135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[10:45]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er um að ræða bráðabirgðaákvæði í lögunum þar sem kveðið er á um að komið skuli á fót eins konar verslunarstofnun eða sölumiðstöð fyrir heilbrigðisþjónustuna í landinu. Menn geta haft mismunandi skoðanir á þessu og greint á um það, en við vekjum athygli á málsmeðferð. Þetta er óútfylltur tékki, uppáskrifaður af Samfylkingunni til handa heilbrigðisráðherra Sjálfstæðisflokksins um að setja á fót stofnun, skipa forstjóra, skipa stjórn — enda þótt stofnunin sé ekki orðin til — og okkur er sagt að með vorinu komi frumvarp um þessa stofnun. Upp á þetta skrifar Samfylkingin.

Við í stjórnarandstöðunni og þá er ég að vísa til Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum óskað eftir því að þetta ákvæði yrði lagt á ís, því yrði frestað. Það hefur ekki verið orðið við því og þetta segir (Forseti hringir.) mér hvernig þessi stjórnarmeirihluti fer með vald sitt. (Gripið fram í: Illa.)