135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

272. mál
[16:07]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það frumvarp sem hæstv. sjávarútvegsráðherra mælti hér fyrir er um að setja í kvóta allar veiðar sem stundaðar eru í sambandi við sjóstangaveiði og fiskveiðar ferðamanna.

Menn hafa verið að byggja upp atvinnugrein í kringum sjóstangaveiðina, ekki hvað síst í sjávarplássunum í kringum Vestfirði og reyndar víðar og eru miklar vonir bundnar við þessa atvinnugrein. Ég hygg að von sé á allt að 3.000 ferðamönnum á þessu ári aðeins á Vestfirðina til að stunda þessa grein og miklar væntingar eru bundnar við hana í heimabyggðunum til eflingar nýs atvinnulífs því að þetta er ný grein. Ef menn þurfa nú að kaupa fiskveiðiheimildir til að hægt sé að stunda þessa atvinnugrein kemur þar til nýr stofnkostnaður, viðbótarstofnkostnaður fyrir þessa ferðaþjónustugrein sem óvíst er að hún standi undir. Ég vil því spyrja ráðherra hvort hann haft gert sér grein fyrir því eða hvort það liggi fyrir hver sé kostnaður ferðaþjónustunnar á Vestfjörðum af kvótum eða í því að eiga kvóta, kaupa kvóta eða leigja kvóta, miðað við þá starfsemi sem fyrirhuguð er á þessu ári. Og í öðru lagi: Kemur til greina að úthluta sérstökum kvóta, sérstökum aflaheimildum eins og gert er þegar þorskur er veiddur til fiskeldis, (Forseti hringir.) sem ferðaþjónustubændur gætu þá fengið að ráðstafa en þurfa ekki að leysa til sín á fullu verði?