135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

lífríki Hvalfjarðar.

73. mál
[18:54]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra um lífríki Hvalfjarðar:

1. Hefur farið fram nýlega heildarúttekt á lífríki og vistkerfi Hvalfjarðar?

2. Ef svo er, hvernig er rannsóknum og vöktun fylgt eftir og hver heldur utan um það verkefni?

Hvalfjörður er mjög merkilegt jarðfræði- og náttúrulegt fyrirbrigði og Hvalfjarðarsveit hefur sent erindi til Alþingis varðandi rannsóknir og vöktun á lífríki Hvalfjarðar.

Ég leyfi mér vitna, með leyfi forseta, til texta sem Alþingi barst um málið:

„Hinn jökulsorfni Hvalfjörður sem gengur inn úr Faxaflóa milli Akraness og Kjalarness er um 30 km langur fjörður, fjögurra til fimm kílómetra breiður og víðast hvar alldjúpur. Umhverfi hans er fagurt og sérstaða mikil og aðsókn í og við fjörðinn er talsverð, hvort heldur sem tengist frístundum, atvinnuuppbyggingu eða öðru. En það er gömul og ný saga að verulega skortir á grunnrannsóknir á lífríki og umhverfi Hvalfjarðar. Grunnrannsóknir á Íslandi virðast oft gerðar og tengjast fyrirhuguðum framkvæmdum á ákveðnu svæði, t.d. vegna skipulagsvinnu eða vegna mats á umhverfisáhrifum. Vissulega hafa ýmsar sérstæðar og verulega afmarkaðar kannanir verið gerðar á ákveðnum þáttum náttúru og umhverfis í tengslum við iðnaðaruppbyggingu á Grundartanga en hins vegar skortir að mati Hvalfjarðarsveitar heildarrannsóknir á lífríki þessa merka náttúrufyrirbrigðis sem Hvalfjörðurinn er.“

Ég leyfi mér því að varpa fram til hæstv. umhverfisráðherra hvort ekki sé orðið fyllilega tímabært að líta á Hvalfjörðinn sem sérstakt náttúrufyrirbæri og búa honum hliðstæða umgjörð eins og við höfum nú búið Breiðafirðinum? Þar er sérstök Breiðafjarðarnefnd sem fer með rannsóknir á lífríki Breiðafjarðar. Lífríki Hvalfjarðar er sérstakt en það liggur undir miklu álagi hvað varðar nálægð við verksmiðjur sem þar eru. Fylgst er jú að einhverju leyti með áhrifum þeirra í næsta nágrenni verksmiðjanna en á lífríki Hvalfjarðar í heild sinni tel ég að skorti verulega á. Alla vega vil ég spyrja hæstv. umhverfisráðherra ofangreint. Hvalfjörður er sá fjörður sem er undir hvað mestu álagi á landinu vegna utanaðkomandi áhrifa en engu að síður er lífríki hans stórmerkilegt og sumir gera því skóna að það hafi áhrif á lífríki langt út til sjávar út frá Hvalfirði.