135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

áherslur íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum.

[13:39]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Það sem hér var kynnt af hæstv. umhverfisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra eru metnaðarfull markmið Íslands í þessu samningaferli. Ég ætla að það hljóti að vera góð samstaða um það á hv. Alþingi. Ef árangur á að nást á þessum sviðum eins og allir þekkja gerist það ekki öðruvísi en svo að allir komi að borðinu. Jafnvel öll iðnríkin geta bara náð ákveðnum árangri. Ef menn ætla að ná raunverulegum árangri verða þær þjóðir heims sem standa fyrir mestri losun að koma að þessu borði og ég held að við ættum að nálgast þetta bjartsýn og vonast til þess að svo verði.

Það er líka ánægjulegt fyrir okkur Íslendinga að við höfum margt fram að færa í þessum málum eins og hefur komið fram í umræðunni. Ef þjóðir heims hefðu farið sömu leið og væru að fara sömu leið og við Íslendingar þegar kemur að orkuöflun horfðum við ekki upp á þau vandamál sem við erum að horfa á í heiminum í dag. Það þýðir einfaldlega að sú reynsla og sú þekking sem við Íslendingar búum yfir og höfum flutt út, bæði gefið og selt á undanförnum árum og áratugum, verður sífellt verðmeiri og mikilvægari í þessu tilliti.

Virðulegi forseti. Ég lýsi ánægju minni með þau markmið sem koma fram í því plaggi sem hefur verið kynnt og vonast til þess að um það sé góð samstaða á hv. Alþingi og í þjóðfélaginu.