135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:41]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er gott að hv. formaður fjárlaganefndar er svona glaður í lok ræðu sinnar, ég skil svo sem alveg og deili með honum gleðinni yfir að vinnan við fjárlög fyrir næsta ár sé að baki. Við vitum öll að það er mikið álag á fjárlaganefnd frá hausti og þangað til fjárlagavinnunni lýkur sem er á þessum tíma árs.

Þriðja umræðan er eftir og það er svo sem margt sem þarf að skoða. Mig langar til að spyrja hv. þingmann nokkurs í tilefni orða hans um áframhaldandi fjárframlög til safnliða. Þar kemur í ljós að nefndin er enn að bæta í safnliðina. Mig langar til að vita hvort hv. formaður hefur tölu yfir þá safnliði sem enn eru undir menntamálaráðuneytinu en óskiptir. Safnliðirnir sem fjárlaganefndin úthlutar eru upp á rúmlega 1 milljarð kr., 1 milljarð og 12 millj. eða svo. Mig langar til að vita hversu mikið er skilið eftir á safnliðum óskipt fyrir hæstv. menntamálaráðherra til að úthluta.

Síðan langar mig til að gera athugasemd við það sem hv. þingmaður sagði um Þjóðminjasafnið og þau verkefni sem fjárlaganefnd hefur sett undir það. Þarna eru settar 2 millj. kr. sem tímabundið framlag til safnsins vegna umsýslu með þeim verkefnum sem hlotið hafa styrk í gegnum fjárlaganefndina. Það er vel, ég fagna því að Þjóðminjasafnið skuli þó a.m.k. fá smáfjárveitingu í þennan umsýslukostnað. Ég geri engu að síður enn þá athugasemd við það að fjárlaganefndin skyldi ekki hafa farið út í þá vegferð að setja þá fjármuni sem eru veittir til einstakra verkefna á verkefnin beint þar (Forseti hringir.) sem þau eiga miklu betur heima en undir hatti Þjóðminjasafnsins.