135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[16:27]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Mér finnst ástæða, undir umfjöllun um fjáraukalög, að bregðast við upplýsingum sem fram komu að því er varðar Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar í dag sem gefur tilefni til að inn í fjáraukalögin verði teknar aðfinnslur, athugasemdir eða fyrirvarar. Fram kom hjá hv. þm. Árna Þór Árnasyni að eignirnar hefðu verið seldar á tvöföldu hrakvirði, eins og hann orðaði það ef ég man rétt, það er að þær hafi verið seldar á undirverði, það hafi verið forsenda verkefnisins.

Ég vil benda á í þessu sambandi að eins og fram hefur komið er mjög auðvelt að leigja eignirnar eins og greinilega kom í ljós þegar íbúðir voru auglýstar til leigu nú í haust þannig að það kemur mér á óvart að þeim skyldi vera ráðstafað í sölu með þeim hætti sem gert hefur verið og ég hef gert grein fyrir.

Einnig kom á óvart í orðum hv. þm. Árna Páls Árnasonar að hann skyldi ekki minnast á tengslin sem upplýst hafa verið, hagsmunatengsl og flokkslegu tengsl sem hafa verið upplýst í málinu. Ég minni hv. þingmann á Borgarnesræður formanns hans, hæstv. utanríkisráðherra Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur þar sem hún spurði hvort fólki mislíkaði ekki að gæðum væri úthlutað til flokksfélaga og gæðinga.

Ég vil einnig taka fram, og það er tilefni til athugasemda í fjáraukalögum, að bent var á að ríkisendurskoðandi mundi gera stjórnsýsluúttekt á Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar. Ég hef í þeim efnum umtalsverðar efasemdir og þær stafa af því að ríkisendurskoðandi er endurskoðandi þróunarfélagsins sem er einkahlutafélag. Ef fara á fram heildarúttekt á þróunarfélaginu, sem allir kalla að ég held eftir, er óhjákvæmilegt að ríkisendurskoðanda sé gert að endurskoða endurskoðun Ríkisendurskoðunar. Það sér hver heilvita maður að slíkt gengur ekki upp, að ríkisendurskoðandi endurskoði sjálfan sig. Af þessu hef ég bæði áhyggjur og þungar efasemdir og tel því mun nær að Alþingi skipi sjálfstæða rannsóknarnefnd, ég beini því til fjárlaganefndar. Við í stjórnarandstöðunni munum væntanlega leggja fram slíka tillögu og ég býst þá við því að slík nefnd verði sett á koppinn hið fyrsta, miðað við orð þeirra sem tóku til máls af hálfu Samfylkingarinnar og miðað við ræður þeirra á fyrri árum, sérstaklega ræður hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar sem hefur verið herforingi í krossferðum Samfylkingarinnar gegn spillingu. Alla vega kalla ummæli hv. þm. Árna Páls Árnasonar og fleiri á aðfinnslur og athugasemdir.

Ég minni fjárlaganefnd á þá grundvallarreglu sem gildir um fjárreiður og endurskoðun, það er meginreglan um góða reikningsskilavenju. Ég hef upplýst að átt hafi sér stað kaup á þjónustu, kaup á verkum, kaup á vörum án útboðs, að sami stóri aðilinn hafi setið að þeim verkum án þess að útboð hafi farið fram, fyrir því hef ég traustar heimildir. Það kallar á aðfinnslur í fjáraukalögum, það kallar á athugasemdir og fyrirvara í fjáraukalögum. Ef slíkur fyrirvari er ekki gerður af fjárlaganefnd skrifa þeir upp á að þjónustukaupin, kaup á verkum og kaup á vörum hafi verið í lagi. (Forseti hringir.)

(Forseti (KÓ): Hv. þingmaður. Forseti spyr hvort hv. þingmaður eigi langt eftir af ræðu sinni. Það liggur fyrir að taka á fyrir afbrigði og atkvæðagreiðslur og fær hv. þingmaður að því loknu að halda áfram ræðu sinni ef hann á svolítið eftir. Ég mundi biðja þingmanninn þá að gjöra svo vel að taka hlé á ræðu sinni.)

Það er sjálfsagt.