135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

ráðstöfun á söluandvirði Landssímans hf.

304. mál
[14:15]
Hlusta

Frsm. minni hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 453 um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 133/2005, um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf., frá minni hluta efnahags- og skattanefndar.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Pál Þórhallsson frá forsætisráðuneytinu.

Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á tímasetningum í tengslum við ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf. Við umfjöllun nefndarinnar var frumvarpið rætt og höfð hliðsjón af fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár.

Minni hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Gunnar Svavarsson, Lúðvík Bergvinsson og Katrín Jakobsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Pétur H. Blöndal, Ellert B. Schram, Bjarni Benediktsson og Birgir Ármannsson.

Frú forseti. Mig langar að bæta nokkrum orðum við frá eigin brjósti. Þannig er að lögin hafa alla eiginleika fjárlagafrumvarps. Í þeim stendur t.d. að fé til framkvæmda í vegamálum skiptist svo:

„a. Sundabraut 8.000 millj. kr.

Verja skal til þessa verkefnis 100 millj. kr. árið 2007, 3.900 millj. kr. árið 2008, 2.000 millj. kr. árið 2009 og 2.000 millj. kr. árið 2010.

Þetta eru fjárlög, þetta er eiginleiki fjárlaga, það er verið að ráðstafa peningum úr ríkissjóði.

Í 41. gr. stjórnarskrárinnar segir:

„Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.“

Þessi lög eru greinilega ekki gild samkvæmt stjórnarskránni því að þetta eru ekki fjárlög. Ég hef bent á það áður að svona lagasetning fær ekki staðist. Þar sem verið er að ráðstafa peningum úr ríkissjóði í öðrum lögum en fjárlögum eða fjáraukalögum fær ekki staðist stjórnarskrána. Ég vildi koma þessu að.