135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

staða og horfur í efnahagsmálum.

[11:37]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Það er umrót í efnahagslífinu bæði hér á landi og á alþjóðavísu. Áhrifa frá alþjóðlegum fjármálamörkuðum gætir meira um þessar mundir en áður var og mörg íslensk fyrirtæki starfa á alþjóðlegum markaði.

Stjórnvöld hafa aðallega tvö tæki til efnahagsstjórnar. Annars vegar Seðlabankann með vaxtaákvörðunum sínum og bankinn hefur vissulega verið að gera sitt. Margir telja að það hafi ekki dugað nógu vel og skoðanir eru skiptar um Seðlabankann og aðferðir hans. En þrátt fyrir allt verður að segjast að Seðlabankinn hefur þó verið að sinna sínu hlutverki.

Ríkisstjórnin hefur hins vegar fjárlögin sem sitt helsta tæki og aðhaldsleysi er allt of mikið í ríkisfjármálum. Útgjaldaliðir fjárlaga 2008 eru hátt í 20% hærri en fjárlög 2007, það ber ekki vitni um mikið aðhald. Hæstv. fjármálaráðherra lýsti því yfir í fjölmiðlum í desember að mikið aðhald væri í ríkisfjármálum og rökstuddi það með miklum tekjuafgangi. Það er hins vegar ekki réttur mælikvarði, útgjöld ríkissjóðs og þróun þeirra hljóta að vera mælikvarðinn á aðhaldsstig ríkisfjármála.

Virðulegur forseti. Óveðursský eru á himni í efnahagsmálum og þjóðarskútan velkist í öldurótinu. Spurningin er hvort hún brotlendir í skerjagarðinum eða siglir heil í höfn. Við slíkar aðstæður reynir á skipstjórann og það er hæstv. forsætisráðherra sem heldur um stýrið. Ég segi við ríkisstjórnina: Ræs, það er verk að vinna. Það er ekki kostur í stöðunni að gera ekki neitt og sjá til hvað gerist. Það verður að beita meira aðhaldi í ríkisfjármálum, það þarf að tala meira fyrir íslensku efnahagslífi bæði hér á landi og erlendis. Ég tek undir með hæstv. forsætisráðherra að menn eigi að halda ró sinni í umræðunni en þeir þurfa að halda vöku sinni. Kallað er eftir viðbrögðum og ábyrgum vinnubrögðum, virðulegur forseti. Nú reynir á hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) að stýra skútunni heilli í höfn. Það er mikið í húfi.