135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

skerðing örorkulífeyris.

[15:11]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég harma þessi svör. Það er alveg hárrétt sem hér kom fram að aðgerðinni var frestað í fyrra og á mannamáli þýðir það að stjórnvöld hafa haft meira en ár til að ákveða viðbrögð sín. Það er óskaplega seint í rassinn gripið að koma svo til lífeyrissjóðanna rétt áður en skerðingin á að koma til framkvæmda og bjóða þeim 100 millj., 1/3 eða 1/4 af því sem lífeyrissjóðirnir telja að það muni kosta þá að halda úti óbreyttum greiðslum. Úr því að ríkið telur sig geta boðið 100 millj., af hverju getur það þá ekki boðið 300 millj. þannig að ekki þurfi koma til þessarar skerðingar, og af hverju er þeirri endurskoðun á fyrirkomulaginu sem boðað er að sé í gangi ekki hraðað þannig að hið nýja fyrirkomulag taki gildi og ekki verði um þetta sérstaka högg, þetta sérstaka áfall, að ræða gagnvart öryrkjum núna í jólamánuðinum? Ég skora á hæstv. ríkisstjórn að gera betur.