135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

95. mál
[15:10]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Það er ekki svo að ég standi hér til að gera athugasemdir við efnisatriði þessa frumvarps. Fyrirvari minn lýtur að því að ég lít svo á að Samkeppniseftirlitinu sé mismunað, að það sitji ekki við sama borð og Fjármálaeftirlitið. Það er einstakt á Íslandi að því leyti að hlutfall milli fjárframlaga til Samkeppniseftirlitsins annars vegar og Fjármálaeftirlitsins hins vegar er 1:3,7 Fjármálaeftirlitinu í hag. Það tel ég með öllu óviðunandi og, herra forseti, það heyrir til algjörra undantekninga. Við erum með algjöra sérstöðu miðað við Norðurlönd. Þar er þetta hlutfall 1:1,7–1:2, en ekki í þessum dúr.

Það kom hjá hv. frummælanda þessa álits, formanni viðskiptanefndar, Ágústi Ólafi Ágústssyni, að hækkunin til Fjármálaeftirlitsins væri 52%, ef ég man rétt. Ég hygg að ég muni töluna rétta, að það sé eitthvað — hv. þingmaður leiðréttir mig þá — en ég hygg að hækkunin milli ára sé eitthvað í kringum 350 milljónir. Fjármálaeftirlitið er að fá tæpan einn milljarð til ráðstöfunar til að gegna mikilvægum hlutverkum. Jú, við hvað? Við útrásina. Það er rétt. Og hvert var stærsta hlutverk Fjármálaeftirlitsins á síðasta ári í þeim efnum? Jú, það var að verja útrásarfyrirtækin fyrir gagnrýni að utan, en þar kom gagnrýni frá greiningarstöðvum og öðrum um að íslensk útrásarfyrirtæki hefðu farið offari. Þar gegndi Fjármálaeftirlitið veigamiklu hlutverki.

Ég hefði viljað sjá Samkeppniseftirlitið sitja við sama borð. Þar er fjárveitingin að nálgast 250, 270 milljónir. Samkeppniseftirlitið gegnir, ef eitthvað er, brýnna hlutverki en Fjármálaeftirlitið. Það er mín staðfasta skoðun. Ég geri mér fulla grein fyrir því, eins og kom fram hjá hv. framsögumanni, að það hafa verið auknar fjárveitingar. En þær duga ekki til. Það er upplýst af Samkeppniseftirlitinu og það kemur líka fram af hálfu Samkeppniseftirlitsins að forsendur frá því að þeir settu fram sínar fjárlagatillögur hafa breyst mjög verulega, Samkeppniseftirlitið hefur farið í nýtt húsnæði og þar fram eftir götunum.

Það liggur líka fyrir, sem er afar brýnt verkefni í okkar þjóðfélagi, þ.e. að Samkeppniseftirlitið geti tekið á fákeppninni í matvöruversluninni, í smásölunni. Það hefur Samkeppniseftirlitið ekki getað gert. Vonandi verða stórauknar fjárveitingar til Fjármálaeftirlitsins til þess að Fjármálaeftirlitið geti tekið með einhverjum hætti á þeim okurvöxtum sem íslenskir neytendur búa við. Maður skyldi ætla það miðað við að fá milljarð tæpan í fjárveitingu.

Ég vonast líka til þess að þessi aukna fjárveiting verði hvatning til Fjármálaeftirlitsins til að taka hraustlega á málefnum sparisjóða, en til Fjármálaeftirlitsins hafa borist ítrekaðar kvartanir yfir málsmeðferð við sameiningu og ásælni auðmanna í sparisjóðina. Það hlutverk hefur Fjármálaeftirlitið vanrækt og miðað við þá vanrækslu á Fjármálaeftirlitið ekki skilið að fá slíka umbun sem felst í þessu frumvarpi.

Þetta vildi ég sagt hafa. Það er gríðarlega mikilvægt að styrkja Samkeppniseftirlitið og það er gríðarlega mikilvægt fyrir neytendur og það er miklu mikilvægara fyrir neytendur og allan almenning þessa lands að Samkeppniseftirlitið sé í stakk búið til að sinna sínum hlutverkum heldur en Fjármálaeftirlitið. Það er mín staðfasta skoðun.