135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

mannvirki á Straumnesfjalli og Darra.

245. mál
[15:22]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir jákvæðar undirtektir við efni fyrirspurnarinnar. Ég skil svörin þannig að landinu, sem líklega var tekið eignarnámi á sínum tíma undir báðar stöðvarnar, hafi verið skilað aftur til landeigenda. Mér er ekki alveg ljóst hvort í þeim skilum fylgdu með mannvirkin sem höfðu verið reist á landinu og hvort landeigendur höfðu samþykkt að taka við þeim mannvirkjum og teljist eigendur þeirra. En það er hlutur sem þarf þá að skoða nánar.

Engu að síður held ég að sú hugmynd sem hæstv. ráðherra reifar sé sú sem mér líst best á, að menn beiti sér fyrir því í samráði þá við landeigendur og bæjaryfirvöld í Ísafjarðarbæ að varðveita þessi mannvirki að svo miklu leyti sem það er talið skynsamlegt og aðgengilegt vegna þess að um er að ræða merkilegan kafla í sögu þessa landsvæðis og í sögu þjóðarinnar. Ég veit að það hefur töluvert aðdráttarafl fyrir ferðamenn, innlenda sem erlenda, að kynna sér þessi mannvirki og skoða þarna aðstæður. Ég held að það væri góð hugmynd að ýta málinu úr vör og ég treysti því að hæstv. utanríkisráðherra muni leggja sitt af mörkum til að koma málinu í þann farveg sem best má duga í þessum efnum.