135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[11:05]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins minnast á tvö mál í þessu andsvari. Í fyrsta lagi Vatnajökulsþjóðgarð sem allir þingflokkar voru sammála um að stofnsetja og lög um það voru undirbúin sameiginlega af öllum þingflokkum og löggjöf samþykkt hér samhljóða.

Mér finnst vanta töluvert upp á að fjárveitingar til stofnunar þessa þjóðgarðs séu í samræmi við þær tillögur sem þingflokkarnir komu sér saman um á sínum tíma og ég vil inna hv. þingmann eftir því hvort þess sé ekki að vænta að bætt verði úr í þeim efnum á milli 2. og 3. umr. þannig að fjárveitingin nálgist það að vera í samræmi við þá framkvæmdaáætlun sem menn hafa komið sér saman um varðandi uppbyggingu þessa þjóðgarðs.

Í öðru lagi þá vil ég segja um fjárveitingar til samgöngumála og Sundabrautar að það veldur mér vonbrigðum að verið er að skera niður fjárframlög til samgöngumála um tvo og hálfan milljarð króna á næsta ári. Þó að það heiti tímabundinn niðurskurður þá getur það aldrei orðið annað vegna þess að fjárlög eru jú bara til eins árs. Það verða því að fylgja með upplýsingar um að þessir tveir og hálfi milljarður króna sem á að skera niður á næsta ári komi þá fram síðar en ég hef ekki heyrt nein fyrirheit um það.

Ég tek undir áherslur hv. þingmanns varðandi Sundabraut. Það er mjög nauðsynlegt að greiða fyrir umferðinni norður á bóginn eftir höfuðborgarsvæðinu um Vestur- og Norðurland. Það er verið að setja mikla peninga í samgöngubætur út frá höfuðborgarsvæðinu, annars vegar til Suðurnesja og hins vegar til Suðurlands. Með því er verið að stýra byggðaþróuninni á þau svæði. Það verður auðvitað meiri uppbygging þar sem samgöngurnar eru betri og vilji menn hafa jafnvægi að þessu leytinu til, þá verður (Forseti hringir.) að koma til Sundabrautar fyrr en seinna.