135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[14:52]
Hlusta

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Frumvarp það sem hér liggur fyrir er mikið að vöxtum og vekur upp margar spurningar, fleiri en hægt er að fjalla um í stuttri ræðu. En ég vil víkja að einum þætti sem lýtur að rekstri öryggissvæða og þá sérstaklega öryggissvæðisins við Keflavíkurflugvöll sem einkum er fjallað um í 12. og 13. gr. Tilefnið er nýleg bókun sem samþykkt var í bæjarráði Reykjanesbæjar.

Tildrög málsins eru þau að á árinu 1999 hófu Samtök hernaðarandstæðinga sem þá nefndust Samtök herstöðvaandstæðinga átak þar sem bæjar- og sveitarstjórnir um land allt voru hvattar til að lýsa því formlega yfir að viðkomandi sveitarfélög væru friðlýst fyrir allri umferð og geymslu kjarnorku-, sýkla- og efnavopna. Erindi þetta fékk víðast hvar mjög góðar undirtektir og var til að mynda samþykkt samhljóða í borgarstjórn Reykjavíkur í borgarstjórnartíð hæstv. utanríkisráðherra. Nú er svo komið að öll sveitarfélög á Íslandi nema fimm hafa samþykkt slíka friðlýsingu.

Á dögunum ítrekuðu Samtök hernaðarandstæðinga erindi sitt við forráðamenn Reykjanesbæjar eins og sagt hefur verið frá í fjölmiðlum. Skemmst er frá því að segja að erindinu var hafnað. Rökstuðningur bæjarráðs vekur þar sérstaka athygli og skiptir verulegu máli í tengslum við það frumvarp sem við ræðum nú. Bókunina má lesa á heimasíðu Reykjanesbæjar og vef Samtaka hernaðarandstæðinga, friður.is en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar 10. janúar 2008 var til afgreiðslu og umfjöllunar erindi Samtaka hernaðarandstæðinga, dagsett 3. janúar sl., þar sem ítrekuð er ósk um friðlýsingu bæjarlandsins fyrir kjarnorku- og efnavopnum. Eftirfarandi var fært til bókar: Reykjanesbær telur málið ekki vera á sínu forræði þar sem innan bæjarmarkanna er m.a. flugverndarsvæði sem er á forræði utanríkisráðuneytisins og vísar í fyrri afstöðu. Guðbrandur Einarsson situr hjá og vísar í fyrri afstöðu þar sem fram kemur stuðningur hans við erindi hernaðarandstæðinga.“

Þessi afstaða meiri hluta bæjarráðs Reykjanesbæjar er afar athyglisverð. Hún segir okkur nefnilega hvaða hugmyndir sveitarstjórnarmenn á svæðinu gera sér um eðli þeirrar starfsemi sem fer fram eða mun fara fram á verndarsvæði því sem Varnarmálastofnun er ætlað að reka þarna og fjallað er um í 6. og 7. gr. þessa lagafrumvarps. Meiri hluti bæjarráðs Reykjanesbæjar telur greinilega að jafnvel þótt kjörnir fulltrúar vildu hugsanlega ekkert fremur en að bæta Reykjanesbæ í hóp friðlýstra sveitarfélaga þá sé þeim það óheimilt þar sem málið er á forræði utanríkisráðuneytisins. Raunar má líta svo á að með þessari bókun sé bæjarráð Reykjanesbæjar beinlínis að kalla eftir því að ríkisvaldið eyði óvissunni og kveði upp úr um það hvort öryggissvæðin sem talin eru upp í 12. gr. frumvarpsins skuli vera skilgreind kjarnorku- og efnavopnalaus. Í ljósi þessarar afstöðu heimamanna tel ég liggja beint við að í tengslum við þessa lagasetningu verði tryggt með afdráttarlausum hætti að Varnarmálastofnun sé með öllu óheimilt að leyfa geymslu eða umferð kjarnorku-, sýkla- og efnavopna um þau öryggissvæði sem henni er falið að reka samkvæmt 12. gr. frumvarpsins. Með því móti væri hægt að eyða þeirri óvissu sem ýmsir sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum virðast vera í um það hvort þeim sé heimilt að vera á móti kjarnorkuvopnum í bæjarlandi sínu.