135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[18:23]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að fara að krefja hv. þingmann um sundurgreinda stefnu Frjálslynda flokksins í sjávarútvegsmálum enda held ég að það mundi taka nokkuð langan dag að fá hana fram með þeim hætti að einhver skildi hvað þar væri á ferðinni þrátt fyrir góðar meiningar hjá hv. þingmönnum á þeim sviðum, sem ég dreg ekki í efa. Ég dreg ekki í efa góðar meiningar hjá hv. þingmönnum í sjávarútvegsmálum og umhyggju þeirra fyrir byggðum landsins sem eru þar sammála okkur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði.

Hins vegar verður spurt með hvaða raunhæfa hætti maður skoðar málin í heild. Þess vegna höfum við lagt hér til — og það má vel vera að eitthvað gott hafi verið tekið frá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni sem er lengi búinn að starfa að þessum málum. Hann studdi m.a. þann flokk sem afnam dagabátakerfið í síðustu ríkisstjórn sem ég held að hafi einmitt verið virkilega alvarlegt högg á byggðirnar í landinu, byggðirnar á Vestfjörðum, að afnema dagabátakerfið sem hafði verið byggt upp til hliðar við kvótakerfið til að gefa þessum litlu byggðum möguleika til að þróa sjávarútveg upp á nýtt.

Ég held að það sé alveg ljóst, frú forseti, að hin ábyrga afstaða sé sú að stjórn fiskveiða verði tekin til heildarendurskoðunar. Ef þar er margt tekið upp úr fyrri hugmyndum hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar vona ég að þær verði kannski bara óbreyttar áfram, hugmyndir hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar, og hann geti þá stutt okkur þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs til að ganga þá leið sem við leggjum hér til.