135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

álit mannréttindanefndar SÞ um kvótakerfið.

[13:50]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Álitið sem hv. þingmaður nefnir er athyglisvert. Það er hins vegar ekki bindandi fyrir Íslendinga að þjóðarétti og veitir í sjálfu sér engar vísbendingar um hvernig viðkomandi nefnd ætlast til að við sé brugðist og rökstuðningurinn með álitinu er fátæklegur.

Hins vegar munum við að sjálfsögðu fara nákvæmlega yfir þetta mál. Til þess höfum við 180 daga, áður en svara ber viðkomandi nefnd um hvernig ríkisstjórnin hyggist bregðast við. Ég vil jafnframt benda á að í stjórnarsáttmálanum er ákvæði um að hugmyndin sé að fara yfir fiskveiðistjórnarkerfið með tilteknum hætti og ugglaust má tengja þeirri yfirferð, sem ætlunin er að fara í, það sem gera þarf í framhaldi af þessu áliti viðkomandi nefndar á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Þannig stendur þetta mál. Lengra er það ekki komið í augnablikinu en ég tel hins vegar ekki, ég vil taka það fram, að þetta álit gefi sérstakt tilefni til lagabreytinga á Íslandi enda stendur í álitinu að það sé fullkomlega eðlilegt og lögmætt markmið með fiskveiðistjórnarkerfinu á Íslandi, að verja og vernda fiskstofnana í landinu og tryggja skynsamlega og hagfellda nýtingu á þeim með hagsmuni þjóðarinnar fyrir augum sem, eins og hv. þingmaður benti á, fer með fullveldisréttinn yfir þessum auðlindum.