135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

komugjöld í heilsugæslunni.

[11:06]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þm. Bjarni Harðarson, sem er ágætur og heldur oft fínar ræður, sé kannski ekki alveg sanngjarn þegar hann leggur málin upp með þeim hætti sem hér er gert. Menn geta auðvitað haft allar skoðanir á ríkisstjórninni en ég held að ekki sé hægt að halda öðru fram en að hún hafi gengið vel fram í því að bæta hag þeirra sem hafa lægstar tekjur, við þekkjum það og höfum farið í gegnum það hér í þinginu og allir landsmenn vita það.

Eins og hv. þingmaður segir eru 500 kr. fyrir þessa góðu þjónustu ekki hátt gjald. Að auki er um afsláttarfyrirkomulag að ræða eins og við þekkjum. Það er hins vegar verið að skoða það, eins og menn þekkja, í nefnd sem hv. þm. Pétur Blöndal og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir leiða, hvernig þessum málum verði best fyrir komið. (Forseti hringir.) Það má nefnilega alltaf gera betur og kerfið er nokkuð flókið.