135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

fyrirspurn á dagskrá.

[18:11]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Mér er ákveðinn vandi á höndum þar sem um er að ræða fundarstjórn forseta. Eins og menn þekkja er mjög mikið af fyrirspurnum sem menn leggja fyrir ráðherra og ráðherrar reyna að svara þeim eins hratt og þeir geta og kalla þá eftir upplýsingum eins og hér hefur verið gert. Þar sem ekki var hægt að ná öllum þeim upplýsingum sem óskað var eftir í fyrirspurninni þá var þetta sett á dagskrá með fyrirvara. Það dregur hins vegar ekki úr mikilvægi málsins, það er alls ekki svo. Menn vita að þessi mál eru í ágætis farvegi. Ég hef gert mér far um að kalla eftir hvernig þetta mál stendur og ég veit að stofnunin sem vinnur að því gerir það bæði vel og faglega. Það velkist enginn í vafa um mikilvægi þessa máls. Ég verð að viðurkenna að mér finnst ekki við hæfi hvernig menn leggja þetta mál upp og ég er í nokkrum vanda vegna þess að hér er verið að ræða um fundarstjórn forseta og eðli máls samkvæmt er því ekki hægt að fara efnislega í málið. Ég vil þó ítreka það að gefnu tilefni að það eru allir meðvitaðir um mikilvægi þessa máls og þeir aðilar sem um það fjalla reyna svo sannarlega að vinna að því eins hratt og vel og mögulegt er.