135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[15:35]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2008 kemur nú til atkvæðagreiðslu eftir 2. umr. Meiri hluti fjárlaganefndar hefur lagt fram breytingartillögur. Að mörgum þeirra höfum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði unnið og getum stutt. Við leggjum einnig fram, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, breytingartillögur við frumvarpið sem við teljum nauðsynlegar eins og það liggur fyrir.

Hins vegar eru enn stórir og veigamiklir þættir í fjárlagafrumvarpinu óafgreiddir. Ég nefni þar málefni heilbrigðisstofnana og fleiri flokka á sviði velferðarmála sem eru óafgreidd og bíða þá 3. umr.

Það sem er hins vegar einkennandi nú er að forsendur fjárlagafrumvarpsins eru óvenjuveikar og mikið umrót og óvissa er í efnahagslífi þjóðarinnar. Misskipting í kjörum fólks hefur aldrei verið meiri en við upplifum þessa dagana. Þetta er fyrsta fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks og það boðar óbreytta stefnu fyrri ríkisstjórnar nema að tvennu leyti. Það er í fyrsta lagi stofnun sérstakrar hermálastofnunar sem á að hafa umsjón með æfingum erlendra herja og kosta þá á íslenskri grund og svo í öðru lagi er sá tónn sem sleginn er í markaðsvæðingu og einkavæðingu heilbrigðiskerfisins. Þessum stefnumálum erum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði andvíg og það mun koma fram þegar við greiðum atkvæði.

Hitt sem við gagnrýnum mjög harðlega er að hérna er einnig lögð fram til atkvæðagreiðslu skipting á fjárlagaliði samkvæmt frumvarpi um breytingar á stjórnskipaninni sem ekki er komið til umræðu og atkvæðagreiðslu í þinginu. Ég tel óþinglegt og ekki í samræmi við þingsköp að leggja fram til atkvæðagreiðslu svo viðamikla málaflokka sem ekki hafa komið fram, ekki verið ræddir eða greidd atkvæði um í þinginu. Þetta mun ég láta koma fram við atkvæðagreiðsluna, herra forseti.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs munum styðja eins og ég hef áður greint frá ýmsar breytingartillögur sem við teljum að séu til bóta og höfum átt aðild að að koma fram. Margt má betur fara. Við munum greiða atkvæði gegn þeim tillögum sem við teljum mjög afleitar (Forseti hringir.) og hættulegar en að öðru leyti sitjum við hjá, herra forseti.