135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

aðgerðir til að bæta kjör aldraðra og öryrkja.

[10:42]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Herra forseti. Hér hafa verið kynnt mikilsverð skref í átt til réttarbóta í þágu aldraðra og öryrkja. Það hefur verið gert með marktækum hætti sem ég þakka fyrir og fagna. Hér er um að ræða að tekjutryggingar maka verði afnumdar, frítekjumark hækkað mjög verulega, lífeyrir þeirra lægst settu og verst settu hækkaður og ýmis önnur úrræði eru þar á blaði.

Hæstv. forsætisráðherra hefur látið það koma fram í viðtölum við fjölmiðla, og væntanlega hér áðan líka, að þetta séu fyrstu skrefin og þeim aðgerðum sem snúa að þessum hópum í þjóðfélaginu, öldruðum og öryrkjum, sé hvergi nærri lokið. Það er rétt að margt vantar í þessa áætlun og þessar aðgerðir og þær verða gerðar í áföngum en hér er um að ræða mjög veglega fjárveitingu í þennan málaflokk, hækkun upp á 5 milljarða kr. á ársgrundvelli þegar allt er komið til framkvæmda. Ég lýsi því yfir að stórt, afdrifaríkt og ánægjulegt skref er hér stigið sem ég þakka fyrir og fagna.