135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

vátryggingarsamningar.

163. mál
[15:46]
Hlusta

Frsm. meiri hluta viðskn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ef þetta er frjálshyggjuleiðin þá átta ég mig ekki alveg á henni, mér finnst hv. þingmaður enn taka undir sjónarmið sem fara hvort í sína áttina. Aðra stundina talar hann um að hann vilji skriflegt samþykki og hina stundina talar hann um að ekki eigi að vera neitt samþykki vegna þess að það torveldi töku tryggingarinnar.

Hann vísaði í grein í frumvarpinu sem lýtur að því að verið er að tala um tvenns konar upplýsingar. Ef vátryggingafélag aflar upplýsinga hjá öðrum en vátryggingartaka, t.d. hjá lækni, þarf upplýst samþykki, það er óbreytt frá lögum. Einnig er um að ræða upplýsingaöflun hjá vátryggingafélagi sem lýtur að vátryggingartaka. Að sjálfsögðu er það ekki einkamál vátryggingartaka og félagsins að vátryggingartaki afhendi félaginu heilsufarsupplýsingar um ættingja, ættingjarnir eiga auðvitað hagsmuna að gæta þar. Það skiptir ættingja máli að viðkvæmar heilsufarsupplýsingar séu ekki bornar á torg tryggingafélaga. Þess vegna takmörkum við heimild tryggingafélaganna með því að krefjast þess að viðkomandi tryggingartaki fái a.m.k. einfalt samþykki hjá ættingjum sínum fyrir því að afhenda slíkar upplýsingar.