135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

Hitaveita Suðurnesja.

[14:10]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ráðherrann er bærilega sáttur, bæði við sjálfan sig og líka við ríkisstjórnina. Ég veit að okkur hv. þingmann kann að greina á um afstöðu til beggja þessara viðfangsefna sem ég nefndi.

Ég hef sagt það í þessum ræðustóli, ekkert verið að segja það úti í bæ, að ég hafi fullan hug á að leggja fram frumvarp sem tryggi að orkuauðlindir í félagslegri eigu verði það áfram. Það er meginefnið í því frumvarpi sem ég hef hér, að ósk þingmanna Vinstri grænna, einu sinni reifað í ræðustóli Alþingis.

Frá því er skemmst að segja að ríkisstjórnin hefur samþykkt frumvarp sem er til meðferðar í þingflokkum þar sem þessu prinsippi er haldið til haga. Það er enginn ágreiningur um það. Reyndar hefur það komið fram mörgum sinnum af hálfu hæstv. forsætisráðherra, tvisvar í ræðustóli Alþingis og reyndar í viðtali við Viðskiptablaðið, að hann sé sömu skoðunar. Hann hefur bara sagt að orkulindirnar séu ekki andlag einkavæðingar. Þetta var fyrsta vers.

Annað vers er stjórnarskráin. (ÖJ: En frumlagið?) Ég verð að fara eftir stjórnarskránni. Það liggur alveg ljóst fyrir, eftir yfirferð í ráðuneytinu og það liggur fyrir formlegt álit frá formanni sérfræðinganefndar stjórnarskrárnefndar, Eiríki Tómassyni, prófessor í stjórnskipunarrétti, að það færi í bága við stjórnarskrána að þetta ákvæði frumvarpsins mundi ná yfir blönduð fyrirtæki. Ég lyfti því miður ekki himni og jörðu og ég bylti ekki stjórnarskránni. Við verðum að virða hana. Þannig að svo er. Þessi þáttur frumvarpsins mun því ekki ná yfir Hitaveitu Suðurnesja. Hins vegar munu aðrir þættir þess ná yfir Hitaveitu Suðurnesja, aðskilnaðurinn sem hv. þingmaður nefndi áðan og þar með verður (Forseti hringir.) líka tryggður forgangur íbúanna að orku.