135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

greiðslur til foreldra langveikra og alvarlega fatlaðra barna.

209. mál
[20:50]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur um frumvarpið almennt. Ég er mjög hlynntur þeim lagabreytingum sem boðaðar eru, enda stendur félagsmálanefnd heil og óskipt að þeim breytingum í áliti sínu.

En mig langaði til að taka undir sérstaklega það sem fram kom hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur varðandi skattskyldu greiðslnanna. Ég tel nefnilega að hér sé mikið réttlætismál á ferð og minnist þess þegar hún setti það fram á þinginu á sínum tíma. Hún kom þá inn sem varamaður en fór út af þingi áður en viðbrögð bárust.

Við eigum kost á því áður en fjárlögum er lokað að gera hér bragarbót. Einnig er vert að hafa í huga það sem hv. þingmaður vék að, nefnilega þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar á sínum tíma að undanþiggja fólk skatti sem hefði börn sín heima við. Það var einhver furðulegasta lagasmíð sem ég minnist héðan úr þinginu sem hæstv. þáverandi og núverandi fjármálaráðherra stóð að, því að þar vantaði inn allar skilgreiningar á upphæð greiðslnanna sem um var að ræða.

Við mótmæltum því aðallega sem óvandaðri og vanhugsaðri lagasmíð. Ég kveð mér þó fyrst og fremst hljóðs til þess að taka undir frumvarpið sem félagsmálanefnd stendur nú að og ítreka hugmyndir og óskir hv. þingmanns Álfheiðar Ingadóttur.