135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[14:51]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarni Harðarson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég get upplýst að í öllum meginatriðum hefur hv. þm. Gunnar Svavarsson formaður fjárlaganefndar farið rétt með það sem ég sagði hér fyrr. Ég vil þó aðeins árétta að ég er alls ekki hlynntur því að menn sleppi þeim aðgerðum sem er verið að tala um varðandi almannatryggingarnar, ég á við að menn hinkri við. Ég á við að menn framkvæmi þær þegar lag er til að gera það og ég tel mikið kjarkleysi felast í því þegar þingmenn þora ekki að segja að bíða eigi með vinsæl útgjöld þegar svo augljóst er á stöðu efnahagsmála að þau eru ekki annað en vinsældakosning. Í þessu tilfelli munu þau auka á þenslu og óstöðugleika í samfélaginu og valda þeim sem verst standa í samfélaginu, láglaunahópunum og öryrkjum sem ekkert hafa, eiga engan ríkan maka til að leita til og engar aukatekjur til að grípa til, mikilli bölvun. Vissulega munu þau hjálpa í ákveðnu mannréttindamáli sem er sjálfstæði okkar innan tryggingakerfisins, eða eins hv. þm. Pétur Blöndal talar um, ná kratismanum af félagskerfinu, og ég hefði gjarnan viljað fá meiri umræðu frá hv. formanni fjárlaganefndar um hvort hann skilji það eins.

Varðandi vegamálin tel ég einsýnt, og hef reyndar heimildir fyrir því að ef menn gerðu athugun á því hvað af vegaframkvæmdunum er raunhæft að verði farið í á næsta ári er talan í raun og veru miklu lægri. Mjög mörg af verkefnunum eru ekki komin nógu langt í skipulagsferli og umhverfismatsferli og öðru slíku til þess að nokkrar líkur séu á að þær verði framkvæmdar. Þess vegna tel ég að ríkisstjórnin og þingmeirihlutinn slái keilur hagkerfinu til bölvunar til þess eins að geta hreykt sér af öllum fyrirætlununum.