135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

atvinnuuppbygging á Austurlandi.

[15:45]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Ál og fiskur eru mjög af því góða, og til þess að tryggja stöðugri atvinnu þar sem álver eru. Ég beini spjótunum að þeim svæðum þar sem við höfum eyðilagt byggðarlög út af fiskveiðistjórnarkerfinu, af því að fáum útvöldum hefur verið afhentur fiskurinn í sjónum og vegna þessa svokallaða kvótakerfis sem við búum við.

Mótvægisaðgerðir hafa ekki skilað sér til fólksins. Fólkið í jaðarbyggðum Austurlands, á Djúpavogi, Breiðdalsvík, Stöðvarfirði, hefur orðið mjög illa úti. Ég tala nú ekki um fyrir norðan, ef við byrjum bara á byggðunum á Seyðisfirði, Vopnafirði, Raufarhöfn, Kópaskeri, Þórshöfn, sem hafa allar farið mjög illa út úr atvinnumálum og þar sem er mikil fólksfækkun. Fólk flýr þessa staði vegna þess að það hefur ekki atvinnu, það er búið að kippa grunninum undan tilveru þess. Þessi byggðarlög voru byggð upp í kringum sjávarútveg, fiskveiðar, og nú er búið að kippa þeim grunni undan þessum stöðum. Þar af leiðandi mun þetta fólk allt eiga undir högg að sækja með að brauðfæða sig og sína.

Þess vegna minni ég enn og aftur á að það þarf að breyta um fiskveiðistjórnarkerfi.