135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[11:46]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það veldur mér vonbrigðum að þessi tillaga um hækkun á fjárframlagi til Listasafns Íslands skyldi ekki ná í gegn. Við sem flytjum þessa tillögu lögðum talsvert mikið á okkur til að reyna að sannfæra þingheim um að taka yrði almennilega á í málefnum Listasafns Íslands.

Menntamálanefnd mælti með því í áliti sínu til fjárlaganefndar að það yrði gert. Menntamálanefnd fór í heimsókn í Listasafn Íslands og hét stjórnendum safnsins stuðningi í þessari baráttunni við að reyna að fá aukið fjárframlag. Menntamálanefnd stendur heil á bak við að vilja aukið fjárframlag. Mér er óskiljanlegt hvers vegna fjárlaganefnd varð ekki við þeirri beiðni menntamálanefndar.

Ég segi já við þessari tillögu og lýsi um leið yfir depurð minni yfir því að ekki skuli a.m.k. allir menntamálanefndarmenn gera það líka.