135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

framboð Íslands til öryggisráðsins.

[15:49]
Hlusta

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ísland hefur verið aðili að Sameinuðu þjóðunum í rúmlega 60 ár en hefur aldrei áður sóst eftir sæti í öryggisráðinu. Við erum sjálfstætt lýðræðisríki, öflugir talsmenn frelsis og mannréttinda og eigum því fullt erindi í ráðið sem talsmenn þessara gilda. Við erum einnig fulltrúar smærri aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna en samtökin eru ekki klúbbur stórvelda heldur samtök allra sjálfstæðra ríkja heims, stórra sem smárra. Við höfum farið fram af metnaði og í þeirri vissu að við höfum ýmislegt fram að færa og til málanna að leggja í samfélagi þjóðanna. Við höfum hins vegar á sama tíma farið fram af hógværð og lítillæti meðvituð um að við erum lítil þjóð. Ég er ánægð með hvernig barátta Íslands hefur verið rekin, fyrst og síðast á efnislegum og faglegum grunni. Síðan á eftir að koma í ljós hvernig okkur vegnar í baráttunni, það er ekkert í hendi með það. Hvernig sem fer getum við verið stolt af framgöngu okkar og dregið mikinn lærdóm af þessu starfi.

Hv. málshefjandi hafði áhyggjur af því að við gætum ekki verið sannfærandi talsmenn mannréttinda í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í ljósi nýlegs álits mannréttindanefndarinnar varðandi fiskveiðistjórnarkerfið og hann hafði sérstakar áhyggjur af viðbrögðum hæstv. forsætisráðherra og hæstv. sjávarútvegsráðherra gagnvart því. Ég get róað hv. þingmann með því að greina honum frá því að í fyrsta lagi hefur enginn talsmaður íslenskra stjórnvalda talað með þeim hætti að álit nefndarinnar yrði ekki tekið alvarlega. Þvert á móti sagði hæstv. forsætisráðherra á Alþingi í síðustu viku að Ísland hefði nú 180 daga til að fara yfir málið og það yrði gert. Það er ekki bundið af þjóðarrétti þvert á það sem hv. þm. Jón Magnússon vildi halda fram.

Síðan er rétt að geta þess að Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO, sem hefur mest um þennan ágæta málaflokk að segja, hefur ítrekað lýst því yfir að okkar kerfi væri til fyrirmyndar hvað varðar sjávarútveg. Ég tek það álit Sameinuðu þjóðanna líka mjög alvarlega.