135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[17:59]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Frumvarp um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, sem hefur verið til umræðu í dag, lýtur fyrst og fremst að svokölluðu veiðigjaldi á aflaheimildir sem er jú hluti af því heildarfiskveiðistjórnarkerfi sem við höfum búið við á undanförnum árum með jafnhrapallegum árangri sem raun ber vitni.

Vegna orða sem viðhöfð voru fyrr í umræðunni, einkum orða hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar, um stefnu og tillögur í sjávarútvegsmálum, fannst mér ég knúinn til að gera örstutta grein fyrir því. Það var reyndar mjög merkilegt að heyra þessi orð frá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni sem var í flokki sem studdi ríkisstjórn fyrir nokkrum árum og beitti sér fyrir afnámi dagabátanna á sínum tíma, að setja dagabátana í aflaheimildir. Hann studdi þá ríkisstjórn og ætti að vera minnugur aðkomu sinnar að málum þar.

Stefna okkar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er skýr hvað varðar sjávarútvegsmálin og við höfum lagt fram frumvarp, eins konar svona sáttafrumvarp, um endurskoðun á öllu fiskveiðistjórnarkerfinu á þskj. 157, 147. mál, sem enn hefur ekki fengist rætt á þinginu. Flutningsmenn eru Björn Valur Gíslason, varaþingmaður og sat á þingi fyrr í haust, sá sem hér stendur og hv. þm. Atli Gíslason. Þar er lagt til að í gildistíma fiskveiðistjórnarlaganna verði sett sólarlagsákvæði til 1. september 2010, enda taki þá gildi ný heildarlög um stjórn fiskveiða.

Eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson kom inn á í ræðu sinni hefur það sýnt sig, m.a. í skoðanakönnun meðal þjóðarinnar, að yfirgnæfandi meiri hluti þeirra sem hafa tekið þátt í Gallup-könnun er andvígur núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Telur það bæði óréttlátt og óskilvirkt og er sammála þeirri stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að það hafi í sjálfu sér brugðist öllum sínum markmiðum. Það er því alveg hárrétt sem hv. þingmaður kom þar inn á. Síðan hefur verið rakið ítarlega hér í ræðu hvaða áhrif fiskveiðistjórnarkerfið, þetta rangláta kvótakerfi, hefur haft á byggð og búsetu og atvinnulíf í landinu.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði lögðum fram skýra stefnu í sjávarútvegsmálum fyrir fimm árum og hún er í megindráttum óbreytt og stendur enn. Þar leggjum við áherslu á að hluti af fiskveiðiheimildunum, hluti af réttinum til að veiða, sé bundinn við byggðirnar, bundinn við viðkomandi byggðir. Það er jú ekki bara útgerðarmaðurinn sem hefur gert fiskveiðiauðlindina svo verðmæta, það eru líka sjómenn, landverkafólk, byggðirnar. Allir eiga þar hlut að máli. Við leggjum því áherslu á að hluti af þessum rétti sé bundinn við byggðirnar og skapi traustan grunn fyrir atvinnulífið og búsetuna, hluti sé síðan bundinn útgerðinni og hluti gæti þá verið á frjálsum markaði. Við leggjum líka áherslu á að flotanum sé skipt upp og að grunnslóðin sé varin fyrir aflmiklum togbátum. Við leggjum einnig áherslu á að markmiðið sé vistvænar veiðar.

Ég hef miklar áhyggjur af því sem er að gerast þegar öflugir togbátar eru farnir að skarka upp í landsteina eins og gerist nú víða um land. Og þegar er kominn þrýstingur á það að stóru togararnir fái heimild til að fara aftur inn fyrir 12 mílur. (Gripið fram í: Þið studduð það frumvarp.) Að þeir fari inn fyrir 12 mílur? Ég tel að við höfum lagt höfuðkapp á, og það var hluti af baráttunni fyrir stækkun landhelginnar, að flytja togarana út fyrir 12 mílurnar. Ég held að það hafi verið gert vegna fiskverndarsjónarmiða og við vildum líka að íbúarnir hefðu forgangsrétt að þeim auðlindum.

Við leggjum á það áherslu, til þess að halda því rækilega til haga í umræðunni, að við höfum lagt fram þingmál um að fiskveiðistjórnarkerfið verði endurskoðað og eins og segir hér, með leyfi forseta:

„Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo: Sjávarútvegsráðherra skal þegar við gildistöku laga þessara skipa nefnd sem vinna á að mótun heildarstefnu í sjávarútvegsmálum sem komi í stað núverandi laga um stjórn fiskveiða. Markmið nýrra laga um stjórn fiskveiða skulu vera að nytjastofnar á Íslandsmiðum verði óvefengjanleg sameign íslensku þjóðarinnar og að þau tryggi verndun, sjálfbærni og hagkvæma nýtingu sjávarauðlinda og lífríkis sjávar, sem og trausta atvinnu og byggð í landinu öllu.“

Síðan er það rakið hvernig við leggjum til að sú vinna sé unnin og farið af stað. Með frumvarpinu fylgir mjög ítarleg greinargerð en þar er vakin athygli á því að markmið núverandi fiskveiðistjórnarlaga eru í fyrsta lagi að vernda fiskstofna. Hefur það tekist? Nei. Að stuðla að hagkvæmri nýtingu þeirra? Hefur það tekist? Nei. Að treysta atvinnu í byggðum landsins? Hefur það tekist? Nei, síður en svo. Að efla byggð í landinu, úti um hinar dreifðu byggðir. Hefur það tekist? Nei, síður en svo.

Allir þessir fjórir meginþættir sem núgildandi fiskveiðistjórnarlög byggjast á hafa brugðist. Og það gengur ekki að ætla að skella skollaeyrum við því og ætla að halda áfram á sömu braut og Sjálfstæðisflokkur og Samfylking virðist ætla að gera. Þorskveiðiheimildir eru skornar niður án annarra aðgerða sem tryggja vöxt og viðgang stofnanna að nýju. Eingöngu eru settar fram niðurskurðartillögur sem margir segja að snúist upp í andhverfu sína, þ.e. að meira verði um brottkast, meira verði um þrýsting á að veiða smáan fisk og meiri þrýstingur verði á að opna hólf sem áður voru friðuð. Allur þessi þrýstingur aukist þannig að aðgerðir ríkisstjórnarinnar snúist í andhverfu sína og verði andfiskverndaraðgerðir.

Mikilvægustu atriðin við mótun nýrrar stefnu í sjávarútvegi eru, samkvæmt tillögum okkar m.a. að:

Auðlindir sjávar verði raunveruleg sameign þjóðarinnar og einstökum byggðarlögum sé tryggður réttlátur skerfur veiðiheimilda og viðunandi öryggi.

Sjávarútvegurinn lagi sig að markmiðum sjálfbærrar þróunar og vinni markvisst að því að bæta umgengni um náttúruna og lífríkið, þ.e. einstaka nytjastofna, vistkerfi hafsbotnsins og hafsbotninn sjálfan.

Sjávarútvegsstefnan treysti byggð og efli atvinnu í landinu öllu ásamt því að stuðla að aukinni fullvinnslu framleiðslunnar og þar með aukinni verðmætasköpun og hámarksafrakstri auðlindanna innan lands.

Við erum að tala um hvernig við viljum bæði vernda og nýta auðlindina sem best.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum flutt tillögu um það hér á Alþingi að kannað verði hvernig stöðva megi eða draga úr þeim mikla útflutningi sem á sér stað á óunnum gámafiski á markaði erlendis. Yfir 50 þús. tonn hafa verið flutt út óunnin á markaði erlendis án þess að íslenskur fiskmarkaður hafi getað boðið í þann fisk. Ég tel að ein brýnasta aðgerðin til þess að stuðla að aukinni atvinnu í fiskvinnslu landsmanna sé að koma því þannig fyrir að fiskvinnslurnar eigi að minnsta kosti rétt og möguleika á því að bjóða í þennan fisk á jafnréttisgrunni áður en hann fer úr landi. Ég skil ekki hvers vegna ekki er tekið á þessu máli. Við höfum flutt þessa tillögu í tvígang. Fyrir um ári var skipuð nefnd og enn hafa ekki komið tillögur en aftur á móti eru lögð fram lagafrumvörp sem styrkja þetta ástand. Eins og það að fella niður svokallaðar kvótaaðlaganir frá og með 1. september sem gerir það eitt að auðvelda aðilum að flytja fisk út í gámum.

Er sanngjarnt að sömu aðilar, sem flytja fisk óunninn í gámum út án þess að íslensk fiskvinnsla geti komist að því að bjóða í það, eigi rétt á fjármagni til þess að halda starfsfólki á launaskrá þegar ekkert hráefni er til að vinna af því að þeir hafa flutt það út?

(Forseti (RR): Hv. þingmaður. Forseti spyr hvort hv. þm. Jón Bjarnason eigi mikið eftir af ræðutíma sínum þar sem liðinn er sá tími sem frestur var gefinn til að ræða …)

Já, þrjár mínútur.

(Forseti (RR): Þá klárar þingmaður ræðu sína.)

Frú forseti. Ég vil halda því rækilega til haga að við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum ítrekað lagt fram mjög ákveðnar tillögur um það hvernig styrkja megi, bæta og efla sjávarútveginn, byggðirnar í landinu, það fólk sem vinnur við íslenskan sjávarútveg, um borð í skipum, í fiskvinnslu í landi. Ég vil að lokum, frú forseti, vitna í ágæta grein í Norðurstjörnunni, blaði Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Norðausturkjördæmi. Björn Valur Gíslason, sem ég hef áður nefnt, skrifar mjög góða grein um hvernig sjómenn græða hafið. Hvernig á að byggja traust samband á milli sjómanna, rannsóknarmanna og annarra sem tengjast nýtingu hafsins í samtökum, Sjómenn græða hafið væri þá hliðstætt verkefninu Bændur græða landið sem við höfum góða reynslu af.

Þetta skulu þá verða lokaorð mín í þessari ræðu, frú forseti. En við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt fram mjög ítarlegar og framsýnar tillögur í sjávarútvegsmálum sem lúta að öllum þessum þáttum, að fiskvernd og uppbyggingu fiskstofna, að eflingu byggðar í landinu, að eflingu fiskvinnslu. Við undirstrikum að það er mjög mikilvægt að breyta um stefnu og taka upp þá stefnu og þau vinnubrögð sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði viljum hafa.