135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:39]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir yfirgripsmikla ræðu. Hann kom þar víða við í þeim fjölbreyttu og mörgu málaflokkum sem fjallað er um í frumvarpi til fjárlaga. Þetta er jú gríðarlega víðfeðmt og mörg atriði sem er alveg ástæða til að rædd séu, eins og hann fór ítarlega í gegnum.

Ég dreg ekki í efa góða meiningu og vilja hv. þingmanns til að gera vel og að Alþingi og ríkisstjórn standi sig vel í þeim efnum. Hins vegar er rétt, eins og hv. þingmaður kom inn á, að enn er lítið farið að sjást af stefnumálum Samfylkingarinnar þó að hún sé búin að vera í hálft ár í ríkisstjórn, inni í fjárlagafrumvarpi og fjárlögum næsta árs. Boðuð eru frumvörp seinna í haust og í vetur í þeim efnum.

Það sem ég vildi hins vegar inna hv. þingmann eftir er staðan á heilbrigðisstofnunum. Jú, alveg rétt, verið er að rétta halla sumra stofnana. Þeim er aftur á móti ekki veitt fjármagn á fjárlögum næsta árs til þess að standa undir raunverulegum rekstri. Tökum sem dæmi Heilsugæsluna í Reykjavík eða Heilbrigðisstofnun Austurlands, af því að talað hefur verið um stórframkvæmdir á Austurlandi. Heilbrigðisstofnun Austurlands hefur verið fjársvelt nú síðustu missirin og árin og að óbreyttu fær hún ekki nýtt fjármagn til að standa undir þeim aukna rekstri sem þar er. Ég nefni sjúkrahúsið á Ísafirði og fleiri sjúkrahús sem ekki fá fjármagn til að standa undir rekstri sínum.

Ég hef skilið hv. þingmann með þeim hætti að hann vilji standa undir (Forseti hringir.) öflugri heilbrigðisþjónustu um allt land, líka á þessum stöðum. Því miður sér þess ekki merki í fjárlagafrumvarpinu.