135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[17:15]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Ég deili skoðunum að mörgu leyti, hæstv. forseti, með hv. þm. Grétari Mar Jónssyni. Ég er á þeirri skoðun að kvótakerfið hafi ekki haft góð áhrif á byggðir landsins, en það skall ekkert á í sumar. Við erum búin að horfa á kvótakerfið í fjöldamörg ár, þetta hefur verið ákveðin þróun niður á við í byggðunum. Auðvitað eru margir aðrir þættir sem hafa áhrif á byggðirnar, það er ekki einungis sjávarútvegurinn, það er margt annað, mörg félagsleg atriði eins og skólamál og samgöngumál og margt fleira sem hefur gert það að verkum að fólk hefur flust úr dreifbýlinu í þéttbýlið.

Varðandi orð hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar um það að Samfylkingin ætli að ganga út úr þeirri hugmynd að hafa veiðileyfagjald er það algjör misskilningur, það hefur aldrei verið í umræðunni. Það að við göngumst inn á það að lækka þessi gjöld er eingöngu vegna niðurskurðarins á þorskveiðiheimildunum. Þess vegna lagði ég líka hitt til með bolfisksútgerðina en niðurstaðan varð þetta samkomulag. Og við það stendur maður náttúrlega.

Maður fær ekki alltaf allt sem maður vill og það er eins í samstarfi milli flokka þegar ríkisstjórnir eru myndaðar. Ef frjálslyndir hefðu tekið þátt í myndun ríkisstjórnar er algjörlega ljóst að þeir hefðu aldrei fengið allt sitt í gegn með öll sín stefnumál og allt sem þá dreymir um að komi til framkvæmda. Það er bara svoleiðis í lýðræðissamfélagi. (JBjarn: Maður … stefna …)