135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:28]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er lögð fram tillaga um 400 millj. kr. framlag til heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þetta þyrfti að vera meira en þetta er tilraun til að ná einhverju fram. Þegar hafa komið fram tillögur frá forsvarsmönnum heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu um niðurskurð um 550 millj. kr. til að rétta af skuldahallann. Tillögurnar ganga m.a. út á það að skerða heimahjúkrun um 20%, loka Miðstöð heilsuverndar barna, Miðstöð mæðraverndar og Miðstöð sóttvarna og skólaheilsugæslu. Þetta er það sem Framsóknarflokkurinn kallar þensluhvetjandi aðgerðir væntanlega að reyna að halda þessu við. Ég verð að segja að mér blöskrar þetta, hæstv. forseti, þessi undarlega afstaða. (Gripið fram í.) En ég skal segja eitt í því sambandi og það er að þessir peningar verða greiddir. Á fjárlögum (Forseti hringir.) er ekki gert ráð fyrir því að draga úr framlagi til sérfræðiþjónustu og sú þjónusta sem verið er að færa út úr almannakerfinu (Forseti hringir.) mun leita á einkamarkaðinn. Til þess er leikurinn gerður, að (Forseti hringir.) þröngva heilbrigðiskerfinu út í einkarekstur.