135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[20:31]
Hlusta

Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er mjög mikilvægt að skýrt komi fram við umræðuna að þótt gert sé ráð fyrir ákveðinni meginreglu um ræðutíma í frumvarpinu í 2. og 3. umr., eru heimilar undantekningar. Eins og lögð er áhersla á í áliti meiri hluta allsherjarnefndar er auðvitað gert ráð fyrir að í stærri og veigameiri málum verði slíkar undantekningar gerðar og hægt verði hægt að taka ákvörðun um annan ræðutíma en þar er.

Ástæðan fyrir því að ég hef haft efasemdir um að raunverulegan vilja væri að finna hjá vinstri grænum til að semja um ræðutímann byggir auðvitað á því að þessar hugmyndir hafa lengi verið á sveimi. Það var ekki fyrr en í fyrradag að ég sá hugmyndir frá vinstri grænum um að einhverjar slíkar takmarkanir komi til greina.

Fram að því hefur öll umræða gengið út á að takmarkanir á ræðutíma væru algjörlega ófærar vegna þess að þar með væri verið að taka málfrelsið af þingmönnum. (AtlG: Þetta er rangt ...)