135. löggjafarþing — 42. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[02:37]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni málefnalega og góða umræðu hér. Fyrst vil ég taka til þar sem hann vitnaði í andsvar mitt við hv. þm. Bjarna Harðarson að stjórnarmeirihlutinn væri sterkur og ynni ágætlega saman. Þá held ég að hv. þm. Ögmundur Jónasson hafi orðað það þannig að hann gengi yfir minni hlutann, leyfði sér það í ljósi sterkrar stöðu. Ég mótmæli því og vitna til góðrar vinnu og góðs samstarfs innan fjárlaganefndar sem sýnir, eins og ég veit að það hefur gert í fleiri nefndum, að meiri og minni hluti geta unnið mjög farsællega saman að góðum og gildum framfaramálum.

Varðandi þá umræðu sem hv. þingmaður vakti hér um heilbrigðismálin vil ég fyrst til taka að vissulega tekur fjárlaganefnd eftir þeirri umræðu sem er vegna þessara stofnana og hefur af því þær áhyggjur að þetta ástand er orðið nánast fastur póstur í pólitískri umræðu á Íslandi á þessum tíma undangenginn áratug. Alltaf sama vandamálið, alltaf sömu úrlausnirnar og alltaf kallað á sömu lausnir, þ.e. að setja meira fé inn í kerfið sem fyrir er.

Við erum þeirrar skoðunar í fjárlaganefnd, meiri hlutinn, að við höfum sett þarna inn fjármuni til að setja niður þær heimildir sem heilbrigðiskerfið hefði úr að spila út frá þessum stofnunum fyrir árið 2008 og ætlumst til að við þær verði staðið. Við gerum okkur þar með ljóst að til þess að það verði unnt verður að breyta um verklag frá því sem áður hefur verið hvernig svo sem það verður gert og hvernig svo sem sú niðurstaða verður. Ég bendi á að heilbrigðisráðherra hefur sett í gang vinnu undir forustu ákveðins einstaklings sem hér var nefndur áðan og við bíðum spennt eftir (Gripið fram í.) að sjá afrakstur þeirrar vinnu sem hér var nefnd. Hv. þingmaður spurði hver það væri, hann nefndi hann sjálfur fyrr í ræðunni.