135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[18:17]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Ásta Möller) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil alveg þessar hugleiðingar en ég var ekki að spyrja um það. Ég var að spyrja hvernig hv. þingmaður læsi frumvarpið. Les hún það úr því að fagleg yfirstjórn á fjármögnun hjúkrunarheimila verði á höndum félagsmálaráðuneytisins eða á höndum heilbrigðisráðuneytisins? Þetta er mjög einföld spurning.

Ég leita staðfestingar á því sem hv. þingmaður vék að, að hún væri eingöngu að vísa til þeirra umsagna sem kæmu frá þessum aðilum sem ég tel að hafi misskilið þetta. Hver er skoðun hennar á því? Er það skoðun hv. þingmanns að yfirstjórn fjármögnunar hjúkrunarheimila verði á höndum félagsmálaráðuneytisins? Eða heilbrigðisráðuneytisins? Þetta er einföld spurning. Ef hún lítur svo á að þetta sé á höndum félagsmálaráðuneytisins, hvernig skilur hún þá 19. gr. frumvarpsins? Þar er breyting á 2. gr. laga um málefni aldraðra þar sem segir um öldrunarmál: „Þau mál sem varða aldraða og eru undir yfirstjórn heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Til þeirra teljast þeir þjónustuþættir sem aldraðir eiga rétt á samkvæmt lögum þessum …“

Hvernig skilur hún þá 20. gr. frumvarpsins þar sem segir, með leyfi forseta:

„Heilbrigðisráðherra fer með yfirstjórn heilbrigðisþjónustu við aldraða.“?

Er þetta ekki bara nokkuð skýrt? Getur ekki hv. þingmaður viðurkennt að þetta hafi verið misskilningur hjá henni? Ég get líka tekið mark á því sem hún sagði að þarna hefði hún eingöngu vísað í umsagnir annarra, þ.e. þeirra sem komu á fund nefndarinnar. Það er allt í lagi en þá þarf það líka að koma fram í nefndarálitinu. Ég er mjög rugluð yfir því. Er þetta álit minni hluta nefndarinnar eða er þetta álit þeirra sem komu á fund nefndarinnar? Hvernig víkur þessu við?