135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[17:43]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hérna heyrðu þingmenn og eitthvað af þjóðinni kannski hæstv. fjármálaráðherra gera grein fyrir atkvæði sínu. Hvernig notaði hæstv. ráðherra mínútuna? Í skæting í garð annarra flokka fyrir að þeir væru óábyrgir „eins og venjulega“ eða hvað það nú var í staðinn fyrir að reyna að tala fyrir þessu plaggi, þessu auma plaggi, þessu sýndarmennskufrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem er allt á floti og er í raun og veru óþinglegt vegna þess að hér er lagt til að færa til verkefni í blóra við gildandi lög í landinu, um verkaskiptingu innan Stjórnarráðs Íslands. Frumvarpið eins og það hefur nú verið samþykkt eftir 2. umr. stangast í veigamiklum atriðum á við fjölda sérlaga. Verkefni á sviði utanríkisráðuneytisins eru allt í einu komin til samgönguráðuneytisins í þessu plaggi þó að þau heyri samkvæmt lögum undir utanríkisráðuneytið og þótt því hafi ekki verið breytt.

En það er náttúrlega eins gott að vísa þessu máli til 3. umr. Stórir hlutar þess voru skildir eftir og eru óafgreiddir. (Gripið fram í.) Vonandi er þá hægt að laga eitthvað af þessu. Hæstv. fjármálaráðherra hefði betur átt að biðja um að hann fengi hjálp við að koma viti í þetta frumvarp en hnjóða hér í aðra, starf þeirra (Forseti hringir.) og afstöðu. (Gripið fram í.)