135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[23:20]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get svarað hv. þingmanni með því að það hefur engin flokkssamþykkt verið gerð hjá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði um þetta tiltekna mál, enda lít ég á þetta sem tæknilegt atriði sem við, allir þingmenn, þurfum að koma okkur saman um. Að því leyti tala ég fyrir munn menntamálanefndar en þetta er þriðja árið sem nefndin segir það afar skýrt að hún vilji ekki taka þennan kaleik á þeim nótum sem við höfum þurft að gera.

Það nær reyndar miklu lengra aftur. Ég man það núna að hv. fyrrverandi þingmaður Gunnar Birgisson neitaði einu sinni alfarið að taka þessa safnliði inn á borð menntamálanefndar. Ég man líka eftir að hv. fyrrverandi þingmaður Sigríður Anna Þórðardóttir kvartaði mikið undan þessu. Þannig að í öll þau átta ár sem ég hef setið á þingi hefur menntamálanefnd verið sammála um að þetta sé ófært vinnulag.

Um það hins vegar hvort einhverjir embættismenn eigi að úthluta þessu fé þá er það ekki hugmyndin heldur er þetta spurning um jafningjamat, um fagaðila eins og safnaráð þar sem þeir sem mest og best þekkja til viðkomandi geira úthluta. Ég talaði um það kerfi sem komið er á hjá Norðurlöndunum í menningarmálaúthlutun þar. Kulturfonden þekkjum við öll, sjá sjóður gengur mjög vel. Og nýja kerfið Kulturkontakt Nord gengur líka mjög vel.

Við höfum fyrirmyndir um úthlutun á mjög stórum skala þar sem listamenn eru mjög sáttir. Listamenn hins vegar, eða þeir aðilar, þetta eru ekki allt listamenn, sem sækja um hér sækja líka um í sjóðunum og ástæðan fyrir því að við fáum sífellt meira af umsóknum til fjárlaganefndar er auðvitað sú að fólk áttar sig á að hér er djúp og safarík hjáveita að fjármagni. Það sækja líka allir til sjóðanna og fá þar þetta faglega mat, það fer allt í gegn og fólk fær peninga þaðan en það fær þá líka hér. Þetta er því tvöfalt kerfi (Forseti hringir.) og við skulum bara afnema það sem fyrst.