrýtið áðan þegar ég heyrði í umræðum fyrr í dag er menn lögðu lykkju á leið sína í umræðum, m.a. hv. þm. varaformaður fjárlaganefndar Kristján Þór Júlíusson, til að hvítþvo stóriðjuframkvæmdir af því að bera nokkra sök í þessum efnum.

Seðlabankinn benti réttilega á það í sínum ritum að núverandi vaxtastig væri ekki frumorsök vandans. Það bjó ekki til þessar aðstæður í hagkerfinu heldur eru hinir háu vextir afleiðing af aðstæðum sem sköpuðust hér vegna pólitískra ákvarðana og eru af tvennum toga. Annars vegar ákvarðanir um framkvæmdir og aðgerðir sem kyntu undir þenslunni og hins vegar mistök í hagstjórn sem gerðu illt verra. Það þýðir ekki fyrir menn, burt séð frá því hvaða afstöðu þeir hafa til stóriðjuframkvæmda, hvort sem þeir studdu byggingu Kárahnjúkavirkjunar eða ekki — sem ótrúlega margir gerðu og sjá nú sumir eftir sem það gerðu — að neita því að þar er af finna eina helstu frumuppsprettu, einn helsta orsakavald þess þensluskeiðs sem við lentum í upp úr 2002 og hefur ríkt síðan.

Það var ákvörðun um hinar umfangsmiklu og samanþjöppuðu stóriðjuframkvæmdir, sem urðu reyndar meiri og á styttri tíma en búist hafði verið við þegar hagspár voru gerðar á árinu 2001–2002, sem Seðlabankinn benti þá á strax í skýrslu sinni haustið 2003, að mundi valda meira álagi á stýritæki peningamála en nokkurs staðar annars staðar þekktist á byggðu bóli. Seðlabankinn sagði í skýrslu að þess væru sennilega engin dæmi að fjárfestingar sem næmu milli 30 og 40% af vergri landsframleiðslu opins hagkerfis með fljótandi gjaldmiðil dældust inn í hagkerfið á örfáum árum. Ég las upp úr þessu áliti Seðlabankans úr þessum ræðustól á þeim tíma.

Ég man eftir því m.a. að norrænir þingmenn sem voru hér á fundi, efnahagsnefnd Norðurlandaráðs, fékk fyrirlestra frá sérfræðingum, frá hagstofnunum og bönkum. Þeir menn spurðu í forundran: Hvernig ætla menn að ráða við hagstjórnina við slíkar aðstæður? En það var ekki eins og það væri nóg að taka pólitískar ákvarðanir um þessar framkvæmdir því það voru þær. Þær voru sannarlega pólitískar og stjórnvöld höfðu öll tök á að stýra þessu öðruvísi ef þau hefðu viljað: Kárahnjúkavirkjun, bygging álvers á Reyðarfirði, stækkun álversins á Grundartanga og tilheyrandi virkjanir hér á suðurhorninu og reyndar fleiri stórframkvæmdir, virkjunarframkvæmdir Hitaveitu Suðurnesja og þar fram eftir götunum. Til viðbótar þessu komu skattalækkanir, sem á núverandi verðlagi eru sjálfsagt af stærðargráðunni 35–40 milljarðar kr., á þremur árum á síðasta kjörtímabili. Þær voru boðaðar fyrir fram og lögfestar strax á fyrsta vetri þess kjörtímabils, veturinn 2003–2004. Menn staðfestu að svo yrði gert á næstu árum óháð þenslu og aðstæðum í hagkerfinu, eins vitlaust og það nú var.

Í þriðja lagi bættist við að fyrri ríkisstjórn var bundin af kosningaloforði Framsóknarflokksins um að hækka húsnæðislán í 90%. Það eitt og sér hafði strax væntingaráhrif, tiltekin þensluáhrif. Þetta þrennt stendur upp úr sem pólitískar ákvarðanir og frumorsakavaldar þenslunnar, hinar miklu samþjöppuðu stóriðjuframkvæmdir, tugmilljarða skattalækkanir í þenslunni og það sem gert var á húsnæðismarkaði.

Innkoma bankanna kom síðan til sögunnar sem ég held, eftir á að hyggja, að hljóti að teljast einhver allra ábyrgðarlausasta framganga mikilvægra fjármálastofnana sem við höfum lengi séð. Eftir að þeir höfðu tapað baráttunni fyrir því að koma Íbúðalánasjóði fyrir kattarnef með kærum til Eftirlitsstofnunar Evrópska efnahagssvæðisins, ESA, ákváðu þeir að reyna að ganga á milli bols og höfuðs á honum með öðrum hætti og keyra inn á fasteignalánamarkaðinn og veita það sem þeir kölluðu húsnæðislán, sem voru ekki annað en neyslulán með veð í íbúðarhúsnæði. Þeir buðu þar vildarkjör og lán allt að 100% og án nokkurra takmarkana, án þaks. Í byrjun átti að vísu ekki að lána út á landsbyggðina með sömu kjörum en það mæltist það illa fyrir að bankarnir hörfuðu með það og um tíma stóð þetta öllum til boða á vöxtum sem fóru niður í 4,15% en eru nú komnir yfir 7%. Þannig entust þau kjörin. Nú eru bankarnir á flótta út úr þessu máli og hafa af því, að mínu mati, ekkert nema skömmina og tjónið sem þetta bakar þeim sjálfum því að þetta er hluti af jafnvægisleysinu í hagkerfinu. Þetta kynti upp fasteignabóluna sem hér blés upp og við erum ekki búin að súpa seyðið af henni enn þá.

Við þetta bættist úrræðaleysi, aðgerðaleysi og mistök í hagstjórn. Þannig var það svo sannarlega. Það var ekkert nema kákl og sýndarmennska ef fyrri ríkisstjórn reyndi nokkuð í þessum efnum. Það var auðvitað eins og hver annar brandari á sínum tíma að fresta nokkrum vegaspottum á afskekktustu landshornum þar sem enga þenslu var að finna og kalla það aðgerðir til að halda aftur af þenslu á sama tíma og stuðlað var að margföldum stórframkvæmdum annars staðar á landinu.

Á sama tíma leggja menn grunn að byggingu hins gríðarlega tónlistarhúss við höfnina sem nú er að rísa. Tugmilljarðaframkvæmd þegar allt verður talið. Fjölmargar aðrar stórar samgönguframkvæmdir hafa átt sér stað á þessu svæði sem auðvitað hefði frekar átt að hægja á fremur en vegaspottum á Vestfjörðum og Norðausturlandi. Að auki kemur sú staðreynd sem við búum því miður enn við að helstu þátttakendurnir á þessu sviði, Seðlabankinn annars vegar og ríkisstjórnin hins vegar, gengu aldrei í takt og gera ekki enn.

Að vísu er enginn samfylkingarmaður hér í salnum. Ég held ég geti svarið fyrir það, herra forseti, að það er enginn samfylkingarmaður hér. Engu að síður væri fróðlegt að velta fyrir sér því hvernig Samfylkingin greindi ástandið í hagkerfinu og aðstæður í efnahagsmálum á útmánuðum þessa árs og í aðdraganda kosninga. Með leyfi forseta langar mig að vitna í plagg sem þau gáfu út með pompi og prakt undir ritstjórn og á ábyrgð Jóns Sigurðssonar, fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra og síðar seðlabankastjóra og bankastjóra Norræna fjárfestingarbankans. Það vantaði ekki að lærður maður héldi þar utan um en í ritinu segir, ætli þetta hafi ekki komið út svona í marsmánuði síðastliðnum, með leyfi forseta:

„Íslenska hagkerfið er í miklu ójafnvægi um þessar mundir. Efnahagsvandinn birtist í meiri viðskiptahalla en nokkru sinni fyrr en hann mældist 27% af landsframleiðslu í fyrra samanborið við 16% árið 2005.“

Síðar segir í inngangi sama rits:

„Afar háir vextir, óstöðugt gengi og verðbólga sem enn er tvöfalt eða þrefalt meiri en 2,5% markmið Seðlabankans einkenna efnahagsástandið.“ — Kunnuglegt, ekki satt? Og gildir enn.

Síðar segir:

„Hættan er sú að Ísland missi trúverðugleika á alþjóðlegum fjármálamörkuðum en þá væri voðinn vís með hækkandi vaxtaálagi,“ — Hvað er að gerast? Er það ekki nákvæmlega þetta sem nú er að gerast, að vaxtaálagið hækkar? — „gengisfalli“ — það er að vísu ekki komið enn — „og verðbólgugusu. Merki um þessa hættu mátti sjá um miðjan mars þegar matsfyrirtæki Fitch Ratings lækkaði lánshæfiseinkunn ríkissjóðs bæði í innlendri og erlendri mynt.“

Þetta var sett saman í apríl eða mars. Nú hefur Standard & Poor's, stöndugir og fátækir eins og menn munu hafa þýtt það hér í dag, bæst við og breytt lánshæfismati Íslands úr stöðugu í neikvætt. Síðar í þessu riti segir.

„Mikið hefur skort á samstillingu í stjórn efnahagsmála hjá núverandi ríkisstjórn.“ — Ætli það gildi ekki enn? Ætli það gildi nú ekki enn þegar ráðamenn ríkisstjórnarinnar, forsætisráðherra hæstv. og utanríkisráðherra ráðast á Seðlabankann, gagnrýna hann og draga í efa að tæki hans og tól og ákvarðanir hans virki. Allar þessar fullyrðingar úr kosningariti Samfylkingarinnar frá því í apríl eru enn í fullu gildi. En hvar er Samfylkingin í dag? Hvar eru ábyrgðaraðilar hennar hér í þessari umræðu?

Samfylkingin sagði: „Greining á atburðarásinni í íslenskum þjóðarbúskap síðustu sex árin styrkir eindregið þá skoðun — þótt ríkisfjármálastjórn henti yfirleitt ekki vel til sveiflujöfnunar — að aðstæður hér á landi séu nú með þeim hætti að ríkið hljóti að beita annars vegar almennu aðhaldi í hefðbundnum ríkisfjármálum og freista þess hins vegar með tiltækum ráðum að hafa áhrif á upptök hagsveiflna í stórframkvæmdum sem eru lengi í undirbúningi. Ríkið verður að freista þess fyrir sitt leyti að dreifa þeim yfir langt árabil með tilliti til burðarþols þjóðarbúskapsins og náttúru landsins.“

Burðarþol þjóðarbúskapsins, er burðarþol orðið að hagfræðilegu hugtaki? Gott og vel en hvar er Samfylkingin stödd í dag með efndir á því sem þarna er lofað? Sér þess stað að ríkisstjórn og Seðlabanki séu farin að ganga í takt? Voru ummæli hæstv. utanríkisráðherra um að stjórntæki Seðlabankans virkuðu ekki liður í því? Voru þau innlegg í að stilla saman göngulagið? Tæplega. En þetta var orðalagið.

Það var margt ágætlega sagt í þessu riti. Ég gat tekið undir ýmislegt af því, sérstaklega lýsingu á ástandi og annað í þeim dúr. Að vísu er þar óskaplega langur og vitlaus kafli um landbúnaðarmál eins og hann væri aðalhagstjórnarvandinn, þessi litli geiri þjóðfélagsins og sú hlutfallslega litla velta í okkar þjóðarbúskap sem umsvif landbúnaðarins eru, en látum það nú vera.

Að ýmsu leyti var þarna um ágæta greiningu á málum að ræða og gefin fyrirheit um að það mundi bregða til betri tíðar ef Samfylkingin kæmist í áhrifastöður. Það er nú öðru nær. Mér er nær að halda og ég reyndar fullyrði það að ríkisstjórnin og Seðlabankinn hafa aldrei verið fjær því en í dag að ganga í takt. Það er bara þannig. Það er ekki að ástæðulausu sem Seðlabankinn fjallar um það sérstaklega í Peningamálum núna hvernig lausatökin séu í ríkisfjármálum og hvernig opinberi geirinn muni auka hlut sinn á þessu ári eða hinu næsta þannig að á árinu 2008 verði velta opinbera geirans orðin 47% af vergri landsframleiðslu.

Það var líka athyglisvert í þessu sambandi að lesa ræðu formanns bankastjórnar Seðlabankans, Davíðs Oddssonar, frá morgunfundi Viðskiptaráðs Íslands 6. nóvember sl. Þar eru sannarlega send skilaboðin, þar er verið að svara en að vísu á ákaflega kurteisan hátt skulum við segja, því að menn þurfa að lesa á milli línanna og átta sig á hverjum er verið að svara hverju sinni. Þar segir í fyrsta lagi í ræðu Davíðs Oddssonar á morgunfundi Viðskiptaráðs 6. nóvember, með leyfi forseta:

„Ákvörðun bankastjórnar Seðlabankans um vexti síðastliðinn fimmtudag virðist hafa komið mörgum að óvart, þó vísast fæstum þægilega á óvart. Bankastjórnin er þó þeirrar skoðunar að fjölmörg viðvörunarmerki hafi verið gefin af hennar hálfu síðustu mánuðina um að svo kynni einmitt að fara.“

Þarna er strax verið að svara þeim sem sögðu hvað? Að þetta kæmi á óvart og væri óheppileg ákvörðun, hæstv. forsætisráðherra og viðskiptaráðherra og gott ef ekki utanríkisráðherra einnig en hæstv. utanríkisráðherra tjáði sig nokkru síðar með eftirminnilegum hætti.

Síðar sagði bankastjóri:

„Ef bankinn hefði ekki aðhafst neitt nú, þrátt fyrir að horfur hefðu ekki lagast og fjöldi vísbendinga bentu til þess að þær væru fremur að versna heldur en hitt, hefði mátt með réttu saka hann um sinnuleysi eða jafnvel kjarkleysi í ljósi þeirrar gagnrýni sem að honum hefur verið beint að undanförnu, jafnvel úr óvæntum áttum.“

Hverjar skyldu þessar óvæntu áttir vera sem gagnrýndu Seðlabankann? Lesist: ríkisstjórnin. Þannig les ég það a.m.k., herra forseti. Það er augljóst mál að Seðlabankinn er þarna að svara fyrir sig í gegnum ræðu formanns bankastjórnar á þessum vettvangi vegna þess að hann á ekki hægt um vik að gera það annars í nafni sínu sem Seðlabanki.

Aðeins síðar er fjallað um að það sé „iðulega haft á orði“ — eins og þar segir — „jafnvel af svonefndum ábyrgum aðilum“ — hver skyldi það nú vera, herra forseti, hverjir skyldu vera svonefndir ábyrgir aðilar? (Gripið fram í.) Ha? — „að þau tæki sem seðlabankar nota hvarvetna í baráttu sinni við verðbólgu dugi ekki hér á Íslandi …“ Því hefur verið haldið fram, það er rétt. Ég man í fljótu bragði ekki eftir mörgum nema ríkisstjórninni og kannski einstöku hagfræðingum öðrum þannig að ég les aftur ríkisstjórnina þarna á milli línanna.

Síðan ver Seðlabankinn sig, sem eðlilegt er, fyrir ásökunum um að vaxtaákvarðanir hans séu frumorsakavaldur vandans og seðlabankastjóri segir þarna í ræðunni:

„En háir vextir Seðlabankans eru ekki upphafið. Þeir eru viðbrögð við þeim aðstæðum sem eru í þjóðfélaginu, gríðarlegri umframeftirspurn hvert sem litið er, miklum hagvexti, gríðarlegri kaupmáttaraukningu, umframeftirspurn eftir vinnuafli, innstreymi fjár og þannig mætti lengi áfram telja.“

Það er hárrétt, hvað sem mönnum sýnist svo að öðru leyti, að auðvitað eru vaxtaákvarðanir Seðlabankans sem slíkar afleiðing af ástandi sem er að skapast eða er fram undan í hagkerfinu og hefur myndast af öðrum ástæðum en þeim.

Enn síðar í ræðunni segir seðlabankastjóri, og þá þarf aftur að lesa á milli línanna, greiðviknir menn verða stundum að taka það að sér að túlka í svona skilaboð:

„Haft hefur verið á orði að það sé vandamál Seðlabankans að hann horfi í baksýnisspegil er hann taki sínar ákvarðanir, hvað svo sem það merkir.“

Hver hefur sagt það? Ég man bara eftir einni manneskju sem hefur sagt það á Alþingi í umræðu sem ég stóð fyrir um vaxtaákvarðanir Seðlabankans og það er hæstv. utanríkisráðherra, sem sagði nákvæmlega að Seðlabankinn væri að horfa í baksýnisspegilinn og því er hér mótmælt af Seðlabankanum. Ég tek þetta hér upp, virðulegur forseti, til marks um það og sem dæmi um það og sem sönnun þess að ríkisstjórnin og Seðlabankinn eru fjær því, ef eitthvað er, en nokkru sinni að ganga í takt í hagstjórninni, það blasir við hverjum manni. Menn sendast á skeytum af þessu tagi, ráðherrarnir gagnrýna ákvarðanir Seðlabankans, telja þær óheppilegar, draga í efa að tækin virki, saka hann um að horfa í baksýnsispegilinn. Seðlabankinn svarar fyrir sig og virðist ef eitthvað er heldur herðast í afstöðu sinni að gefa hvergi eftir.

Enda, hvað á Seðlabankinn að gera meðan í gildi er yfirlýsing um verðbólgumarkmið og breytta gengisstefnu frá 27. mars 2001? Samkomulag Seðlabankans og ríkisstjórnar Íslands um hvernig með þetta skuli fara, þar sem segir:

„Ríkisstjórn Íslands og Seðlabanki Íslands hafa ákveðið eftirfarandi breytingar á fyrirkomulagi stjórnar peningamála á Íslandi sem taka gildi 28. mars 2001.“ Sameiginleg yfirlýsing forsætisráðherra og bankastjórnar Seðlabankans þar sem ríkisstjórnin í 4. tölulið „veitir Seðlabankanum fullt svigrúm til að beita stjórntækjum sínum í því skyni að ná verðbólgumarkmiði sínu“. Yfirmarkmiði Seðlabankans um verðstöðugleika sem ríkir yfir öllu hinu og verðbólgumarkmiðið er þarna fellt við 2,5% með tilteknum aðlögunartíma sem var innbyggður þarna og er nú liðinn.

Hvað er ríkisstjórnin að segja? Hvað er hún að fara upp á dekk meðan hún ekki óskar eftir endurskoðun á yfirlýsingu sinni, samkomulagi sínu við Seðlabankann um að hagstjórninni skuli haga nákvæmlega svona? Þess vegna sakna ég þess, herra forseti, að hafa ekki hæstv. forsætisráðherra til að spyrja hann. Verður þá gagnrýni ríkisstjórnarinnar á Seðlabankann fylgt eftir með því að grundvelli hagstjórnarinnar, peningamálastjórnarinnar, verði breytt? Það hafa auðvitað verið uppi kenningar um það. Hér hafa menn talað um að hleypa verðbólgunni í gegn og alls konar speki hefur verið hér uppi. En svo mikið er víst og það er að hendur Seðlabankans eru algerlega bundnar. Hann er bundinn af lögum og hann er bundinn af sameiginlegri yfirlýsingu sinni og ríkisstjórnarinnar. Þetta verða menn einfaldlega að horfast í augu við og viðurkenna. Það er ekki stórmannlegt af ríkisstjórn sem ekki veit sitt rjúkandi ráð í efnahagsmálum að reyna að kenna öðrum um, finna alltaf aðra sökudólga og ráðast sérstaklega að þeim eina aðila sem í raun og veru er þó að reyna að kæla hagkerfið niður og halda aftur af verðbólgunni.

Ég er nefnilega þeirrar skoðunar að það sé stórhættulegur hugsunarháttur að halda að hægt sé að hleypa verðbólgunni í gegn bara eins og vatnssopa í röri og svo sé allt búið, því hvað kennir reynslan okkur? Hún kennir okkur það að festi verðbólgan rætur er gríðarlega erfitt að ná henni niður. Það kostar blóð, svita og tár og miklar fórnir og þær fórnir færir almenningur. Þær fórnir færir sérstaklega skuldsettur almenningur, skuldsett heimili með verðtryggð lán og núna í vaxandi mæli einnig með gengistryggð lán sem mundu að sjálfsögðu fá heldur betur á lúðurinn ef gengi gjaldmiðilsins hryndi um 20% eða svo.

Það er dálítið merkilegt að lesa jafngjörsamlega gagnstæðar skoðanir, jafngjörsamlega gagnstætt mat á stöðunni og fólgið er í sjálfshóli ríkisstjórnarinnar og ýmissa aðstandenda hennar annars vegar, sem montast af því að við séum í fyrsta sæti á ákveðnum listum, og umræðuna í þjóðfélaginu hins vegar, gögn sem blasa við okkur úr hagtölum. Það þarf ekki annað en að lesa blöðin í dag, virðulegur forseti. Hver er að skrifa í Fréttablaðið í dag undir titlinum Skoðun? Hvað heitir greinin? Hún heitir Út úr öngstrætinu. Hver er höfundurinn? Er það ég? Er það einhver snarvitlaus vinstri grænn? Nei, það er Ingimundur Sigurpálsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, góður og gegn sjálfstæðismaður, nema hann hafi alveg skyndilega skipt um skoðun, ég hef ekki frétt af því. Hann nefnir grein sína Út úr öngstrætinu . Hann er sammála Samfylkingunni eins og hún var í vor en nú heitir það að vera með ægilegt svartagallsraus. Ég býst við því að hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir komi hér upp og láti mig hafa svipaða yfirhalningu og hv. þm. Jón Bjarnason fékk fyrr í dag, að þetta sé alveg hryllilegt svartagallsraus, að menn skuli ekki sjá allt hið góða og gleðilega sem er að gerast, hvernig sólin hefur komið upp eftir að Samfylkingin komst í ríkisstjórn.

Ég er að reyna að ræða um staðreyndir, herra forseti. Ég er að vitna í gögn, ég er að vitna í sérfræðinga, ég er að vitna í menn sem ég held að ástæða sé til að hlusta á, menn eins og Ingimund Sigurpálsson, þó að ég sé að sjálfsögðu ekki alltaf sammála honum. En hann veit ýmislegt um efnahagsmál og atvinnurekstur, það veit ég af ágætum samskiptum við hann og samræðum, m.a. meðan hann var forstjóri Eimskipafélagsins. Hann hefur vit á rekstri, bæði sveitarfélaga og fyrirtækja, og hefur langa reynslu. Ég held að maður af hans tagi taki ekki svona til orða að ástæðulausu. Hann hefur örugglega engan sérstakan áhuga á því að bregða fæti fyrir ríkisstjórn sinna manna, sem ég ætla að sé. Hann horfir á þetta frá sínum sjónarhóli eins og hann metur stöðuna og eins og hlutirnir koma honum fyrir sjónir. Hann ræðir um hina gríðarlega háu vexti og segir að við aðstæður mjög hárra vaxta skapist auðvitað þær aðstæður fyrir spákaupmenn að koma með fé inn í landið. Hann efast reyndar um að þetta virki eins og það eigi að gera en hann bendir á að hinir háu vextir stuðli að háu gengi krónunnar, sem þeir sannarlega gera, sem aftur stuðli að auknum kaupmætti innan lands, að sjálfsögðu, innflutningurinn er niðurgreiddur, og þetta örvi eftirspurn og fjárfestingu heimila og fyrirtækja en leggst að sama skapi þungt á útflutningsatvinnugreinar í formi minni útflutningstekna og dregur verulega úr möguleikum þeirra til þess m.a. að standast launakröfur sem nú eru auðvitað uppi í kjarasamningum. Eðlilega horfa forsvarsmenn atvinnulífsins, ekki síst þeir sem eru að reyna að reka útflutnings- og samkeppnisfyrirtæki við þessar hörmulegu aðstæður, til þess að þeir séu ekki í góðri stöðu til að stórhækka kaupið. Bankarnir ættu að geta það en það er býsna þröngt fyrir dyrum hjá sumum sjávarútvegsfyrirtækjunum og ferðaþjónustunni og hátæknifyrirtækjunum sem lifa alfarið á útflutningi og eru með 70–80% af kostnaði sínum sem laun. Það er snúin staða þegar 20–30 krónur vantar í kassann af hverjum dollara sem þangað kemur til skipta.

Ein millifyrirsögn í grein formanns Samtaka atvinnulífsins, hver skyldi hún vera? Hún er Ný hernaðaráætlun nauðsynleg. Af því má draga þá ályktun að greinarhöfundur líki þessu nánast við stríð, að við eigum í stríði, og það er auðvitað rétt. Við eigum í stríði við jafnvægisleysið, verðbólguna, viðskiptahallann og erlenda skuldasöfnun sem er okkur allt stórhættulegt ef við förum ekki að ná tökum á því.

Byggja verður upp nýja hernaðaráætlun sem beinist að hinum raunsanna andstæðingi. Svo er talað um fjármál ríkis og sveitarfélaga og Íbúðalánasjóð og Seðlabankann, að honum sé að vísu heimilt með samþykki forsætisráðherra að lýsa yfir tölulegum markmiðum verðbólgu og sé skylt að stuðla að framgangi stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, enda telji hann það ekki ganga gegn meginmarkmiðum stöðugs verðlags. Það er augljóst mál að Seðlabankinn telur sig ekki getað gengið í takt við ríkisstjórnina vegna þess að stefna hennar stuðli ekki að meginmarkmiðum Seðlabankans. Hann er lögvarinn af því, það man ég vel því að ég var í nefndinni sem samdi frumvarpið um hann, að ákveðið var að hafa það svo. Greini Seðlabankann og ríkisstjórnina á, er Seðlabankinn í lögvörðu skjóli af því að hann skal vera trúr sínu meginmarkmiði og má þá ganga aðra leið en ríkisstjórnin.

Í gamla daga var það svo að ef slík staða kom upp átti Seðlabankinn að lýsa ágreiningnum opinberlega. Nú þarf hann þess ekki vegna þess að hann er algjörlega sjálfstæður og óháður og talar fyrir sig sjálfur í gegnum ákvarðanir sínar. Það er eins og forsetinn sem talar með ákvörðunum sínum.

Síðan segir greinarhöfundur:

„Þetta samhengi [þ.e. samstillinguna] þurfa ríkisstjórn og stjórnendur Seðlabankans að skilgreina sameiginlega og vissulega verður að ætlast til þess að ríkisstjórnin leiði slíka stefnumörkun.“

Hvað er verið að biðja um? Verið er að skora á ríkisstjórnina að ganga til viðræðna við Seðlabankann og reyna að finna taktinn á nýjan leik. Ef til vill þarf að endurskoða yfirlýsinguna frá 27. mars 2001. Ég útiloka það ekki þótt það leysi í sjálfu sér engan vanda. Kannski finna menn einhverjar sameiginlegar leiðir. T.d. gæti komið út úr því að ríkisstjórnin breytti framgöngu sinni á skuldabréfamarkaði. Seðlabankinn biður nánast um það í síðasta hefti Peningamála að ríkisstjórnin, ríkið eða ríkissjóður verði virk í þeim efnum á nýjan leik.

Áfram má vitna í þessa ágætu grein þar sem segir að ríkisstjórnin eigi að leiða slíka stefnumörkun. Seðlabankanum er ekki ætlað að sigla einn um ólgandi haf. Nei, auðvitað er það ekki þannig og á ekki að vera þannig að Seðlabankinn sigli einn um ólgandi haf hinna efnahagslegu ólgusjóa og fái enga hjálp nokkurs staðar frá. Síst af öllu fengi hann hjálp frá ríkisstjórninni sem sendir honum skeytin og gagnrýnir hann án þess að gera nokkurn skapaðan hlut, án þess að endurskoða þau sameiginlegu viðmið og markmið sem ríkisstjórn og Seðlabanki eru bundin af.

Síðan segir:

„Ef einungis er að finna bitlausar sveðjur í vopnabúri Seðlabankans þá er nauðsynlegt að leita liðstyrks þeirra sem búa yfir annars konar vopnum. Tali menn ekki saman þá er ekki annars að vænta en áfram verði gengið fram af því meiri hörku sem bitlausu vopnin þar til kraftar þeirra þverra.“

Ég taldi ástæðu til að vekja athygli á þessum skrifum vegna þess að mér finnst það eiga erindi inn í umræður við 2. umr. fjárlaga þegar forsvarsmaður Samtaka atvinnulífsins talar með eins óvenjulega afdráttarlausum hætti og þarna er gert. Þetta er ákall. „Út úr öngstrætinu“, heitir greinin. Ný hernaðaráætlun er nauðsynleg, segir forsvarsmaður Samtaka atvinnulífsins. Þannig er nú það, herra forseti.

Ég held að skipta megi vanda okkar í tvennt. Annars vegar blasir við hið ytra ójafnvægi, sem ég hef gert að umtalsefni, verðbólga, viðskiptahalli, erlendar skuldir, svimandi háir vextir, raungengi, sem er sennilega 12–15% yfir því sem talist getur í jafnvægi. Hins vegar hið innra ójafnvægi. Því miður er það svo að í hagkerfi okkar er líka mikið innra ójafnvægi. Það lýtur aðallega að tvennu, misskiptingu gæðanna hér innan lands og vandamálum sem það veldur á vinnumarkaði, og hrikalegri gjá milli þenslusvæðisins hér við Faxaflóann og landsbyggðarinnar. Hið innra ójafnvægi er líka hluti af hagstjórnarvandanum. Það er alveg augljóst mál því að auðvitað virka meðulin ekki með sama hætti. Ekki er þörf fyrir svimandi háa vexti á Vestfjörðum, er það? Nei, ekki er allt að springa í loft upp af þenslu þar. Æskilegt væri að geta beitt öðrum úrræðum en hér í húsnæðismálum og atvinnumálum og slíku við aðstæður af því tagi sem er að finna á vestan- og norðanverðu landinu.

Svo er það launamunurinn, sú staðreynd að hagvextinum undanfarin ár hefur verið hrikalega misskipt. Eftir sitja fjölmennar stéttir sem fengið hafa sáralitla kjarabót og taka reyndar á sig kjaraskerðingu þessa dagana. Það þarf ekki flókinn útreikning til að sýna að prósentuhækkun almennra umsaminna launa undanfarin missiri er verulega undir verðbólgu. Það er aðeins ávísun á eitt: Kjararýrnun. Það birtist okkur líka í miklum mönnunarvanda og miklu jafnvægisleysi á vinnumarkaði.

Auðvitað er hinn yfirspennti vinnumarkaður og það sem honum tengist mikill hausverkur í sjálfu sér. Við vitum um ýmislegt sem honum hefur fylgt, svo sem innstreymi erlends vinnuafls í miklum mæli sem að sjálfsögðu er gott eitt um að segja þegar svo er komið að vinnandi hendur vantar í landinu. Það á aldrei að líta á það fólk sem eitthvert vandamál sem við sé að sakast, heldur þvert á móti. Við höfum búið til aðstæðurnar sem kallað hafa það hingað. Það er þó í lagi að hafa í huga að hlutirnir geta snúist við og ekki víst að eins mikil hamingja verði ef skyndilega dregur of snöggt úr þörfinni fyrir vinnuafl. Það þekkja ýmsar þjóðir af reynslu frá fyrri áratugum eins og t.d. Þjóðverjar .

Vandi okkar er auðvitað sá að við höfum búið við þanið stóriðjuþensluútrásarhagkerfi sem hefur fært okkur að því sem seðlabankastjóri kallaði í ræðunni frægu „að ystu mörkum þess sem viðráðanlegt er“. Þar er fyrst og fremst átt við erlendar skuldir því að þær hverfa ekki. Þær verða þarna og jafnvel þótt okkur takist að ná einhverri mjúkri lendingu, eins og frægt er að kalla það, munu þær ekki gufa upp. Ekki léttist greiðslubyrðin ef gengið hrynur og vextirnir hækka erlendis.

Við gleðjumst yfir því, eins og ég tók undir fyrr í ræðu minni og svaraði frammíkalli um, að auðvitað er gott og gleðilegt að ríkissjóður standi vel. Það skyldi nú ekki vera að við ættum eftir að þurfa mjög á því að halda að ríkissjóður sé skuldlítill og standi vel. En af hverju stendur hann vel? Það er einkum af tveimur ástæðum sem hann stendur vel. Streymt hafa inn í ríkissjóð gríðarlega miklar tekjur af þenslunni og neyslunni í þjóðfélaginu. Viðskiptahallinn er auðvitað ekkert annað en ávísun á tekjur ríkissjóðs. Allir vita að á tímum mikils og vaxandi viðskiptahalla og vaxandi verðbólgu er gott að vera fjármálaráðherra. Það snýst þó hastarlega við ef öndverðan snýr upp.

Ríkissjóður stendur líka vel af því hann hefur selt gríðarlega verðmætar eignir. Þær selja menn þó ekki nema einu sinni. Nú er enginn Sími lengur til að selja og þaðan af síður til að borga arð frá upp á milljarða á ári hverju eins og staðan var. Engir bankar eru til að selja og ekki víst að menn höndli mjög vel að selja það sem eftir er af fjölskyldusilfrinu í formi verðmætra opinberra eigna.

Það skyldi nú ekki vera. Ég hef hlustað eftir því í dag og það kom mér dálítið á óvart hvað margir hv. ræðumenn virtust aðallega hafa áhyggjur af því að við vanáætluðum líklega tekjur ríkissjóðs á næstu árum. Ég hef ekki stórar áhyggjur af því, það yrði ekki sérstakt vandamál þótt þær yrðu aðeins meiri heldur en áætlanirnar gera ráð fyrir. (Gripið fram í.)

Býsna slæmt væri ef við ofáætluðum. Það skyldi nú ekki vera að sú hætta væri líka til staðar. Óvissan er nefnilega mikil og ég held að hún geti orðið í báðar áttir. Það er kannski ekki líklegt að mikið tekjuhrap verði, alla vega ekki á fyrri hluta ársins en vindarnir geta snúist mjög snögglega og þá getur allt annað orðið upp á teningnum.

Svo ég vitni enn í Seðlabankann — og menn fara nú kannski að halda að ég bara trúi á hann. Það er nú ekki svo enda er ég ekki mjög trúaður maður en ég tek eftir því sem hann segir um hluti af þessu tagi. Seðlabankinn er greinilega ekki viss um að hinar miklu tekjur ríkissjóðs séu alveg í hendi á komandi missirum eftir að hafa rætt um það í Peningamálum á blaðsíðu 39, hvernig horfur séu á að útgjöld hins opinbera aukist. Mig minnir að Samfylkingin hafi verið að gagnrýna fyrri ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili fyrir að hún væri ekki nógu hörð í að halda aftur af ríkisútgjöldum. Getur ekki verið að svo hafi verið, jafnvel að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hafi stundum verið í því liði Samfylkingarinnar sem sá um frjálshyggjukantinn og skammaði ríkisstjórnina fyrir að vera ekki nógu hörð í að skera niður? Ég held það.

Þá vorum við að tala um hlutföll hins opinbera sem lágu á bilinu 40–41%. Þau voru 42% í fyrra ef ég man rétt. Alla vega setti ég það inn í ónefnda bók um mitt síðasta ár. Ég var reyndar gagnrýnn á að það væri lágt hlutfall, svo það sé nú allt á hreinu, við værum þarna talsvert fyrir aftan hin Norðurlöndin og við mundum ekki standa undir öflugu norrænu velferðarkerfi nema að þora leggja fjármuni til samneyslunnar. Núna er hlutfallið komið upp í 44,5% á árinu 2007 og stefnir í 47% á árinu 2008. Nú legg ég til að samfylkingarmenn, sem héldu ræðurnar um aðhaldsleysi fyrri ríkisstjórnar, velti þessu aðeins fyrir sér og jafnvel rifji sínar fyrri tölur upp. (LB: Hver eru sjónarmið ræðumanns? Það væri fróðlegt að heyra.)

Sjónarmið ræðumanns eru ekki þau að það sé pólitískt slæmt í sjálfu sér að það hlutfall sé þannig að það standi undir myndarlegu og öflugu velferðarkerfi. Hagstjórnarlega verður þó auðvitað að horfast í augu við breytingarnar ef þær eru að verða. Það verður að gera. Það gerum við vinstri menn jafnt sem aðrir.

Varðandi afkomu ríkissjóðs að öðru leyti ... (Gripið fram í.) Dugar hv. þingmanni ekki þetta svar? Það getur verið gott ef menn hafa efni á því að lækka skatta og þá sérstaklega á tekjulágt fólk. En skattalækkanir í mikilli þenslu hafa efnahagsleg áhrif. Þær eru hagstjórnarleg breyta og raunsæir menn horfast í augu við það og reyna að koma pólitískum markmiðum sínum fram við aðstæður sem fært er. Það gerði fyrri ríkisstjórn ekki og ég man ekki annað en að við höfum verið sammála í gagnrýni á það. (LB: Eru þetta tillögur um skattalækkanir?) Nei, það eru reyndar ekki miklar tillögur um það. Þær eru samt boðaðar í stjórnarsáttmálanum.

Seðlabankinn segir sem sagt um horfur í afkomu ríkissjóðs að sterkar vísbendingar séu um að hér á landi sé erfitt að skýra hreyfingar opinberra tekna og gjalda að fullu með sögulegum breytingum um framleiðsluspennu. Það er alþjóðlegt vandamál, samanber mynd 4 sem sýnir samsvarandi afkomuleiðréttingu fyrir Þýskaland og Bandaríkin á tilteknu tímabili. Það sem valdið gæti ríkissjóði einna mestum skakkaföllum á næstu árum er meiri gengislækkun en nú er spáð. Hún gæti dregið verulega úr tekjum af óbeinum sköttum og haft tiltölulega skjót áhrif á skattgreiðslur fyrirtækja. Hjá sveitarfélögum er hins vegar mest hætta á að tekjur minnki hratt ef dregur úr íbúðafjárfestingu. Þær breytingar verða þó tæplega jafnhraðar og breytingar af völdum sveiflna í gengi.

Hvað segir Seðlabankinn með þessu? Hann segir að ef að hruni kemur, ef ekki verður um snertilendingu að ræða heldur brotlendingu og allt gerist mjög hratt, gengið hrynur og eftirspurnin dregst mjög snöggt saman og innflutningurinn sömuleiðis, þá hrynji tekjur ríkissjóðs, auðvitað. Það gerist með nákvæmlega sama hætti og þær eru miklar við öndverðar aðstæður, svo ég mæli nú varnaðarorð og þótt ég verði einn manna til þess.

Við skulum ekki gefa okkur að aðaláhættan sé sú að við vanmetum tekjur ríkissjóðs á næsta ári. Við skulum hafa í huga að við gætum líka verið að ofmeta þær. Ég held að það væri ekkert áhyggjuefni þó að þær væru eitthvað vanmetnar og yrðu eitthvað hærri, en það er mikið áhyggjuefni ef þær hrynja snöggt, a.m.k. fyrir fjármálaráðherrann. Þá verður ekki eins gaman að sitja ofan á kassanum. (LB: Spár eru alltaf spár.) Spár eru auðvitað alltaf spár, já.

Eitt er víst, hv. þm. Lúðvík Bergvinsson — herra forseti, ef ég má leyfa mér að halda fram hjá og óbeint ávarpa hv. þingmann í salnum — og það er að öllum veislum lýkur einhvern tímann. Það er bara þannig. Það er aldrei hægt að halda endalausa veislu, sérstaklega ekki ef hún er dýr, (Gripið fram í.) ef það er mikið borið í veisluföngin og alveg sérstaklega ekki ef menn fá lán fyrir henni. Það endar alltaf illa ef menn eiga ekki einu sinni fyrir veisluföngunum, ef menn þurfa alltaf að fara út í banka og sækja nýjan og nýjan víxil til þess að geta lagt meira á borðið.

Það er auðvitað það sem hefur gerst hér. Við höfum haldið uppi gríðarlegri neysluveislu undanfarin ár og við höfum slegið fyrir henni að verulegu leyti. Þess sér stað í stórvaxandi skuldsetningu íslenska þjóðarbúsins út á við þar sem hreinu kennitölurnar eru allar saman óhagstæðari en nokkru sinni fyrr. Ég bendi mönnum bara á að líta á (LB: En nú erum við að ræða fjárlög ríkisins.) Já, þau eru í samhengi við þetta, hv. þingmaður, heldur betur.

Ef menn vildu t.d. vera svo góðir að fletta upp á blaðsíðu 93 og 94, skoða töflurnar um hreina erlenda skuldastöðu þjóðarbúsins, þá sjá menn hvernig þetta hefur breyst hér á tiltölulega skömmu árabili. (LB: Hvað vill hv. þingmaður gera í þessu?) Ég skal svara hv. þingmanni um það á eftir, það er nefnilega akkúrat að koma að því í ræðu minni, ef hv. þingmaður má við bindast í sæti sínu og hafa örlitla þolinmæði skal ég hreinlega koma að því.

Tökum fyrst hreina erlenda stöðu þjóðarbúsins. Hún er, eins og ég held að ég hafi nefnt áðan, um 120% af vergri landsframleiðslu. Hún var 20% 1980. Þetta er mikil breyting. Þetta er kennitala sem (Gripið fram í.) menn horfa mjög stíft á.

(Forseti (KÓ): Ekki frammíköll.)

Jú, það er allt í lagi, ég hef bara gaman af því. Þótt menn fari ekki nema aftur til ársins 2000 eru þetta 80%, núna komin yfir 120%. (LB: En eignamyndun?) Heyrði hv. þingmaður ekki hvað ég sagði? Ég er að tala um hreina stöðu? Veit hv. þingmaður ekki hvað hrein staða er? Það er það sem stendur eftir í mínus þegar búið er að draga eignir erlendis frá skuldum. Hreinar erlendar skuldir, (LB: Mínustölur Seðlabankans.) hvernig standa þær? Jú, það var þannig, ef ég má leyfa mér aftur að fara aftur til 1980, að þá voru þær 30% af vergri landsframleiðslu. Jú, Ísland var bara þróunarríki og ekkert að marka það, eða hvað? En þær voru ekki meiri. Það var mikill munur á svigrúmi þjóðarbúsins til að taka lán ef gaf á bátinn á þeim árum því að skuldirnar voru ekki nema 30% af þjóðartekjunum á hverju ári.

Hverjar eru hreinar erlendar skuldir í dag? Við erum báðir með það hugtak á hreinu, ekki satt, hv. þingmaður? Þær eru 210% (LB: Þar er reyndar miðað við Seðlabankann.) þær eru komnar á þriðja þúsund milljarða kr. Já, Seðlabankinn veit ekkert í sinn haus í þessum efnum, er það nokkuð? Nei, það hentar ekki Samfylkingunni að trúa mikið á Seðlabankann núna, sérstaklega ekki gögnin frá honum, heyri ég.

Þetta er bara svona. Við getum rifist um þessar mælingar og menn velta því fyrir sér hvort eignasafnið erlendis sé rétt metið o.s.frv. en það breytir ekki miklu um að staðan hefur hríðversnað svo rosalega snöggt að það er mjög alvarlegt. Ef við reiknum þetta út í dag miðað við þróunina á alþjóðlegum verðbréfamörkuðum, hvernig ætli eignasafn stóru fyrirtækjanna hafi farið undanfarnar vikur? Ætli það liti ekki bara heldur verr út? Ég er hræddur um það. Ekki hefur þetta batnað með krísunni undanfarnar vikur, það skulum við sannarlega horfast í augu við.

Ég held því að þetta ætti einfaldlega að færa okkur heim sanninn um það að menn ættu að hreykja sér hóflega og muna eftir því að (GÁ: Maður á alltaf að gera það.) það kemur að skuldadögunum. Það þarf að borga skuldir, þær eru þess eðlis, ekki nema menn ætli að stinga af frá þeim og það er erfitt fyrir heilt þjóðfélag.

Fjárlagafrumvarpið er afgreitt í mikilli efnahagslegri óvissu en í því eru líka stór og alvarleg göt sem ýmsir hafa vikið að í umræðunum. Ég þarf ekki að orðlengja það af þeim ástæðum. Það er t.d. alveg undarlegt að sjá að flaggskip sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu í landinu, Landspítalinn, skuli þurfi að sæta sömu meðferð ár eftir ár. Vissulega hefur ekki verið farið um hann mjúkum höndum að undanförnu en það er ekki að batna. Heyrði ég það rétt og sá ég það rétt að hann eigi að fá 200 millj. kr. í viðbót við það sem fjárlagafrumvarpið ætlar honum? Það er borðleggjandi að Landspítalinn þarf a.m.k. 700–1.000 millj. kr. bara til þess að halda sjó með kjarnastarfsemi sína. Ástandið er þannig. Það vita allir.

Heyrðu menn ekki fréttirnar á dögunum um skuldirnar gagnvart birgjum og alla þessa hluti? (ÁMöl: Það kemur aftur í fjárauka.) Já, jafnvel þótt það sé kvittað út, hvað tekur þá við? Hinn daglegi veruleiki að reyna að reka fyrirtækið. Er þá lausnin sú að úthýsa verkefnin og fara með þau í einkageirann. Halda menn að það spari peninga fyrir þjóðarbúið þegar upp er staðið? (Gripið fram í.) Nei, svigrúmið til að færa verkefni til annarra spítala er ekki alls staðar fyrir hendi.

Það er að vísu dálítið merkilegt ef menn líta orðið þannig á að Landspítalinn megi bara næstum missa sig í heilbrigðiskerfi þjóðarinnar. Er virkilega farið að ýja að því? Er ekki veruleikinn sá að þegar til kastanna kemur þá verður Landspítalinn að takast á við vandamálin, dýrustu og erfiðustu verkefnin og getur aldrei vísað þeim annað? Það geta allar aðrar heilbrigðisstofnanir í landinu. Ef í harðbakkann slær er Landspítalinn alltaf til staðar á bak við með sérhæfða þjónustu og fjölmargar sérhæfðustu deildirnar er eingöngu þar að finna.

Hvernig er ástandið á þeim, deildum sem eru algerlega miðlægar og ómissandi í starfsemi spítalans? Þær eru svo undirmannaðar og vinnuálagið svo mikið að fólk greiðir atkvæði unnvörpum með fótunum, flýr til útlanda eða yfir í einkastofnanir ef þær eru til staðar til að bjóða mönnum betri kjör. Ég held að menn ættu að kynna sér hvernig starfsandi og vinnuálag hefur þróast á þessu móðurskipi sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu í landinu. Það væri hollt fyrir menn að gera það, hafa einhverjar innanhússupplýsingar um ástandið er á sumum deildunum þegar fólk sest niður á kvöldin og fellir tár yfir því að sjá ekki fram úr því hvernig það eigi að leysa verkefnin.

Það er athyglisvert við þetta fjárlagafrumvarp, ég vil taka undir það með flokksbróður mínum hv. þm. Jóni Bjarnasyni, að það vantar algerlega það sem maður bjóst við að finna í því, þ.e. stefnubreytinguna með tilkomu Samfylkingarinnar. Ég var rjúkandi hissa þegar ég fór að skoða fjárlagafrumvarpið (LB: Það gerist ekki oft.) og bera við gögn — það er þessi kækur að reyna að hafa pappírana á sínum stað — eins og stjórnmálaályktun Samfylkingarinnar sem var samþykkt á landsfundi 14. apríl 2007, á mikilli hátíð. Þar stóðu margir fallegir hlutir:

„Samfylkingin vill stuðla að gjaldfrjálsri menntun frá leikskóla að háskóla.“

„Námsbækur í framhaldsskólum verði nemendum að kostnaðarlausu.“ — Ekkert mjög stórt mál í útgjöldum talið. Er það í fjárlagafrumvarpinu? Ekki hef ég fundið það. Ég bið um ábendingar ef það er falið einhvers staðar.

„Breyta skal 30% námslána í styrk og greiða námslán út mánaðarlega.“ — Bíddu, er það að sjá á LÍN? Nei, er það ekki lækkað svolítið í breytingartillögunum? Ég sá ekki annað.

Með leyfi forseta:

„Samfylkingin leggur áherslu á að skattar af lífeyrissjóðsgreiðslum verði lækkaðir niður í 10%.“

Það munar nú um minna. Þetta er býsna feitt loforð. Ég sé þetta hvergi. Það hlyti að hafa talsverð tekjuáhrif en enn meiri áhrif auðvitað inni í almannatryggingakerfinu fyrir fólk sem við þetta býr. Mér snarbrá þegar ég heyrði þetta loforð Samfylkingarinnar á fundi hér innar í bænum og velti því fyrir mér: Er það virkilega þannig að Samfylkingin hafi samþykkt þetta, er þetta orðin stefna Samfylkingarinnar, fyrirvaralaus? Já, fyrirvaralaus. Lífeyrissjóðstekjur í heild sinni, sem eru nú enginn smástabbi og fer ört stækkandi, skattlagðar bara með 10%, væntanlega með þeim rökum að þetta séu fjármagnstekjur. Eru þær það? Já, kannski svona að hálfu.

Það má vissulega færa fyrir því rök að hluti lífeyristekna sé ávöxtun fjár sem menn greiddu skattfrjálst þangað inn, munum eftir því. Á því byggir og hangir sú röksemdafærsla að eðlilegt sé að líta á þetta við útgreiðslu sem fjármagnstekjur en bara þann hlutann sem nemur ávöxtuninni, ekki inngreiðslunum, því að þær eru núna sannanlega frádráttarbærar frá skatti. Mér þykir því Samfylkingin ætla að gera vel.

Ég gekk ekki lengra en það fyrir hönd flokks míns en segja að við værum tilbúin til að skoða það að reikna þetta út, meta og stilla skattprósentuna af miðað við að ávöxtunarhlutinn bæri 10% en restin fullan skatt. Það væri eðlileg nálgun. Hún væri ábyrg. Samfylkingin þurfti nú ekki að hafa fyrir því. Nei, hana munaði ekki um eitt stykki loforð um 10% fyrirvaralaust á lífeyrissjóðstekjur. Er verið að reyna að efna það hér? (GÁ: Eru þetta ekki svik?) Ég hef ekki orðið var við það. Það vottar ekki fyrir því. Það bara örlar ekki á því.

Þeir héldu áfram, samfylkingarmenn: „Frítekjumark fyrir atvinnu- og lífeyristekjur eldri borgara verði 100 þús. kr.“ — Hér er vel boðið.

Í sameiginlegri stefnumótun stjórnarandstöðunnar haustið 2006 var markið sett hátt á 75 þúsund kall og við fórum ekki hærra í kosningaloforðum okkar. Við sögðum: Við höfum gefið það út að við viljum stefna að 75 þús. kr. frítekjumarki og fyrir því munum við berjast ef við komumst í áhrifastöðu. En Samfylkingunni þótti það ekki nóg, hún yfirbauð hina stjórnarandstöðuflokkana og fór í 100 þús. kr. til þess að lofa aðeins meiru, að vísu bara alveg rétt fyrir kosningar, í apríl 2007. Er verið að efna þetta, að hækka frítekjumarkið? (Gripið fram í.) Nei, það hreyfist ekkert úr þeirri smán sem það er og var þegar stjórnarandstaðan mótaði sameiginlega sínar tillögur. Ég held að þið, ágæta samfylkingarfólk, verðið að þola að farið sé yfir þetta. (LB: Það er enginn að kvarta.) Það er gott, það er fínt. Ég er að sjálfsögðu að reyna að hjálpa ykkur. (LB: … ég bara fagna því.) Já, kemur nú ræðan, herra forseti, um að þeir hafi verið svo stutt í ríkisstjórn. En menn reyna að byrja, reyna að komast af stað. Menn reyna að sýna lit, er það ekki, ef þeir hafa meint eitthvað með því sem þeir voru að segja? Þeim mun ábyrgðarlausara er að lofa svo stórkarlalega sem Samfylkingin gerði, alveg glórulaust. Hún var svo ábyrgðarlaus að hún gat ekki látið sér nægja sameiginlega stefnumótun stjórnarandstöðunnar sem við lögðum metnað okkar í að ganga frá á haustdögum í þágu þess að hægt yrði að mynda hér almennilega rauðgræna félagshyggjuríkisstjórn, nei, hún þurfti að yfirbjóða á lokasprettinum. Svo örlar ekki á því að hún reyni að standa við það. Það er ekki óskaplega hátt risið á þessu.

Ég er eiginlega að hugsa um að hlífa þeim við því hér, herra forseti, að fara út í loforðin um stóriðjuframkvæmdirnar. Það var náttúrlega næst: „Samfylkingin vill að frekari stóriðjuáformum verði slegið á frest þangað til fyrir liggur nauðsynleg heildaráætlun …“ — o.s.frv., öllum framkvæmdum sem fyrir liggja. Fyrirvaralaust. Þarna var gengið lengra en í plaggi Jóns Sigurðssonar um efnahagsmálin. Hann hefur ekki þolað þann texta. Þar er talað um að dreifa þeim og draga úr þeim og ofgera ekki burðarþoli þjóðfélagsins, held ég að það sé kallað. Hér á bara að stoppa þetta allt saman í landsfundarályktun Samfylkingarinnar.

Virðulegi forseti. Ég er ekki nálægt því búinn. Ég gæti verið lengi enn að tína upp alveg makalaus loforð sem Samfylkingin gaf í glórulausu ábyrgðarleysi sínu þarna fyrir kosningarnar og vottar ekki fyrir að eigi að fara að reyna að efna eða standa við.

Jú, jú, það er búið að samþykkja áætlun um aðgerðir í málum barna og unglinga og það er ágætt. Við tókum vel í að það væri gert. En hvar eru efndirnar að öðru leyti? Hvar eru peningarnir? Þeir eru óskaplega litlir. Hvar er kjötið á beinunum? Enn sem komið er ekki neitt. Menn geta sagt að ekki séu hagstæðar efnahagslegar aðstæður til þess. Þensla og vandamál. En kom það Samfylkingunni á óvart þegar hún lenti í ríkisstjórn? Nei. Samfylkingin útmálaði, á sama tíma og hún lofaði öllum þessum ósköpum, jafnvægisleysið í hagkerfinu í heilu riti. Það var nú samræmið og samkvæmnin í málflutningnum svo aðeins sé farið yfir það.

Nú er orðið tímabært að spyrja: Hvernig ætla menn að hafa þetta? Hvernig ætla menn að tryggja að það verði farið að ganga í takt í hagstjórninni? Hvernig ætla menn að efna öll þessi stórfelldu loforð að minnsta kosti að einhverju litlu leyti? Og ná tökum á þjóðarbúskapnum og gera allt sem því fylgir? Ég sé ekki í fljótu bragði að Samfylkingin sé að nálgast það mikið. Hvað á að gera?

Það er ósköp einfalt, herra forseti, að viðurkenna að engin einföld töframeðul eru til til að vinda ofan af þeim vandræðum sem við erum komin í og leysa þetta allt saman á einu bretti. Ég held að það sé ekki hægt. Ég held að þetta verði erfið þrautaganga, vörðuð ýmiss konar erfiðleikum á næstu missirum, ef við ætlum á annað borð að reyna að takast á við þetta. Við getum sjálfsagt frestað vandanum enn um sinn. Ég veit ekki hvað lánstraust þjóðarbúsins þolir. Ég giska á tvö ár en meira er það ekki. Þá er þessu bara sjálfhætt. Þá lýkur veislunni endanlega með miklum hvelli og á þann hátt sem við viljum öll að ekki verði. Ætli sé ekki betra að reyna að fara að ná einhverjum tökum á þessu.

Og hvað mundi vera skynsamlegast að gera fyrst? Hvað átti ríkisstjórnin að gera þegar hún komst til valda í vor? Hún átti að nota það gullna tækifæri sem ný ríkisstjórn fær alltaf í hendurnar til þess að koma og segja: Nú verður tekist á við hlutina. Senda sterk skilaboð út í samfélagið. (Gripið fram í.) Segja: Við stöðvum allar frekari stóriðjufjárfestingar í landinu um sinn þangað til hagkerfið þolir innspýtingu á nýjan leik.

Það er augljóst mál að við eigum að reyna að stýra framkvæmdastiginu í landinu með hliðsjón af verðbólgunni, þenslunni og spennunni á vinnumarkaði. Ríkisstjórnin átti að byrja á þessu. Auðvitað átti að vera búið að því. Og auðvitað eru stóriðjuáformin og væntingarnar búnar að kynda þetta upp undanfarin missiri. Af hverju veðja erlendir aðilar á að gengi krónunnar haldist hátt? Að þeim sé óhætt að spila á vaxtamuninn milli Íslands og útlanda? Þeir gera það vegna þess að þeir sjá að engrar stefnubreytingar er að vænta. Að haldið verði áfram að dæla fjárfestingum inn í hagkerfið sem þýði að Seðlabankinn verði að hafa himinháa vexti til að halda aftur af verðbólgunni, þar með muni gengið haldast hátt, gengisáhættan takmörkuð og áfram verði hægt að gera út á vaxtamuninn milli Íslands og annarra landa í einhver ár.

Og þess vegna hafa jöklabréfin ekki enn tekið til fótanna. Þess vegna eru 800 milljarðar kr. inni í hagkerfinu af slíku fé. En það skapar mikla hættu ef það fé verður allt í einu órólegt og tekur til fótanna. Að þessu leyti er Ísland komið í býsna hliðstæða stöðu og Asíuhagkerfin á tímum þenslunnar þar áður en kreppan skall á hjá drekunum undir lok níunda áratugarins. Þannig að þetta á að gera.

Í öðru lagi ætti að reyna að laða aðra aðila til samstarfs um að stilla framkvæmdastiginu í landinu í hóf. Veruleikinn er sá að þó við hættum öllum stóriðjufjárfestingum í þrjú til fimm ár þá er svo mikið í farvatninu hjá öðrum aðilum að við þyrftum ekki að óttast of skarpan samdrátt. Hvað er verið að byggja hérna við höfnina? Stóra höll fyrir tugi milljarða kr. (Gripið fram í.) Þeir voru neðan við sjávarmál í marga mánuði, mennirnir, bara til að hrúga steypu í sökkulinn.

Hvað er Háskóli Íslands að gera? Hann er að ljúka við stórt Háskólatorg og hyggur á frekari framkvæmdir. Hvað er Háskólinn í Reykjavík að gera? Hann er að fara að byggja stóran háskólakomplex hangandi utan í Öskjuhlíðinni, jafngáfulegt og það er, en það er nú önnur saga. Hvað er fram undan á Landspítalanum? Það að vísu örlaði fyrir því, það var sagt að það væru jafnvel hugmyndir um að hægja heldur á. En 18 milljarðar eru inni á bók til að setja í byggingu fyrsta áfanga Landspítalans. Er ekki tvöföldun Reykjanesbrautar í gangi? Er ekki Sundabraut fram undan? Tvöföldun Suðurlandsvegar? Kísilflöguverksmiðjur hér og netþjónabú þar? Ætlar Landsbankinn ekki að fara að byggja nýjar höfuðstöðvar hérna? Ég get haldið svona lengi áfram.

Það er ærið umhugsunarefni hversu gríðarleg framkvæmdaáform eru fram undan hjá öðrum aðilum en ríkinu og af öðru tagi en stóriðjuframkvæmdirnar. Ég held að menn muni sjá að þær munu duga vel til að halda uppi meira en fullnægjandi framkvæmdastigi. Frekar væri að reyna að fá slíka aðila til samstarfs um að reyna að stýra þessu eitthvað og að minnsta kosti geta ríki og sveitarfélög lagt sitt af mörkum í þeim efnum.

Sérstaklega væri gagnlegt að reyna að draga úr spennunni á byggingarmarkaði og hvað varðar stærri framkvæmdir hér á suðvesturhorninu, hér á svæðinu við Faxaflóann, hér á áhrifasvæði vinnumarkaðarins sem nær langt upp á Vesturland og suður um Suðurland, austur að Þjórsá eða hvað við viljum.

Vinna með Seðlabankanum. Hvað á að gera? spyr hv. þm. Lúðvík Bergvinsson. Ef ég væri forseti færi ég á morgun upp í Seðlabanka og legði grunn að viðræðum Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar um að beita hinum peningalegu stýritækjum og möguleikum ríkisfjármálanna og ríkisbúskaparins í takt. Í staðinn fyrir að menn sendi hver öðrum skeyti í gegnum fjölmiðla héðan úr ræðustól eða í ræðum á ársfundi Vinnuveitendasambandsins eða eitthvað í þeim dúr. Menn senda hnýfilyrði á milli sín undir rós og það þarf að lesa á milli línanna í hvaða tilvikum er verið að skamma utanríkisráðherra og í hvaða tilvikum forsætisráðherra.

Ég er þeirrar skoðunar að styrkja eigi eiginfjárstöðu Seðlabankans og stórauka gjaldeyrisvaraforðann. Ég held að það hafi verið ægileg mistök að nota ekki tækifærið meðan það gafst og var mjög gráupplagt að halda gjaldeyriskaupum Seðlabankans áfram. Ég skildi aldrei af hverju þeir hættu þegar við blöstu þær aðstæður sem þá voru og eru enn. Að þeim mun sterkari sem gjaldeyrisvaraforðinn væri og þeim mun sterkari sem Seðlabankinn væri, þeim mun líklegra væri að okkur tækist að fara mjúklega í gegnum þetta að gengisbreytingarnar yrðu vægari en ella o.s.frv. Þó að þar hafi vissulega nokkuð verið að gert, ég viðurkenni það, held ég að menn hefðu þurft bæði fyrr og í miklu myndarlegri mæli að styrkja stöðuna þar.

Hver var ástæða þess að norska krónan hélt velli í gjaldeyrishruninu á Norðurlöndunum í kjölfar bankakreppunnar upp úr 1990? Hún var bara ein. Sú staðreynd að norski Seðlabankinn er óheyrilega sterkur og stendur hátt upp úr í hlutfallslegum samanburði seðlabankanna á Norðurlöndum. Finnski, sænski og danski Seðlabankinn réðu ekkert við ástandið en Norðmenn stóðu það af sér og við sluppum reyndar furðulega vel. Merkilegt nokk. Kannski af því að við áttum þá ríkisbanka sem höfðu þá stöðu að hafa ríkisábyrgð á lánum sínum og ríkið að bakhjarli og sigldu í gegnum bankakreppuna mun mjúklegra en einkavæddu bankarnir annars staðar á Norðurlöndunum gerðu. (Gripið fram í: Er komin bankakreppa?) Nei, hún er ekki komin. Bankar sem höfðu verið einkavæddir árin á undan í Noregi og Svíþjóð enduðu aftur að miklu leyti í eign ríkisins. Ég er ekki að segja þetta vegna þess að ég óttist eða vonist endilega eftir því að þannig fari hjá okkur. Það geri ég ekki. En það sem hefur einu sinni gerst það getur alltaf gerst aftur einhvers staðar annars staðar á hnettinum. Er það ekki?

Það er ekki komin bankakreppa, nei. Ég held reyndar að íslensku bankarnir, margt sem má um þá segja, hafi að mörgu leyti staðið sig mjög vel við erfiðar aðstæður að sumu leyti núna undanfarin eitt og hálft ár. Þeir hafa undirbúið sig. Þeir hafa gert það með ýmsum hætti þótt þeir hafi líka gert mikil mistök eins og í fasteignalánunum. Ég held að þeir hafi reynt að tryggja sig og fjármagna sig með góðum fyrirvara og undirbúa sig þannig eins og kostur var. Draga pínulítið úr krosseignarhaldi og öðru slíku sem voru augljósir veikleikar í stöðunni og hættulegir fjármálastöðugleikanum. Vonandi eru þeir þá nógu sterkir til þess að standa af sér ágjöf sem er í gangi og verður kannski fram undan. Við skulum vona það besta.

Ég held að taka ætti til skoðunar að fara í skuldabréfaútgáfu og reyna að auka sparnað og ná þannig fé úr umferð og gera þar með líka innlenda skuldabréfamarkaðinn virkari. Með því ætti að mega ætla að peningatækin, stýritækin, virkuðu betur, að vaxtamarkaðurinn yrði dýpri og eiginlegur. Það er umhugsunarefni að það skuli nánast engin skuldabréf vera í gangi nema þá tveggja ára bréf eða hvað það nú er. Tækifærið er væntanlega núna vegna þess að nú eru að koma til innlausnar stórir gamlir skuldabréfaflokkar.

Síðast en ekki síst, svo ég taki nú ekki allt of langan tíma í að svara Samfylkingunni þannig að hún viti hvað eigi að gera, er augljóst mál að það verður afar afdrifaríkt hvernig tekst til í ákvörðunum um kjarasamninga á næstu mánuðum. Það er svo gríðarlega mikilvægt að okkur takist að ná mönnum saman og endurskapa einhvers konar þjóðarsáttarandrúmsloft til þess að við glötum ekki endanlega úr höndunum á okkur ávinningnum af þjóðarsáttinni. Það er það sem er í hættu. Við erum í meiri hættu nú en sennilega nokkru sinni fyrr, og er þá árið 2001 ekki undanskilið, að glata varanlega úr höndum okkar ávinningnum sem náðist með þjóðarsáttinni árið 1990.

Það var ekkert lítið. Ég held að menn ættu að hugsa aftur fyrir þann tíma og minnast þess hversu hörmulegt ástand það var þegar verðbólgan lék lausum hala og verðtryggð lán æddu upp úr öllu valdi svo maður tali nú ekki um hinar dimmu miðaldir þess tíma þegar misgengið illræmda á grundvelli pólitískra ákvarðana svipti fjölskyldur eignum sínum í stórum stíl. Ég veit ekki hvort minnst er á það í ævisögu hv. þm. Guðna Ágústssonar, en það er fjallað dálítið um það í ævisögu Steingríms Hermannssonar. Svo mikið man ég. (Gripið fram í.) Misgengið var sorglegur kafli í sögu okkar og sú ríkisstjórn sem bar ábyrgð á því, ríkisstjórn sjálfstæðismanna og framsóknarmanna sem sat að völdum árin 1983–1987, er þar með ljótan blett á samvisku sinni ef svo má að orði komast. Það verður aldrei annað sagt. (Gripið fram í.)

Þannig að það síðasta væri þá þjóðarsáttarnálgun. Já, nú getur hv. þingmaður kallað fram í. En má ég minna á, vona að það móðgi engan, að ég sat einmitt í þeirri ríkisstjórn sem lagði grunninn að þjóðarsáttinni með samstarfi sínu við aðila vinnumarkaðarins. Ég var landbúnaðarráðherra. Ég átti stóran þátt í því að bændur og landbúnaðurinn og landbúnaðarráðuneytið lagði sitt af mörkum í það púkk. Við skulum ekki gleyma því. Ég veit að það gleður hv. þm. Guðna Ágústsson að minnast þess að hlutur bænda og landbúnaðarins í þeim gerningi verður seint fullþakkaður. (Gripið fram í.) Þá var landbúnaðurinn enn stærri í neysluvísitölunni og hafði mun meiri verðlagsáhrif en hann hefur í dag og þess vegna skipti það sköpum að bændur og landbúnaðurinn var tilbúinn til að færa þær fórnir fyrir sitt leyti og leggja þær í púkkið, að falla frá öllum verðhækkunum langt fram í tímann í von um að verðbólgan næðist niður. Bændur tóku mikla áhættu og tóku á sig umtalsverða kjaraskerðingu við erfiðar aðstæður á þeim tíma. Það skipti miklu máli að ná saman pakkanum um hjöðnun verðlags og stöðugleika sem blessunarlega tókst að innleiða.

Ég gleymi ekki gleðinni sem varð haustið 1990 þegar í fyrsta skipti um árabil, ef ekki í áratugi, sást eins stafs verðbólgutala. Gleðin þegar verðbólgan mældist ekki nema 9,5%. Hún var ómæld því það var eitthvað sem menn höfðu ekki séð óralengi, var ávísun á betri tíma sem það sannarlega varð og lagði grunninn að þeim stöðugleika sem við bjuggum við og höfum blessunarlega búið að þótt mönnum hafi verið að fatast mjög flugið og mistakast, verið með mjög mislagðar hendur að gæta þess stöðugleika.

Nú vonast ég til þess, virðulegur forseti, að mér hafi tekist að svara því nokkuð. Það var fullkomlega eðlilegt og réttmætt að spyrja: „Já en hvað leggið þið til? Hvað er hægt að gera?“ Það er auðvitað margt fleira sem ég held að sé skynsamlegt að gera við þessar aðstæður, bæði stórt og smátt. En ég hef reynt að fara hér yfir stærstu drættina í því sem ég tel skynsamlegt. Ég held reyndar að menn hefðu þurft að fara fyrr og betur yfir áhættustýringu og viðmið í sambandi við fjármálakerfið. Ýmsir lögðu það til fyrir tveim, þrem árum síðan. Á þá var ekkert hlustað. Það var ekki fyrr en bankarnir fengu hinar sterku aðvaranir á síðasta ári sem menn fóru þar eitthvað verulega að ugga að sér. Menn hefðu betur farið að þeim ráðum sem þá voru um til dæmis allsherjarálagsmat á bankakerfið og hvað það þyldi. Þá hefðu menn jafnvel fyrr gripið til þeirra ráðstafana sem þeir hafa að hluta til gert núna og staðið betur að vígi, ef til vill farið aðeins varlegar. Það er spurningin.

Ég ætlaði svo örlítið í lokin, virðulegur forseti, að nefna breytingartillögur (GÁ: Ertu að fara að hætta?) sem við flytjum. Ég (Gripið fram í.) veit að ég hryggi hv. þingmenn mjög með því að gefa það eitthvað í skyn að það sé að síga á seinni hluta ræðu minnar. En hún er nú ekki alveg búin. Ég get glatt hv. þm. Guðna Ágústsson með því. Það er í raun og veru fyrst og fremst tvennt sem ég ætla að ræða hér í lokin, þ.e. annars vegar þessar breytingartillögur eða nefna þær og okkar aðkomu að fjárlagafrumvarpinu og hvernig við sjáum afgreiðslu þess og svo get ég ekki — þó að ugglaust verði fleiri til að nefna það hér — annað en aðeins staldrað við nýjasta útgjaldapóstinn í fjárlagafrumvarpinu og það eru útgjöld til hermála. Það komu fréttir í gær af því að nú eigi að fara að stofna nýja stofnun til að halda utan um hermálaútgjöldin. Mér finnst það alveg ævintýralega dapurlegur minnisvarði sem Samfylkingin er, farandi með utanríkisráðuneytið, að reisa sér í þeim efnum, að hafa nú ekki getað reynt að stýra þessu einhvern veginn öðruvísi en þannig að óbreytt stefna fyrri ríkisstjórnar um heræfingar og viðræður við hin og þessi NATO-lönd um að koma hér endilega með stríðstól og hafa þau hér í loftinu yfir höfðunum á okkur, að hún haldi bara áfram óbreytt. Einnig að þessu leyti markar Samfylkingin engin ný spor, að minnsta kosti ekki hvað þennan þátt málanna varðar og það er dapurlegt. Í þetta eiga að fara heilmiklir peningar sem væri miklu meiri sómi að að ráðstafa í aðra hluti. Við getum auðvitað nefnt svo sem hvað sem er, tilfinnanlegan skort á fjármagni til dæmis á ákveðnum sviðum velferðarmála, segjum geðheilbrigðismálin eða segjum bara forvarnir sem menn voru að ræða hér í þinginu í vikunni.

Þó að það væri ekki annað en það að menn segðu sem svo að þeir ætli að huga að öryggi íslenskra borgara og verndun íslenskrar náttúru á nýjum tímum, eins og þeir í orði kveðnu segjast gera, tala um til dæmis siglingar stórra olíuskipa úr Norðurhöfum og suður um frá lindunum miklu í Íshafinu. En hvað dettur mönnum fyrst í hug ef stór olíuskip eru að sigla í nágrenni í við Ísland? Herþotur! Eru þær nærtækasta tæki til þess að takast á við slíkt? Ég hefði frekar haldið að það væru olíugildrur, mengunarvarnabúnaður og viðbúnaður í landi, björgunarviðbúnaður til að glíma við stór skip, þyrlur og annað í þeim dúr. Það mætti færa rök fyrir því að leggja í útgjöld á því sviði. Það er til dæmis álitamál hvort ekki sé orðið óumflýjanlegt að stuðla að því að á Íslandi sé til almennilegur dráttarbátur, nokkur þúsund tonna dráttarbátur sem ræður við stór skip að minnsta kosti þangað til nýja varðskipið kemur.

Hvað gerðist þegar eitt af stærstu fiskiskipum flotans strandaði hérna við suðurströndina? Það varð að sækja dráttarbát til Noregs. Ætla menn að sækja dráttarbát til Noregs ef stórt olíuskip er komið hættulega nálægt landi og vélin bilar, sem er auðvitað alltaf fræðilegur möguleiki? Þá gera herþotur uppi í loftinu ekkert gagn. Það er bara ekki þannig. Það er því eins og hvert annað rugl að halda því fram (Gripið fram í.) að samningar við Norðmenn, Belga, Hollendinga og Spánverja og hvað það nú heitir allt saman um að herþotur komi hingað, séu nauðsynlegir vegna aukinnar umferðar stórra olíuskipa. Ég hef aldrei heyrt annað eins rugl. Af hverju ræða menn ekki hlutina á einhverjum efnislegum nótum? (Gripið fram í.) Þær eru bara alveg gagnslausar, hv. þingmaður, í slíkum tilvikum. Það væri öflugt dráttarskip ekki. Það væru olíuvarnargildrur ekki og ýmis viðbúnaður í landi sem getur verið nauðsynlegur til að hafa til staðar til að færa út í skipin ef eitthvað fer úrskeiðis. (Gripið fram í.) Nóg um þetta.

Við leggjum hér fram breytingartillögur, virðulegur forseti, fjölmargar og þær eru í þannig samhengi að í fyrsta lagi er ein almenn tekjuöflunar- og sparnaðartillaga og síðan eru tillögur um áherslubreytingar og útgjöld á ýmsum sviðum. Þessar tillögur í heild sinni mynda pakka sem er nokkurn veginn í jafnvægi, þ.e. við leggjum til um það bil tekjuöflun og sparnað af sömu stærðargráðu og útgjöldunum nemur. Það skal fúslega viðurkennt að þetta er ekki nákvæmlega stillt af. En það skakkar ekki miklu. (Gripið fram í.) 384 milljónir? Ja, það verð ég að telja nokkuð nálægt lagi þegar um er að ræða pakka upp á eina 12 milljarða kr. Við höfum ekki áhyggjur af því þó að afgangurinn breyttist um fáein hundruð milljóna til eða frá. Við erum sem sagt ekki að leggja til minni afgang af ríkissjóði. Hann er hins vegar auðvitað ekki í hendi og mjög óviss og ég vísa til alls þess sem ég hef sagt þar um óvissuna og minni á að ég deili ekki endilega þeim skoðunum sem hér voru algengar í dag að hættan sé sú að við séum að vanáætla líklegar tekjur ríkissjóðs á næsta ári — ég hef miklu meiri áhyggjur af hinu, ef við lentum í því að hafa þær ofáætlaðar — af því að við teljum auðvitað mikilvægt að ríkissjóður fyrir sitt leyti taki þátt í því að framfylgja hér aðhaldssamri stefnu við þessar þensluaðstæður og það væri óábyrgt að leggja til milljarðatuga útgjöld án þess að huga neitt að tekjuhliðinni og huga neitt að efnahagslegum áhrifum þess.

Það gerum við og þess vegna leggjum við til að fjár verði aflað með í fyrsta lagi þeirri stefnu sem við höfum mótað um álagningu fjármagnstekjukatts, að fyrirkomulaginu verði breytt, að tekið verði upp frítekjumark fyrir tekjur upp á sirka 120 þús. kr. sem breytir miklu fyrir hinn almenna smásparanda og tekur til og gerir reyndar skattlausan stærstan hluta þeirra sem núna borga fjármagnstekjuskatt, jafnvel þannig að 80–90% af þeim sem borga fjármagnstekjuskatt slyppu þá við hann vegna þess að fjöldinn er að borga lágar fjárhæðir en hinar raunverulegu fjármagnstekjur koma frá stóreignamönnum og þeim sem hafa gríðarlega mikið umleikis á þessu sviði og þar leggjum við þá til að skattprósentan verði 14% í staðinn. Þetta mundi skila umtalsverðum tekjum. Hér er áætlað að nettótekjuáhrifin af þessu yrðu 11 milljarðar kr. Við viljum einfaldlega skera burt þessi útgjöld til hernaðarmála sem kölluð eru hér „til varnarmála“. Við teljum þessar heræfingar með öllu óþarfar og engin ástæða til þess að Íslendingar standi straum af þeim og hafi af því gríðarlegan kostnað upp á tæpan hálfan milljarð kr. þannig að við leggjum til að þessi liður falli út.

Við teljum líka með öllu ástæðulaust að reka hinn hernaðarlega hluta ratsjárkerfisins og áætlum að helmingur af því fé sem áætlað er á stofnunina dygði til að starfrækja borgaralega hluta kerfisins og miðla þeim upplýsingum til Flugmálastjórnar eða flugumsjónaraðila.

Við teljum að það megi ætla sendiráðunum að búa við verðlagshækkun og þau þurfi ekki meira. Þar er því sparnaður upp á tæpar 50 millj. kr. í okkar tillögum.

Síðan er síðasti töluliðurinn sem kemur til sparnaðar hér en útgjöld á móti, þ.e. við leggjum til tilfærslu frá embætti ríkislögreglustjóra sem hefur þanist alveg gríðarlega út á undanförnum árum og á enn að gera svo nemur hundruðum milljóna kr. á sama tíma og lögreglan og sýslumannsembættin eru svelt. Þeim er ætlað að búa við óbreytta fjárveitingu milli ára og sjá fyrir öllu því sem þau þurfa að gera að nýju með svokallaðri hagræðingarkröfu. Þessi þróun getur ekki haldið áfram endalaust, að almenna löggæslan sé svelt ár eftir ár og skorin niður en eitt embætti, ríkislögreglustjóraembættið tútni út. Þegar svo er komið að lögreglan í Árnessýslu, í kjördæmi hv. þm. Atla Gíslasonar, getur haldið úti einum bíl þá ættu menn nú að fara að hugsa sinn gang. Það er engin löggæsla í Grindavík að heitið getur. (GÁ: Það eru engir glæpamenn fyrir austan.) Það er náttúrlega mjög mikilvægt og gott að menn séu löghlýðnir þar. (Gripið fram í.) En ætli það sé ekki stundum ástæða til að kíkja aðeins á umferðina og hvernig hún gengur fyrir sig, að hv. þm. Guðni (Gripið fram í.) Ágústsson keyri ekki of hratt og svona?

Þetta eru sem sagt okkar tekjuöflunar- og sparnaðartillögur og á móti koma fjölmargar útgjaldatillögur sem ég ætla ekki að fara í nema kannski rétt þær almennu sem lúta að auknum framlögum til jöfnunar á námskostnaði. Það eru þessar tilfærslur frá ríkislögreglustjóra til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og til sýslumannsembættanna til eflingar almennrar löggæslu. Við leggjum til viðamiklar ráðstafanir gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem eiga að koma tekjulitlum og illa stöddum sveitarfélögum til góða, viðbótarframlög þar upp á 700 milljónir.

Við leggjum til að ríkið leggi í gegnum sama farveg 700 milljónir í að taka upp fyrsta áfanga að gjaldfrjálsum leikskóla og við leggjum til að ríkið komi til móts við sveitarfélögin og geri þeim kleift að hækka húsaleigubætur um 1.000 millj. kr. Það er auðvitað alveg hneykslanlegt og minni ég enn á stórkostleg loforð Samfylkingarinnar. Ég nenni ekkert að fletta upp á því hverju var lofað í húsaleigubótum og vaxtabótum. En það var örugglega myndarlegt ef leiða má líkur að því. En ekki sé ég það nú í fjárlagafrumvarpinu.

Það er mjög brýnt að stórauka stuðning við tekjulágt fólk hvað varðar kostnað af húsnæðisöflun. Það vita allir hvernig þau mál hafa verið að þróast. Það vita allir hver húsaleigan er hér. Íbúðarholur eru leigðar á 100, 120, 140 þús. kr. á mánuði, ekki allar merkilegar. Það tekur í fyrir tekjulágar fjölskyldur þegar húsaleigubæturnar eru svo skornar niður við trog og hafa tekið litlum eða jafnvel engum hækkunum. Eru ekki vaxtabæturnar um það bil sama tala núna þrjú eða fjögur ár í röð? Það er því milljarður í hækkun húsaleigubóta og við viljum setja milljarð í hækkun vaxtabóta. (GÁ: Hverju lofaði Samfylkingin þarna?) Vill nú ekki bara hv. þm. Guðni Ágústsson taka að sér að fletta upp á því fyrir mig og koma með það í sinni ræðu? Ég vil ekki ræna öllum tilefnum af hv. þm. Guðna Ágústssyni til þess að fara yfir þetta með mér. Við skulum skipta með okkur verkum. (Fjmrh.: Búnir að ræna öllum tilefnum af öllum.) Við skulum skipta með okkur verkum. Það hefur enginn bannað hæstv. fjármálaráðherra að vera hér á mælendaskrá og halda myndarlega ræðu ef hæstv. ráðherra vildi vera svo góður. (Fjmrh.: Ég er búinn að halda myndarræðu.) Já, það er nú það, (KolH: ... fagna ...) hversu myndarleg hún var. En við fögnum því að hafa hæstv. ráðherra hér við umræðuna.

Þá eru það barnabætur. Við teljum að það sé mikilvægara fyrir börnin og barnafjölskyldurnar að hækka einfaldlega barnabæturnar en að setja málið í nefnd. Það er miklu skilvirkara þannig. Það verð ég að segja við Samfylkinguna. Það er nokkuð sem kemur mönnum strax til góða. (SVÓ: Þú ert alveg með Samfylkinguna á heilanum.) Nei, ekki alveg, nei, nei. En ég hlýt að mega tala um hana svona þegar mér sýnist. Samfylkingin er nýi flokkurinn í ríkisstjórn. Ég held að Samfylkingin hljóti að vera upp með sér af því að það sé farið aðeins yfir það hvort hún hafi markað einhver spor í þessu stjórnarsamstarfi, (SVÓ: Er einhver öfund í rödd þinni?) hvort það sé ... Öfund? Ha! (Gripið fram í: Öfund?) Heldur hv. þingmaður að ég öfundi hana svona af frammistöðunni? (SVÓ: Þú hljómaðir þannig.) Nei, það er nefnilega ekki svo. Ég er prýðilega sáttur við mitt hlutskipti (SVÓ: Gott.) og hef alltaf verið. Ég tek því sem að höndum ber í pólitík. Ég veit ekki hvernig er með hv. þingmann. Ég veit ekki hversu ánægð hún var til dæmis á sínum tíma í borginni á köflum. En svona fer stundum. Við vinnum ekki öll prófkjör. Þá bara tökum við því með brosi á vör. Er það ekki? Við erum ekkert að væla yfir því. Mér finnst að Samfylkingin eigi ekkert að vera að gera mönnum upp einhverjar annarlegar hvatir bara vegna þess að menn leyfa sér að fara aðeins yfir hverju hún lofaði fyrir kosningar og hvað hún er svo að gera. Ef menn þola það ekki er nú bara spurning hvort menn eru á réttri hillu því að þetta er enginn sunnudagaskóli. Pólitíkin er ekki þannig. Menn þurfa að geta skipst á skoðunum og tekist á og rætt hlutina með beinskeyttum hætti. Það er ekkert gagn að hinu. Þá eiga menn bara að vera í einhverju öðru ef menn þola ekki hér almennilegar umræður.

Við leggjum líka til að þarna komi liður sem heitir Jöfnun á flutningskostnaði. Nú var að vísu eitthvað á það minnst hér í ræðu varaformanns fjárlaganefndar. En ég sá ekki að það ætti neitt að hækka peningana heldur átti bara að þynna það út sem áður hafði verið sett inn á Vestfirði og breiða það út yfir allt landið. Ef þetta er misskilningur þá fagna ég því. (Gripið fram í: Þá dettur tillagan út.) (Gripið fram í.) En það eru ekki stórir peningar.

Þá væri nú gaman að hafa kempuna hæstv. samgönguráðherra hér. Mikið rosalega væri gaman að fara í smáumræður um þungaskatt og flutningskostnað þegar hv. þm. Kristján Möller er orðinn samgönguráðherra. (Gripið fram í: Eigum við ekki að vekja hann?) Ég veit ekki hvort hv. þingmaður er svo kvöldsvæfur að hann sé farinn að sofa. Það var ekki lítið sem hv. þm. Kristján Möller talaði hér um þungaskatt og flutningskostnað og hástemmdar lýsingarnar á því hvernig því yrði öllu kippt í liðinn ef hann skyldi komast til nokkurra metorða og áhrifa. En vill svo ekki þannig til að hv. þm. Kristján Möller er orðinn hæstv. samgönguráðherra Kristján Möller og er nú í kjöraðstöðu til láta eitthvað gerast í þessum efnum. En þá ber svo við að það er eitthvað lítið að frétta, svona svipað og með gjaldfrjáls Vaðlaheiðargöng strax. Við munum eftir því sem vorum í framboði fyrir norðan. Það kom allt í einu borði á Ráðhústorgið á Akureyri, feiknamikill borði og á honum stóð: Gjaldfrjáls Vaðlaheiðargöng strax. Og bara ekkert mál, nú tökum við þetta. En það bólar ekkert á þeim, hvorki gjaldfrjálsum né með gjaldtöku. Þannig er nú það.

En við erum söm við okkur í afstöðu okkar í þessum efnum, að flutningskostnaðurinn sé eitt allra tilfinnanlegasta óréttlæti sem landsbyggðin býr nú við og vegur tilfinnanlega inn í vöruverð og allar aðstæður og atvinnurekstur á því svæði og er í raun og veru nánast að ganga að ýmiss konar framleiðslustarfsemi á landsbyggðinni dauðri. Ég get nefnt lítið fyrirtæki norður í landi, norður í Kelduhverfi, fiskeldisfyrirtæki. Framkvæmdastjórinn þar hefur lagt tölur á borðið fyrir okkur þingmenn og sýnt okkur hvað það kostar að flytja öll aðföng, allt fóður, umbúðir og allt sem þarf með bílum alla þessa leið og síðan aftur framleiðsluvöruna suður á Keflavíkurflugvöll að mestu leyti. Það eru tugir króna á hvert einasta kíló þegar allt er reiknað.

Þetta var dæmi um fyrirtæki sem nánast er við dauðans dyr fyrst og fremst út af flutningskostnaðinum. Það væri í prýðilega góðum málum og hefði bara ágætisafkomu ef flutningskostnaðurinn væri hóflegur. Ef hann væri eitthvað í líkingu við það sem hann var á meðan skipafragt var í boði, framhaldsfragt frá Íslandi til útlanda og hafnir vítt og breitt um landið.

Breytingin að þessu leyti fyrir allt atvinnulíf, sérstaklega framleiðslustarfsemi og vörur sem kalla á mikla flutninga, er alveg ískyggileg. Það verður auðvitað ekki liðið að menn séu endalaust að tala um að eitthvað þurfi að gera í þessu. Lofi því fyrir kosningar eins og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir gerði sem ráðherra fyrir kosningar 2003, eins og hv. þm. Kristján Möller, nú ráðherra, gerði fyrir kosningar 2007 og svo gerist aldrei neitt. Af hverju eru menn þá að þessu? Af hverju eru menn að gefa vonir og væntingar um að eitthvað verði tekið til hendinni og svo gerist ekki neitt? Það voru smáaurar sem rötuðu þarna inn og voru eyrnamerktir Vestfjörðum, hvernig sem á því stóð, sem núna á að fara að smyrja yfir allt landið og láta heita að það gerist eitthvað. Reyndar var sagt að þetta yrði aðallega notað í úttekt. Þarf úttekt? Eru ekki til skýrslur? Vann ekki Byggðastofnun mikla skýrslu sem lá fyrir haustið 2002? Skýrslu sem send var út til Brussel til að hin heilaga Eftirlitsstofnun Evrópska efnahagssvæðisins, ESA, gæti metið það og tekið út hvort svona endurgreiðslukerfi stæðist? Allt klappað og klárt nema að þá vantaði pólitískan vilja.

Sagt var í þessum ræðustóli að því miður væri ekkert að gerast því að ekki væri samstaða um þetta í ríkisstjórninni. Er samstaða um eitthvað í ríkisstjórninni núna, að láta eitthvað gerast (Gripið fram í: Hún er bara ekkert að gera.) í þessum efnum? Ríkisstjórnin er lítið að gera, það er alveg staðreynd. Hún er óskaplega dauf og mikið í útlöndum og það er náttúrlega er ekki þar sem aðalvandamál íslensks samfélags liggja, satt best að segja. Til dæmis er eiginlega engin leið að glíma við flutningskostnað á landsbyggðinni frá útlöndum. Ég held að hún ætti bara vera hér heima og takast á við það mál, svo maður segi það eins og það er.

Ég ætla svo að ljúka mínu máli á því, virðulegi forseti, að segja að það er mín tilfinning, því miður, að það sé langt síðan við höfum verið við lokaafgreiðslu fjárlaga — það hallar nú að lokaafgreiðslu fjárlaga hér — við jafnmiklar óvissuaðstæður og nú eru. Það er svo margt fram undan og í núverandi stöðu efnahagsmála og þjóðarbúskapar okkar sem er á miklu floti er svo ókyrrt að það hálfa væri nóg. Menn mundu undir venjulegum kringumstæðum, þótt hér væri þrælstöðugt verðlag, lítil verðbólga og enginn viðskiptahalli, vera órólegir út af ástandinu á verðbréfamarkaðnum einum saman. Það er alveg nóg að verðmæti íslenskra fyrirtækja í Kauphöll lækki um hundruð milljarða króna á nokkrum vikum. Það þýðir ekki það sama og tap en við skulum hafa í huga að þessi fyrirtæki eru skuldsett og hafa tekið lán fyrir fjárfestingum sínum. Það er ekki nema takmarkað svigrúm til staðar ef verðmæti þeirra skreppur saman þangað til farið er að rukka þá gjörninga og heimta annaðhvort meira fé eða farið er að ganga að fyrirtækjunum eða veðunum. Það er ekkert grín og hvort sem menn eru meira eða minna markaðssinnaðir þá vita þeir auðvitað hvað það getur þýtt ef þar verður mikið og snöggt hrun eða breytingar til hins verra. Þetta væri eitt og sér alveg nóg til þess að menn ættu að vera nokkuð hugsi og halda aftur af sér í gleðinni, hversu hamingjusamir sem þeir eru með það að vera í ríkisstjórn og hafa annaðhvort verið þar lengi eða eru nýkomnir þangað.

Hvað verður um stóriðjuframkvæmdirnar? Þær eru hvergi inni í þessum plönum. Hverjar verða afleiðingarnar ef hundruð milljarða króna fjárfestingar verða ákveðnar á næstu mánuðum sem bætast ofan á allar þær stórframkvæmdir sem eru í pípunum og fram undan og ég taldi upp áðan? (Gripið fram í: Eru menn bjartsýnir?) Nú veit ég ekki svo mikið um það, nema að Seðlabankinn er a.m.k. með kafla í skýrslunni um áhrifin af því ef ráðist yrði í álver í Helguvík. Hann metur stöðuna þannig að álver á Húsavík sé sennilega eitthvað lengra inni í framtíðinni og veltir vöngum yfir hvað komi út úr stöðunni hvað varðar stækkun í Straumsvík. (Gripið fram í: Alþingi er búið að breyta um stefnu.) Ertu svo viss um það? Þeir eru með góða áróðursmenn hjá Landsvirkjun. Það er önnur saga.

Hvað verður um kjarasamningana og hið almenna ástand efnahagslífsins hér á landi? Hvernig þróast húsnæðismarkaðurinn? Hver verður þróun á verðbréfamarkaði? Hvernig reiðir útflutnings- og samkeppnisgreinum íslensks atvinnulífs af á næstu mánuðum? Þetta eru allt saman óvissuþættir og má þá kannski bæta einum við, hann er að vísu ekki í okkar höndum. Það kemur auðvitað til með að skipta gríðarlega miklu máli hvernig hinar alþjóðlegu efnahagsforsendur þróast á næstu mánuðum og hafa bein áhrif á Íslandi. Þar er mikil óvissa. Það er sérstaklega mikil óvissa um efnahagsþróunina í Bandaríkjunum. Hvað verður um vafningalánin þeirra og allt það dótarí? Þurfa stærstu bankar heimsins að fara að afskrifa gríðarlegar fjárhæðir á næstu mánuðum eins og jafnvel er talið? Hvernig þróast olíuverðið á næstu mánuðum? Fara Bandaríkjamenn í stríð við Íran? Hvernig þróast álverðið? Við erum örstutt frá því að sjá olíuverð sem fer yfir 100 dollara á tunnu. Til eru spár, þeim er ekki mikið hampað af skiljanlegum ástæðum, sem leiða að því líkur að olíuverðið geti jafnvel farið í 200 dollara á tunnuna innan fárra missira. Sérstaklega ef Bandaríkjamenn halda ekki aftur af gikkfingrinum á sér.

Á sama tíma er spáð að álverð muni fara lækkandi. Af hverju er ég að nefna það? Ég nefni það vegna þess að þetta eru að verða þær tvær breytur sem hreyfa ekki litlu til í íslensku hagkerfi. Olían hefur alltaf gert það vegna þess að enda þótt við séum heppin og kyndum húsin okkar með hitaveitum að mestu leyti og með rafmagni þá er olíunotkun Íslendinga mikil og hún vegur þungt í hagkerfinu vegna flotans og samgangnanna og hefur m.a. bein áhrif á kjör sjómanna. Olíuverð sem stefnir áfram upp á við og fer kannski yfir 100 dollara á tunnu eru engar gleðifréttir fyrir íslenskan þjóðarbúskap ef álverð fer lækkandi á sama tíma. (Gripið fram í: Hvar er þessi spá um álverðið?) Hún er m.a. hérna. Hún er í Metal Bulletin og ég get bara flett upp á þessu öllu fyrir hv. þingmann ef hann þarf á því að halda. Þetta er allt hér. Það er talið að álverð fari sennilega frekar lækkandi. Það hefur lækkað talsvert, vissulega úr sögulegum hæðum, 3.000 dollurum á tonn. (Gripið fram í.) Þannig er að eftirspurn eftir áli er fyrst og fremst haldið uppi af hagvexti í Kína og Indlandi. Þar er framleiðsla að vísu að aukast mikið líka. En nú er svo komið að framleiðsla vex hraðar en eftirspurn. Álbirgðir vaxa í heiminum, verðið hefur lækkað og flestar spár gera ráð fyrir því að ál muni lækka talsvert að raungildi á næstu mánuðum. Var það ekki álið sem átti að bjarga okkur? Átti það ekki að leysa allan vanda, borga af öllum skuldum Landsvirkjunar o.s.frv.? Hvað þýðir lækkandi álverð? Það þýðir minni tekjur í kassann hjá Landsvirkjun og Orkuveitu Reykjavíkur og jafnvel Hitaveitu Suðurnesja innan skamms og hefur orðið vaxandi vægi, a.m.k. í gjaldeyrisjafnvægi þjóðarbúsins þó að reyndar séu nettó þjóðhagsleg áhrif stóriðjunnar miklu minni í hagkerfinu en menn gjarnan halda.

Það eru mjög margir óvissuþættir af þessu tagi, virðulegi forseti, sem maður er hugsi yfir. Auðvitað verðum við bara að bíða og sjá hvernig því öllu vindur fram á næstu missirum. En svo mikið er víst að það er tilefni til að fara að öllu með mikilli gát og ástæða til að missa sig ekki í einhverri gleði yfir fréttum eins og þeim að við séum efst á lífsgæðalista Sameinuðu þjóðanna í sumu tilliti að minnsta kosti, svo ágætt sem það er.

En síðasta óvissan — og þá er þetta búið — er auðvitað sú hvort ríkisstjórnin vaknar, hvort Þyrnirós vaknar. Það bendir í sjálfu sér ekkert til þess enn þá. Hún er nákvæmlega jafnfjarlæg og tóm í augunum og hún hefur verið frá byrjun, a.m.k. þegar talið berst að efnahagsmálum. Þess sjást í raun engin merki að menn ætli yfir höfuð að takast á við það viðfangsefni að veita forustu fyrir hagstjórn og samræma efnahagsstjórn í landinu. Það á að heita svo samkvæmt verkaskiptingu innan Stjórnarráðs Íslands að það verkefni sé hjá forsætisráðherra. Það er þannig í okkar stjórnskipun, það er sérstaklega tilgreint og undir hann heyrir auðvitað Seðlabankinn. Það hefur farið lítið fyrir því að hæstv. forsætisráðherra beitti sér á því sviði eins og kannski fleirum. Það má auðvitað segja að menn gera þá ekki mikil mistök á meðan, geri ekkert af sér ef þeir gera ekki neitt. Það er út af fyrir rétt. Einn frændi minn fyrir norðan sagði einu sinni að það væri vont ef hroðvirkir menn væru mjög duglegir því þá gerðu þeir svo mikið illa. Það er nokkuð til í því. Það er auðvitað er betra að ríkisstjórnin geri ekki neitt en að hún geri áfram einhverja vitleysu.

Það er auðvitað óábyrgt að tala svona vegna þess að það er ekki hægt að leysa þetta nema helstu þátttakendurnir gangi í takt og reyni að vinna saman. Það er ekki hægt að hafa það þannig, eins og Ingimundur Sigurpálsson sagði í blaðagreininni sem ég vitnaði til, að Seðlabankinn sigli bara einn hinn úfna sjó, aleinn og óstuddur og enginn reyni að hjálpa honum (Gripið fram í: … að Davíð komi aftur?) í viðleitninni við að kæla niður hagkerfið. Ég ætla þá að láta þessari litlu ræðu minni lokið, virðulegi forseti, og þakka gott hljóð.