135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

staða þjóðkirkju, kristni og kristnifræðslu.

[15:30]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti.

Trúðu á tvennt í heimi,

tign sem æðsta ber,

guð í alheims geimi,

guð í sjálfum þér.

Síðustu daga hefur farið fram barátta um grundvallaratriði íslensks samfélags, kristilega fræðslu í skólum landsins. Í 2. gr. núverandi laga, nr. 66/1995, um grunnskóla, stendur, með leyfi forseta:

„Hlutverk grunnskólans, í samvinnu við heimilin, er að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Starfshættir skólans skulu því mótast af umburðarlyndi, kristilegu siðgæði og lýðræðislegu samstarfi. Skólinn skal temja nemendum víðsýni og efla skilning þeirra á kjörum fólks og umhverfi, á íslensku þjóðfélagi, sögu þess og sérkennum og á skyldum einstaklingsins við samfélagið.“

Svo mörg eru þau orð. Í nýju frumvarpi hæstv. menntamálaráðherra er hins vegar búið að fella á brott þessi mikilvægu orð um að skólastarf mótist af kristilegu siðgæði.

Nú er það svo að kristin trú hefur verið samferða íslensku þjóðinni í yfir þúsund ár og er samofin menningu hennar og sögu eins og svo víða má sjá merki um. Þjóðsöngurinn okkar kæri, sálmur þjóðskáldsins Matthíasar Jochumssonar, hefst á orðunum: „Ó guð vors lands, ó lands vors guð“. Þjóðfáninn fallegi sem við höfum tryggt verðugan sess í þingsal Alþingis er einnig með hina kristilegu skírskotun með tákni krossins og kristninnar. Á guð að fara út úr þjóðsöngnum? Má hinn helgi kross ekki áfram prýða þjóðfánann? Þessa óþarfa umræðu ber að kveða niður strax. Hin evangeliska lúterska kirkja er einnig þjóðkirkja okkar þó að sjálfsögðu ríki trúfrelsi í landinu, trúfrelsi sem við eigum að standa vörð um. Um og yfir 80% landsmanna tilheyra þjóðkirkjunni, 95% landsmanna eru í þjóðkirkjunni eða kristnum söfnuði.

Langflest okkar eru alin upp í kristnu siðferði og með kristin gildi að leiðarljósi. Við lásum kristinfræði í uppvexti, við eigum flest ljúfar minningar um slíka kennslu úr skólanum sem við gengum í og voru þessi fræði kærkomið tækifæri til að ræða mikilvægustu spurningar lífsins, ekki bara við kennara heldur við afa og ömmu, pabba og mömmu og síðan börnin okkar. Hver sá sem eignast bænina sem barn að aldri hefur eignast mikið afl. Bænin flytur fjöll, bænin róar hugann og gefur manninum styrk í gleði og sorg. Jafnvel hinn trúlitli grípur til bænarinnar á neyðarstundu.

Íslenskt samfélag er reist á kristnum gildum og er órjúfanlegur hluti alls okkar andlega og menningarlega umhverfis. Allir kannast við frásögn Biblíunnar þegar Kristur velti borðum víxlaranna og rak þá út úr helgidóminum. Nú skal kennsluborðum kristninnar velt og hún gerð brottræk úr helgidómi íslenskra menntastofnana að undirlagi hæstv. menntamálaráðherra og ríkisstjórnarmeirihlutans í landinu og heggur nú sá er hlífa skyldi.

Ráðuneyti menntamála hefur einnig sent frá sér tilmæli til skólastjórnenda sem kveða á um frekari úthýsingu kristninnar úr skólastarfinu. Í tilmælunum segir, með leyfi forseta:

„Menntamálaráðuneytið lítur svo á að fermingarfræðsla eigi að fara fram utan lögbundins skólatíma nemenda og ekki sé heimilt að veita nemendum í 8. bekk leyfi til að fara í eins til tveggja daga ferð á vegum kirkjunnar í tengslum við fermingarundirbúning. Slíkt samræmist ekki grunnskólalögum eða aðalnámskrá.“

Þetta eru alvarleg tíðindi. Kirkjan virðist ekki eiga marga talsmenn í þessu máli á opinberum vettvangi og er það undarlegt. Undarlegast af öllu er hin himinhrópandi þögn kirkjumálaráðherrans, Björns Bjarnasonar. Hvar er hæstv. kirkjumálaráðherra, Björn Bjarnason, þegar sótt er að sjálfri þjóðkirkjunni og kristni í landinu? Hann er þar óumdeilanlegur gæslumaður og varnarmálaráðherra og hefur verið trúað fyrir miklu. Hvar er varðmaðurinn vaski? Hvar er varnarlið kirkju og kristni í landinu í þessari mikilvægu orrustu? Er ráðherra kirkjumála uppgefinn og vill hann þess vegna leggja kirkjumálaráðuneytið niður?

Ég hef lagt fyrir hæstv. ráðherra þrjár spurningar í þessum dúr sem ég vona að hann svari hér á eftir. Afstaða okkar framsóknarmanna er sú að kristnin eigi að njóta vafans og að varlega skuli stigið til jarðar í þessu máli. Meðan ekki er búið að leita þess víðtæka samráðs sem þarf að eiga sér stað í þessu máli er heppilegast að ákvæði núverandi grunnskólalaga, um að skólastarf mótist af kristilegu siðgæði, (Forseti hringir.) haldist óbreytt. Ég vænti stuðnings hæstv. kirkjumálaráðherra við þau sjónarmið.