135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[21:17]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið þótt ég geti ekki að öllu leyti tekið undir það sem góða röksemd. Ég tel að hér séu engar tryggingar fyrir hendi hvað þetta atriði snertir.

Annað sem ég vildi spyrja hv. þingmann um í framhaldi af ræðu hennar tengist því að ég varð ekki var við að hún hefði vikið mikið að breytingartillögunum sem hér fengust lagðar fram fyrir náð og miskunn þingskapameirihlutans sem veitti góðfúslega afbrigði til þess að breytingartillögur þingmanna Vinstri grænna gætu komið fram. Ég heyrði að þetta með ræðutímann var Framsóknarflokknum sérstaklega mikilvægt en ef við horfum burt frá ágreiningi um ræðutíma spyr ég þingmanninn: Er eitthvað annað í breytingartillögum Vinstri grænna sem þingmanninum hugnast hugsanlega og hún getur verið sammála?