135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[13:30]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er ánægjulegt að hér er komið fram frumvarp um varnarmál. Við höfum beðið svolítið eftir því. Það var boðað að það yrði lagt fram í haust og áttum við því von á að fá það miklu fyrr hér inn, en svo fór ekki þannig að það er ánægjulegt að það lítur loksins dagsins ljós.

Að mínu mati eru kannski engar stórar fréttir í því. Það er verið að setja ramma utan um þá stöðu sem uppi er þannig að það eru engar nýjar fréttir í því nema þá helst að skýrt er kveðið á um á hvaða forræði þessi mál eru, hvar þau verði vistuð. Það hafa ríkt einhverjar væringar um það í samfélaginu eins og menn hafa tekið eftir.

Auðvitað urðu mikil tímamót í íslensku samfélagi þegar varnarliðið hélt á brott og þess vegna var mjög brýnt að bregðast við þeirri stöðu. Ég held að í megindráttum hafi tekist þokkalega til. Það er þó ljóst að við erum ekki enn þá komin alveg með alla hluta löggjafarinnar í það horf sem þarf þannig að frumvarpið er mikilvægt að því leytinu. Varnir eru geysilega mikilvægur þáttur í sjálfstæði þjóðar og það er mikilvægt að vel takist til. Það er alveg ljóst, eins og komið hefur fram fyrr í umræðunni, að við höfum vissulega hernaðarlegra öryggishagsmuna að gæta á Íslandi.

Ég vil leyfa mér að gera athugasemd í upphafi við það að ekki var haft boðað samráð við stjórnmálaflokka varðandi þá stefnumótun sem hér er á ferðinni. Ég kýs að kalla þetta stefnumótun, ég held að það sé algjörlega augljóst að það er stefnumótun sem felst í því að velja hvaða stofnanir fari með þessi mál og með hvaða hætti. Menn hafa tekist á um það og nú er niðurstaða fengin. Samráð var boðað af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það segir í stefnuyfirlýsingu hennar að ríkisstjórnin muni fylgja markaðri stefnu í öryggis- og varnarmálum og koma á fót samráðsvettvangi stjórnmálaflokkanna um öryggismál. Hæstv. utanríkisráðherra hefur ekki treyst sér til að ræða um alls kyns samráð. Það verður að segjast eins og er að maður saknar þess mjög að stjórnmálaflokkarnir almennt hafi ekki fengið að koma að þeirri stefnumótun sem svo sannarlega felst í þessu frumvarpi. Til að taka af allan vafa um að hér er ekki bara einhver stjórnarandstæðingur að kvarta, eins og stundum heyrist úr herbúðum stjórnarsinna, vil ég draga það fram að það sama kemur skýrt fram í leiðara Fréttablaðsins í dag. Þar segir, virðulegur forseti:

„Í reynd er Alþingi þegar búið að taka ákvarðanir um þau auknu varnarumsvif sem frumvarpið kveður á um. Það var gert með afgreiðslu fjárlaga. Réttara hefði þó verið að snúa ákvörðunarferlinu við og ræða og ákveða stefnumótunina í varnarmálum á löggjafarsamkomunni áður en fjárheimildirnar voru samþykktar.“

Það er litið svo á, ekki bara hjá stjórnarandstöðunni heldur líka hjá öðrum í samfélaginu, að í þessu frumvarpi felist stefnumótun. Það er verið að velja hverjir eiga að halda utan um þessi mál til a.m.k. nánustu framtíðar.

Varðandi frumvarpið sjálft er settur mjög skýr lagarammi samkvæmt greinargerðinni um þau verkefni íslenskra stjórnvalda sem við þurfum að sinna á sviði öryggis- og varnarmála og aðskilnað þeirra frá öðrum verkefnum stjórnvalda sem eru borgaraleg í eðli sínu, svo sem löggæslu og almannavörnum. Í frumvarpinu er fjallað um verkefni sem snúa að varnarviðbúnaði ríkisins og ytra öryggi þess. Þau verkefni eru unnin af íslenskum starfsmönnum nú um mundir en voru áður unnin af erlendum hermönnum í umboði íslenskra stjórnvalda á grundvelli varnarsamningsins og annarra afleiddra samninga.

Hér kemur líka skýrt fram að ekki sé ætlunin að setja á fót íslenskan herafla en það sé mjög mikilvægt að þessi verkefni séu skilgreind í lögum. Ég tek svo sannarlega undir það.

Það kemur líka fram að það sé mikilvægt að þessi verkefni séu skýrt aðgreind frá öðrum innlendum stjórnsýsluverkefnum. Um þetta hafa menn togast á upp á síðkastið. Hér segir:

„Þetta er sérstaklega mikilvægt í tilviki lögreglu og landhelgisgæslu, sem eru í eðli sínu borgaralegar stofnanir og eiga að njóta trúnaðar sem slíkar. Það er afar mikilvægt fyrir réttaröryggi borgaranna að ekki sé blandað saman almennri löggæslu og störfum að landvörnum.“

Það er vísað í að í okkar heimshluta séu lögreglu ekki falin verkefni sem lúta að gæslu ytra öryggis ríkja. Með skýrum aðskilnaði er lýðræðislegt eftirlit með þessari starfsemi jafnframt auðveldað og tryggt nauðsynlegt gagnsæi í framkvæmd varnartengdra verkefna. Og svo kemur hér, virðulegur forseti:

„Frumvarpið útilokar á hinn bóginn ekki að stofnað verði til samstarfs milli stofnana sem starfa á grundvelli ákvæða þess og borgaralegra stofnana íslenska ríkisins sem vinna að gæslu almannaöryggis. Yrði þar um gagnsæja samninga milli stofnana að ræða.“

Fyrst hér eru bæði hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. dómsmálaráðherra — sem ég held að engum dyljist að hafa tekist á um þessi mál, hvar þau eigi að vera vistuð og með hvaða hætti — vil ég gjarnan fá að nýta tækifærið og spyrja hæstv. dómsmálaráðherra, ef hann kemur hér upp í síðari ræðu — ég get líka spurt hæstv. utanríkisráðherra: Vegna þess sem kemur hér fram, að það eigi að vera hægt að gera samninga eða menn geti falið borgaralegum stofnunum verkefni — og ég heyrði í ræðu hæstv. dómsmálaráðherra að hann tiltók sérstaklega öryggisgæsluna á Keflavíkurflugvelli og taldi að það væri, eins og ég skildi hæstv. ráðherra, mikilvægt að nýta ákvæðin um heimildir til samninga gagnvart þeirri öryggisgæslu í Keflavík — langar mig í tilefni af því að hæstv. ráðherra kýs að taka þetta sérstaklega út úr að spyrja hvort það séu einhverjar deilur um þetta. Eru hæstv. ráðherrar kannski sammála um að öryggisgæslan á varnarsvæðinu í Keflavík verði undir lögreglustjóranum þar? Eða á þetta að vera undir Varnarmálastofnun eins og frumvarpið gerir ráð fyrir? Þannig skil ég það. Er einhver togstreita þarna á milli?

Fyrst ég er byrjuð að tala um togstreitu vil ég líka fá að spyrja hvort það sé ekki alveg ljóst að loftrýmisgæslan, þ.e. ratsjárstöðvarmálin, gæslan á loftrými okkar, falli undir Varnarmálastofnun en alls ekki Skógarhlíðina. Er e.t.v. áfram einhver meiningarmunur þar á? Það hefur alveg komið skýrt fram í opinberri umræðu að hæstv. dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, hefur talið að ekki þyrfti sérstaka stofnun utan um Ratsjárstofnun, þau verkefni gætu átt heima í Skógarhlíðinni. Þannig hef ég skilið fréttaflutning á opinberum vettvangi og þannig hefur líka hv. þm. Jón Gunnarsson úr Sjálfstæðisflokknum talað. Ég vitna kannski aðeins í þá seinna í ræðunni.

Varðandi vistun á þessum verkefnum vil ég líka draga fram í umræðunni að á blaðsíðu 32 í frumvarpinu er kafli sem heitir Niðurstöður og tillögur starfshópsins. Þetta er starfshópur sem settur var upp til að undirbúa snurðulausa yfirtöku íslenskra stjórnvalda á starfsemi Ratsjárstofnunar og aðlögun að íslenskri stjórnsýslu. Hann var skipaður 1. ágúst 2007, á síðasta ári. Þessi starfshópur skilaði áfangaskýrslu um yfirtöku á rekstri Ratsjárstofnunar og í niðurstöðukafla hans eru að mínu mati færð mjög sterk og góð rök fyrir því að vistun á þessum verkefnum verði hjá utanríkisráðuneytinu og stofnunum þess en ekki hjá borgaralegum stofnunum. Ég held að þeir sem hafi verið í vafa um hvar vistun þessara verkefna eigi að vera geti séð það ágætlega í niðurstöðukafla áfangaskýrslu starfshópsins að það eru mun sterkari rök fyrir því að þessi mál séu betur komin í höndum utanríkisráðuneytisins og innan stofnunar á vegum þess.

Auðvitað hefði verið hægt að vista málin hjá ráðuneytinu sjálfu, í skrifstofu eða deild þar innan dyra, en vegna eðlis þessara mála, þ.e. að hér á að reka loftvarnakerfi og undirbúa heræfingar vegna samskipta við hernaðarstofnanir NATO-ríkjanna, eru þessi verkefni betur komin í stofnun en í ráðuneyti.

Varðandi þær yfirlýsingar sem hafa verið gefnar í aðdraganda þessa máls vil ég draga hér fram að hæstv. dómsmálaráðherra kynnti ríkisstjórninni skýrslu um víðtækar öryggisráðstafanir á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og stofnana þess. Í niðurstöðum þeirrar kynningar segir að mikið hafi áunnist á undanförnum árum við að samhæfa störf allra sem að öryggismálum koma. Síðan segir hér, virðulegur forseti, og ég vitna í frétt úr Fréttablaðinu þar sem er vitnað í hæstv. ráðherra Björn Bjarnason:

„Stílbrot á þeirri þróun að koma á fót nýrri stofnun í kringum ratsjárkerfið. Íhuga alla þætti vel, áður en það skref er stigið.“

Þetta er sett hér innan tilvitnunarmarka þó að ég hafi reyndar líka heyrt einhverjar skýringar um að þetta væru talpunktar. Ég átta mig ekki alveg á því hvernig þetta var fært fram en það er a.m.k. ljóst að það hafa verið deilur um hvar ætti að vista þessi verkefni. Hv. þm. Jón Gunnarsson hefur lýst því yfir — og það segir í sömu frétt — að réttara væri að samhæfingarmiðstöðin í Skógarhlíð læsi úr merkjum íslenska loftvarnakerfisins en að stofnuð yrði sérstök varnarmálastofnun. Hann segir ljóst að skiptar skoðanir séu um það innan stjórnarflokkanna hvort hægt sé að blanda saman rekstri sem tengist NATO og borgaralegum verkefnum hér á landi.

Það er ekki eins og að stjórnarandstaðan sé að draga fram og reyna að búa til einhvern ágreining á milli flokkanna. Stjórnarþingmenn sjálfir viðurkenna hann. Hér hefur verið mikið tog á bak við tjöldin.

Virðulegur forseti. Ég vil líka, fyrst að báðir ráðherrarnir eru hér, fá að spyrja út í frumvarp sem er til vinnslu í allsherjarnefnd um almannavarnir. Í því frumvarpi segir í 1. gr. — þetta er atriði sem ég gerði líka að umtalsefni þegar við ræddum almannavarnafrumvarpið við 1. umr. fyrir jól — að markmið almannavarna sé að undirbúa, skipuleggja og framkvæma ráðstafanir sem miða að því að koma í veg fyrir og takmarka eftir því sem unnt er að almenningur verði fyrir líkams- eða eignatjóni af völdum ýmissa atriða, svo sem náttúruhamfara eða af mannavöldum og farsótta. Svo kemur það sem ég bið þingheim að hlusta á: hernaðaraðgerða eða hryðjuverka eða af annarri hættu og veita líkn í nauð og aðstoð vegna tjóns sem hugsanlega kann að verða eða hefur orðið, enda falli þau störf ekki undir aðra samkvæmt lögum.

Mér finnst vert að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra, ef hann kemur upp í aðra ræðu, hvort stuðningur hans við frumvarpið um Varnarmálastofnun sé eitthvað háð því að frumvarpið um almannavarnir verði afgreitt. Það eru mjög miklar athugasemdir við það frumvarp í allsherjarnefnd, þær koma frá umsagnaraðilum, þar sem menn hafa einmitt togast á um Varnarmálastofnun, það er sama hugmyndafræði sem menn gagnrýna sem hafa komið með athugasemdir við almannavarnafrumvarpið, þ.e. hvar þessi hernaðarlegu sjónarmið eiga að vera og hvar hin borgaralegu.

Í frumvarpinu kemur líka fram að það á að koma á stofn almannavarna- og öryggismálaráði. Ég hef gert athugasemdir við það og hefði talið betra að draga út orðið öryggismálaráð af því að það vísar of mikið að mínu mati í verkefni Varnarmálastofnunar.

Virðulegur forseti. Tími minn er á þrotum. Ég vil almennt segja að ég tel mjög gott að málið sé komið fram. Ég styð að þessi verkefni séu vistuð hjá utanríkisráðuneytinu og í sérstakri stofnun og (Forseti hringir.) hlakka til að fá að taka þátt í vinnunni í utanríkismálanefnd.